Netmiðlar lúta lögum

Punktar

Fjölmiðlar og aðrir, sem gefa út netmiðla af ýmsu tagi, eiga að gefa bloggurum auðveldan kost á að birta eingöngu athugasemdir undir fullu nafni. Þar með væri ábyrgð vísað frá netþjónum, netmiðlum og viðurkenndum bloggurum yfir á hendur fólks, sem nú felur geðveiki sína undir nafnleysi. Það mundi sleppa athugasemdunum eða vanda þær betur. Hvort tveggja er góður kostur. Dómvenja hefur skapazt um, að lög um prentmiðla gilda um ljósvakamiðla og munu því einnig gilda um netmiðla, þótt á það hafi ekki reynt. Fyrir rest er prentarinn ábyrgur, það er að segja netþjónninn.

Herbert laug

Fjölmiðlun

Ég biðst afsökunar á siðblindu Herberts Guðmundssonar, sem var blaðamaður hjá mér fyrir löngu. Hann segist þá hafa falsað viðtöl við Steingrím Hermannsson forsætisráðherra. Þetta er andstætt öllum reglum blaðamennsku. Hún sætir alls konar árásum og á sér þá vörn helzta, að hún fari með satt mál. Ef blaðamenn ljúga upp viðtölum, ráðast þeir að sjálfum hornsteini starfsins. Mér er stórlega brugðið. Ég vissi ekki af þessu atferli Herberts, fordæmi það eindregið og biðst afsökunar á því. Ég vona, að enginn taki upp þessi siðblindu vinnubrögð.

Kristilegur matur

Punktar

Samhjálp reyndi að halda leyndri svartri skýrslu um stuðningsheimilið að Miklubraut 18. Í fimm mánuði þögðu þessi kristilegu samtök um hneykslið. Þau þegðu enn, ef fjölmiðlar hefðu ekki komizt í málið. Samhjálp vissi um útrunninn og skemmdan mat á heimilinu, en vildi ekki láta borgina vita. Einhverjir starfsmenn velferðarráðs borgarinnar eru viðriðnir skemmda matinn, enda hefur formaður ráðsins varið seinaganginn. Þarna hefur enn og aftur verið notuð kristileg aðkoma að velferð, sem á að vera hjá fagfólki.

Óðir verktakar

Punktar

Skemmdir verktaka Kópavogsbæjar á Heiðmörk eru dæmigerðar fyrir ofsann, sem fylgir sumum jarðýtumönnum og raunar líka Kópavogsbæ. Þeir grófu sundur lund, sem gróðursettur var í fyrra af ungum börnum til að safna í þróunarhjálp. Þeir grófu líka sundur þjóðhátíðarlundinn. Orkuveitan segir, að umgengni verktakanna hafi verið sérstök. Þeir hafi grafið tuttugu metra breitt svæði í stað tíu metra. Þeir hafi grafið á vitlausum stað. Þeir hafi einnig lagt bílaslóðir gegnum kjarr fjarri vettvangi. Það eru miklir athafnamenn hjá Kópavogsbæ.

Lög um bankaokrið

Punktar

Tímabært er að setja lög gegn bankaokrinu, hvað sem Jón Sigurðsson bankaráðherra segir því til varnar. Hann segir sjálfur, að ráðherra geti ekki beðið Fjármála- eða Samkeppniseftirlitið að fara í málið. Það þýðir, að smíða verður lög til að koma böndum á okrið. Stjórnarflokkarnir hafa einkavætt bankanna á kostnað almennings. Úr ríkiseinokun hefur verið búin til einkaeinokun. Bankarnir ganga í takt gegn almenningi og spilla afkomu fólks. Þeir éta skuldara sína með húð og hári. Þetta verður að stöðva. En Jón Sigurðsson er enginn maður til þess.

