Heimsfrægð er hætt

Veitingar

Aðstandendur Food & Fun hátíðarinnar hafa tekið mark á gagnrýni. Þeir halda ekki lengur fram, að heimsfrægir séu erlendu kokkarnir, sem nú keppa og elda á veitingahúsum hér í bæ. Ég kannaði málið á sínum tíma og komst að raun um, að þeir voru aðeins heimsfrægir á Íslandi. Í textreklame Moggans er að þessu sinni farið með löndum og ekki fullyrt neitt um heimsfrægð kokkanna. Aðstandendur ferða íslenzkra kokka á vit franska kokksins Bocuse mættu læra af þessu. Bocuse er enginn stólpakokkur, ekki meðal hundrað beztu í Frakklandi. Keppni hjá honum er einskis virði.

Króníka drottninga

Punktar

Króníkan var ekki beinlínis fyrir mig. Þar var of mikið af drottningarviðtölum. Ég hafði skakkar væntingar, vonaðist eftir Helgarpóstinum eða Time. Auðvitað má fólk gefa út öðru vísi blöð. En umræðunnar vegna hafði ég gert mér aðrar væntingar. Spáð hafði verið rannsóknum og uppljóstrunum. Of daufur aðalréttur fólst í margorðri úttekt á máli, sem áður var í fjölmiðlum, íslenzkum merkingum á sjóræningjafiski. Ég var löngu áður kominn með upp í háls af drottningarviðtölum. Við þurfum ekki fleiri slíka fjölmiðla. Hannes Smárason var ekki einu sinni spurður um stæði fatlaðra.

Þýðingar Barlómsins

Punktar

Skemmtilegasti texti, sem ég hef lesið þetta árið, er klausa á bls. 76 í Króníkunni. Þar rekur Barlómurinn orðanotkun stjórnmálamanna, þegar þeir vilja forðast að segja sannleikann. Þar er losun gróðurhúsalofttegunda kölluð “umhverfisvæn notkun endurnýjanlegra orkugjafa” og stóriðjustefna er kölluð að “hafa málið í vönduðum farvegi.” Þar eru risaálver kölluð “deiliskipulag” og miðlunarlón kölluð “rólegt, manngert landslag”. Ég man ekki eftir nokkurri eins samþjappaðri lýsingu á froðusnakki og undanbrögðum landsfeðra og felst í þessari ágætu grein Barlómsins.

Stórhveli illskunnar

Punktar

Vestrænir stjórnmálamenn kalla þær ríkisstjórnir hófsamar í heimi múslima, sem verstar eru. Fremst fer þar í flokki stjórn Sádi-Arabíu, sem rekur ofsafengna útgáfu af íslam, pyndir fólk og afhausar það, ef það rífur kjaft. Þar ræður þingið engu og konur fá ekki einu sinni að keyra bíl. Önnur ill stjórn, sem kölluð er hófsöm, er stjórn Egyptalands, sem þolir ekki neina andstöðu og pyndir fólk og myrðir fyrir að rífa kjaft. Þessi tvö ríki eru dæmigerð fyrir hræsni vesturlanda í samskiptum við ríki múslima. Hamas og Hesbolla eru síli í samanburði við þessi stórhveli illskunnar.

Jörðin er lasin

Punktar

Jörðin er lasin, segir Thomas E. Lovejoy í International Herald Tribune. Við tökum eftir, að eitthvað meira en lítið er að, þegar stórviðri skekja heilu löndin, jöklar bráðna og hafsjóir ganga á land. Hann telur, að líta beri þennan lasleika sömu augum og þegar fólk verður illa veikt. Það verði að gera eitthvað raunhæft í því, ekki bara taka magnyl. Hálfkák dugar ekki hér og þar, þegar sjálft hagkerfið er ekki sjálfbært. Ef jörðin væri maður, væri fyrir löngu búið að senda hana í Hjartavernd og setja ráðamönnum hennar lífsreglur um framhaldið.