Stríðsyfirlýsing Jóns

Punktar

Ég skil ekki Jón Sigurðsson ráðherra. Hann lýsir stríði á hendur náttúruverndarsinnum og kallar það tillögu að þjóðarsátt. Flest fólk er annað hvort með eða móti álverum og orkuverum á hálendinu. Jón hefur hins vegar ekki áhuga á slíku, heldur er hann fylgjandi ákveðnu ferli, sem sé lögum samkvæmt. Það ferli byrji með, að reistar séu álbræðslur á Húsavík og í Hafnarfirði áður en sjálft friðarferli Jóns hefst. Það er eins og að semja um frið í stríði með þeim skilmála, að friðurinn byrji eftir fjögur ár. Hugarfar Jóns er rangt. Verra er, að það skilzt ekki og selzt ekki.

Stjórnarskráin endurlífguð

Punktar

Spánverjar og ýmsir fleiri stuðningsmenn stjórnarskrár fyrir Evrópu vilja endurlífga hana eftir fall í atkvæðagreiðslu í Hollandi. Þeir benda á, að ekki noti öll ríki sér alla þjónustu Evrópusambandsins. Nokkur ríki noti enn sína eigin mynt og Bretland sé ekki aðili að Schengen-samkomulaginu um landamæravörzlu. Ekki þurfi heldur að gera ráð fyrir, að öll ríki vilji nota evrópska stjórnarskrá. Hin mörgu ríki, sem samþykktu hana, geti tekið hana upp, þótt nokkur ríki geri það ekki. Þau fáu ríki megi ekki hindra meirihluta ríkjanna í að nota sér góðan pappír.

Betra seint en aldrei

Punktar

Þeir, sem hverfa úr þjónustu Bandaríkjastjórnar, eru yfirleitt fljótir að verða andsnúnir stefnu, sem þeir áttu sjálfir þátt í að móta. Frægastur er Colin Powell, sem laug að Sameinuðu þjóðunum og segist nú sjá eftir því. Annað frægt dæmi er Robert McNamara, sem keyrði áfram stríð gegn Víetnam, sem hann er núna orðinn andvígur. Flest dæmin koma úr röðum stríðssinna, sem eru hættir störfum. Þeir nota þá tækifærið til að segja frá, að þeir séu andvígir ofbeldi. Í þeim hópi eru George Lee Butler, Paul Nitze, George Schultz, Sam Nunn og William Perry, jafnvel Henry Kissinger.

Glannaleg gamansemi Geirs

Punktar

Geir H. Haarde vill vera gamansamur maður. Hann minnir stundum á leikarann, sem kom með replikkur á röngum stöðum. Geir varð frægur fyrir að segja það gera sama gagn, að ná heim einhverri stúlku af ballinu, þótt hann næði ekki þeirri fegurstu. Nú hefur hann aftur orðið frægur af að segja tíu konur, sem urðu barnshafandi í Byrginu, kannski hafa orðið óléttar hvort sem er. Ekki er ljóst, hvar hann fékk þær upplýsingar. Gamansemi ráðherrans er sér á parti karlrembunnar og varla í samræmi við félagslegan rétttrúnað. Samfélagið hefði meira gagn af einlægri afsökunarbeiðni fyrir hönd ríkisvaldsins.

Yfirlýsingar í spurnarformi

Punktar

Ég vann einu sinni í nefnd með manni, sem gerði ekkert gagn, en flæktist sífellt fyrir með yfirlýsingum í spurnarformi. Ég varð pirraður á honum og losaði mig við hann sællar minningar. Sami stíll er á þættinum Staksteinum í Morgunblaðinu. Þar eru yfirlýsingar gefnar í spurnarformi: Hvað gerir Ingibjörg Sólrún? Ætlar hún að tala gegn þessu? Ætlar hún virkilega í slag við Lúðvík? Þar eru spurningamerki líka sett aftan við málsgreinar, sem ekki fela í sér neina spurningu. Mér finnst stundum, að hrútleiðinlegi nefndarmaðurinn skrifi þennan skondna pistil í Moggann.