Öll göng ókeypis

Punktar

Íslendingar hafa borgað niður Hvalfjarðargöngin að fullu og eiga nú að fá að fara frítt í gegn eins og lofað var. Um það var samið í upphafi. Það eru svik að láta menn borga áfram til að kosta viðbótargöng. Komin er tími til að eini vegatollur landsins verði lagður niður. Síðan þessi göng voru grafin, hafa önnur göng komizt í brúk án þess að gjald sé innheimt. Samgöngur á landi eru mikilvægur þáttur í jafnrétti eftir búsetu. Svo er annað mál, hvaða göng gagnast mest hverju sinni, viðbótargöng í Hvalfirði eða til dæmis göng í miðri Reykjavík.

Hræðsla heimsbyggðar

Punktar

Risakönnun á vegum BBC sýnir þau atriði, sem meirihluti heimsbyggðarinnar er á móti. Þau eru talin upp hér að neðan, fyrst það, sem flestir eru á móti: 1. Stríð Bandaríkjanna gegn Írak, 73%. 2. Bandarískur her í Miðausturlöndum, 68%. 3. Meðferð fanga í Guantanamo, 67%. 4. Stríð Ísraels gegn Hezbolla í Líbanon, 65%. 5. Kjarnorkuáætlun Írans, 60%. 6. Mengun andrúmsloftsins, 56%. 7. Kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu, 54%. Þrjú verstu atriðin eru á vegum Bandaríkjanna og það fjórða á vegum Ísraels. Vandamál af völdum Írans og Norður-Kóreu koma þar á eftir. Stærsti vandi heims komst bara í sjötta sæti.

Viðurkenna ekki úrslit

Punktar

Margir þeir, sem segjast vera miklir lýðræðissinnar, geta ekki sætt sig við niðurstöður heiðarlegra kosninga. Þannig geta Bandaríkin og Evrópusambandið ekki sætt sig við meirihlutasigur Hamas í Palestínu og reyna af alefli að grafa undan honum. Nýjasta dæmið um þetta er Serbía, þar sem þrír flokkar grímulausra þjóðernissinna fengu meirihluta atkvæða. Evrópusambandið segir ekki koma til mála annað en að taparar myndi ríkisstjórn. Neil Clark skrifar grein um það í Guardian. Þriðja dæmið um þetta frá síðustu árum voru kosningarnar í Alsír, sem herinn í landinu ógilti að kröfu Bandaríkjanna.

Borgarar éta sig

Punktar

Karl Marx og Friedrich Engels höfðu að því leyti rétt fyrir sér, að rökrétt niðurstaða markaðslögmála er einokun. Fyrirtæki éta hvert annað, unz tvö eða þrjú standa til málamynda eftir og semja um markaðinn. Þetta kölluðu þeir, að borgarastéttin æti sjálfa sig. Tristam Hunt skrifar grein um þetta í Guardian í tilefni af tilboði Nasdaq í Stock Exchange. Við þekkjum þetta vel á Íslandi. Hér er bara samkeppni á litlum reitum, svo sem í bílainnflutningi. Skiptir þá engu, hvort fyrirtækin auglýsa eins og bankarnir íslenzku. Þeir auglýsa ekki bætt kjör, enda hafa þeir vond kjör fyrir alla.

Vinnuvika kennara

Punktar

Ég skil vel, að kennarar þurfi nítján stundir til að undirbúa átján stunda kennslu og sinna ýmissi skriffinnsku, sem fylgir starfinu. Það er meðal þess sem kemur fram í nýjum bæklingi grunnskólakennara. Ég spyr hins vegar, hvort skólar og kerfi fylgist með, hvort kennarar vandi sig svona mikið. Einnig spyr ég, hvort sömu aðilar fylgist með árangri allra kennara á 150 stunda námskeiðum á hverju ári. Ef öllu þessu er fylgt eftir, má líta svo á, að kennarar vinni sem svarar fjörutíu stunda vinnuviku árið um kring. En hræddur er ég um, að víða séu gloppur, þegar 18 stundir verða að 40.