Góðsemi á kostnað annarra

Punktar

Gaman er að vera ríkur fyrir annarra fé. Kosningaskrifstofur ráðherranna, öðru nafni ráðuneyti, unga út greinargerðum, þar sem lofað er upp í ermina ofurupphæðum í vinsældamál á borð við vegi og göng og háskóla. Pappírarnir munu ekki verða að veruleika. Reynslan sýnir til dæmis, að vegaáætlanir þenjast mest út fyrir kosningar, skreppa saman á sumrin og þenjast svo aftur út fyrir jól. Yfirlýsingar ráðherra um góðsemi sína á kostnað framtíðarinnar eru einskis virði. En kannski eru einhverjir kjósendur alltaf tilbúnir til að trúa.

Rétt lýsing Egils

Punktar

Ég er sammála rökum Egils Helgasonar um frekju auðmagnsins, sem heitar sífellt meiri forréttindi umfram fátæklinga. Sama er, hversu lág verða gjöld fyrirtækja, á endanum heimta forstjórarnir núllgjöld. Óréttlætið og stéttaskiptingin í landinu sést bezt af, að skattur á vinnutekjur er 38%, en skattur á fjármagnstekjur er 10%. Skýrara dæmi er ekki hægt að finna um klofning þjóðarinnar í tvær þjóðir, sem eiga ekkert sameiginlegt. Sjálfur borga ég margfalt hærri skatta en Björgólfur Thór Björgólfsson. Ég er skattalegur merkisborgari, en hann er ekki einu sinni meðborgari.

Misjafnt fiskerí

Punktar

Of tíðar eru kannanir á fylgi flokkanna. Hversu oft verða þær, þegar nær dregur kosningum? Spjall um breytingar á fylgi flokka yfirgnæfir spjall um, hvað flokkarnir muni gera á næsta kjörtímbili. Tilbreyting var þó að fá inn á milli könnun á trausti flokksfeðra. Steingrímur J. Sigfússon nýtur álits út fyrir flokkinn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtur ekki álits alls flokksins. Aðrir eru í meðallagi, nema Björn Bjarnason, sem sífellt er jafn óvinsæll, og Jón Sigurðsson, sem mælist alls ekki. Könnun Fréttablaðsins segir, að Samfylking og Framsókn þurfa að fara að huga að nýjum formanni.

Þjóðarsátt þríflokks

Punktar

Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz segjast vera að bralla þjóðarsátt um nýtingu á auðlindum. Eftir lýsingum þeirra er ekki um þjóðarsátt að ræða, heldur sátt milli stjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar um undanbrögð og athuganir fram yfir kosningar, svo að hægt sé að setja aukinn kraft í stórvirkjanir eftir kosningar. Ég veit ekki, hverjir eiga að trúa spunanum um þjóðarsátt, en hræddur er ég um, að kaupendur verði fáir, nema nokkrir bæjarstjórar og bæjarfrömuðir Samfylkingarinnar, sem sakaðir hafa verið um að reyta fylgið af henni til að koma álveri í Hafnarfjörð og Húsavík.

Sadistasjónvarp

Punktar

“24” er ógeðslegasta efni sjónvarpsins fyrr og síðar. Þessi langvinna sería frá Fox sýnir illa geðveikan leyniþjónustumann að nafni Jack Bauer, leikinn af Kiefer Sutherland, pynda meinta óvini ríkisins og starfa að mestu leyti á svig við lög ríkisins. Bandarískir hershöfðingjar heimsóttu ábyrgðarmenn seríunnar og kvörtuðu yfir, að bandarískir hermenn í Írak horfðu á þessa sadistaþætti og töldu þá til fyrirmyndar. Hershöfðingjarnir sögðu pyndingar ekki toga sannleikann úr fólki, sízt múslimskum öfgamönnum, heldur tóma lygi. Þær færi þeim hins vegar langþráð píslarvætti. Sjá The New Yorker.