Órar sækja fram

Punktar

Ofsatrúarsöfnuðurinn Krossinn sækir nú fram með kreddu af ýmsu tagi. Þar á meðal eru kenningar um, að Biblían sé spádómsrit fremur en helgirit. Þar megi lesa framtíðina milli lína, til dæmis um væntanleg ragnarök, um þátt Ísraels í darraðardansinum og um daVinci lykilinn. Senn hefst málþing, þar sem Krossinn teflir fram Jóni Gnarr og séra Þórhalli Heimissyni þessu til sönnunar. Það er í slíkum jarðvegi skammhlaups milli kristni annars vegar og trúar á spádóma hins vegar, sem upp rís rugl á borð við Byrgið. Kynórar hafa öldum saman verið næsti bær við trúaróra.

Hafró gegn lífríki

Punktar

Hafró hefur undir stjórn Jóhanns Sigurjónssonar orðið að áberandi óvini umhverfisverndar. Flúið hafa fiskifræðingar, sem hafa áhyggjur af skemmdum miðum, skaðlegum veiðarfærum og almennri ofveiði. Eftir sitja jámenn, sem gera og segja það, sem þeim er sagt. Hætt er við, að þessi firrta stefna hefni sín, þegar vandræðin verða betur ljós. Þá verður Hafró sökuð um að hafa svikizt um á verðinum. Raunar hefur Jóhann gert stofnunina að síamstvíbura Fiskifélagsins, svörtustu afturhaldsstofnunar landsins frá sjónarmiði sjálfbærrar umgengni við vistkerfið.

Logið upp svörtum sandi

Punktar

Afleitt er drottningarviðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Friðrik Sófusson í Blaðinu í dag. Þar heldur Friðrik fram, að andstaðan við orkuver á borð við Kárahnjúka og Neðri-Þjórsá sé náttúruvernd hinna svörtu sanda. Friðrik trúir greinilega eigin áróðri og Kolbrún veit ekki betur. Ég hef hins vegar bæði verið á Vesturöræfum og í Kringilsárrana, ennfremur við Neðri-Þjórsá og veit betur. Þetta eru ekki svartir sandar, heldur vel gróin svæði, sumpart sérstæð. Eins og í öðrum drottningarviðtölum reynir Kolbrún ekki að negla Friðrik á ósvífnum lygum hans.

Tvenns konar blogg

Punktar

Góður skilnaður er að vera í bloggi. Annars vegar eru nafngreindir, sem skrifa undir fullu nafni og eru lesnir. Hins vegar eru nafnlausir, sem skrifa fyrir vini og ættingja eða til að fá útrás. Ótrúlega margir hinna síðarnefndu eru geðveikir, svo sem sjá má af skrifum þeirra, til dæmis á Barnalandi. Hinir fyrrnefndu bera suma hinna síðarnefndu á bakinu með því að leyfa þeim að skrá nafnlausar athugasemdir neðan við sín skrif. Með því eru hinir nafngreindu að taka ábyrgð á hinum nafnlausu. Siðferðileg ábyrgð hvílir á öllu nafnlausu bloggi, fyrst hjá eiganda síðunnar, síðan hjá netmiðli og síðast hjá netþjóni.

Nafnlaust lýðræði

Punktar

Mér finnst sumir þeir, sem blogga undir fullu nafni, telja sér sóma að athugasemdum nafnleysingja fyrir neðan. Þær sýni, að einhverjir lesi bloggið. Betri aðferð til að sýna mikilvægi sitt er að birta tölur um notkun. Sjaldnast skipta athugasemdir nokkru máli. Þær eru upphrópanir, sem bæta engu nytsamlegu við upphaflega textann. Nafnlaust lýðræði er snöggtum lakara en nafngreint lýðræði. Ég held, að nafngreindum bloggurum væri fremur sómi af að birta eingöngu athugasemdir þeirra, sem skrifa undir fullu nafni. Þannig stuðluðu þeir að bættu bloggi, vitrænni umræðu í samfélaginu.