Merkasti blaðamaður heims, Seymour M. Hersh, skrifaði í morgun um yfirvofandi árás Bandaríkjanna á Íran.
Merkasti blaðamaður heims, Seymour M. Hersh, skrifaði í morgun um yfirvofandi árás Bandaríkjanna á Íran.
Fjórir eða fimm af helztu hershöfðingjum Bandaríkjanna munu segja af sér í mótmælaskyni, ef ráðizt verður á Íran á sömu upplognu forsendunum og ráðist var á Írak. Sunday Times sagði í gær stríðsmálaráðuneytið vera á móti slíku stríði og telja það afar heimskulegt. Engin slík mótmæli hafa áður þekkzt í sögu Bandaríkjanna. Robert Gates stríðsmálaráðherra hefur lýst andstöðu við slíkt stríð, en Dick Cheney varaforseti mælir eindregið með því, svo og nýhægrimenn og trúarofstækismenn kringum George W. Bush forseta. Herinn óttast, að þetta stríð leiði til ósigurs Bandaríkjanna í miðausturlöndum.
Sumir stjórnmálaskýrendur telja, að Bandaríkin muni ekki ráðast á Íran, því að það sé of vitlaus aðgerð. Aðrir telja aðdraganda stríðs gegn Íran vera eins og aðdragandi stríðsins gegn Írak var. Einn þekktasti dálkahöfundur í Bandaríkjunum er H.D.S. Greenway. Hann telur stjórn George W. Bush alveg færa um að fremja hvaða vitleysu sem er. Hún sé ekki bara illa tengd við veruleikann, heldur gersamlega sambandslaus við hann. Umhverfis Bush séu fanatískir róttæklingar, sem afneiti veruleikanum. Þeir taki engum ráðum, ekki einu sinni frá ráðgjöfum föður Bush. Þeir stígi ekki heldur í vitið.
Romano Prodi vill áfram hafa ítalska hermenn í Afganistan, en sumir þingmenn hans vilja það ekki. Þess vegna féll stjórn hans á Ítalíu á miðvikudaginn. Romano Prodi vill leyfa stækkun bandarískrar herstöðvar við Vicenza, en sumir þingmenn hans vilja það ekki. Einnig þess vegna féll stjórn hans. Aðild Ítalíu að krossferðum Bandaríkjanna og bandarískar herstöðvar á Ítalíu eru ágreiningsefni, sem hindra pólitískan stöðugleika og fella ríkisstjórnir á Ítalíu. Ítalir losna ekki úr þessum vanda fyrr en þeir losna úr sambúðinni við Bandaríkin.
Merki eru um, að Evrópa fallia frá fjárkúgun á hendur Palestínu. Um skeið hefur hún neitað að styrkja launagreiðslur opinberra starfsmanna í Palestínu til að knýja ríkisstjórn Hamas-flokksins til að viðurkenna Ísrael sem ríki. Evrópa gerðist aðili að þessari fjárkúgun, sem Bandaríkin efndu til, þegar frjálsar kosningar í Palestínu leiddu ekki til sigurs hins spillta Fatah-flokks, heldur til meirihluta Hamas-flokksins. Fjárkúgun Evrópu og Bandaríkjanna hefur valdið Palestínu miklum hörmungum. Nú er ráðamönnum Evrópu farið að þykja nóg að gert. Betra seint en aldrei.
Peter O’Toole og Helen Mirren og Judi Dench geta leikið, en Leonardo di Capricio og Will Smith geta það ekki. Það segir Charles McNulty í Guardian. Hann segir það stafa af, að brezkir leikarar séu skólaðir, kunni í smáatriðum að beita rödd og líkama. Bandarískir leikarar séu hins vegar illa eða ekki skólaðir, eru kannski frekar valdir út á meintan karisma. Ég sá Peter O’Toole í leikhúsi í London eins og Richard Attenborough, Lawrence Olivier og John Gielgud. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð og heyrt aðra eins leikara, sem kunnu sitt fag til þrautar, héldu á salnum í greip sinni.
Þrettán ríki Evrópusambandsins sættu ákúrum Evrópuþingsins fyrir aðstoð við fangaflug Bandaríkjanna. Það voru Austurríki, Bretland, Danmörk, Grikkland, Írland, Ítalía, Kýpur, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Spánn, Svíþjóð og Þýzkaland. Ísland telst ekki með, það er ekki í Evrópusambandinu. Þessi útbreiddu brot á alþjóðasamningum sýna, að leyniþjónustur og ríkisstjórnir eru hættulegar. Ef gegnsæi skortir í stjórnsýslu, stunda þessir aðilar ólöglegt athæfi án þess að blikna. Svo er einnig hér á landi og mun aukast með stofnun leyniþjónustu.
Skemmtilegur greinaflokkur Rajiv Chandrasekaran um Írak birtist þessa daga í Guardian. Þar er fjallað um gerilsneytt og ameríkaníserað hverfi í Bagdað, græna hverfið, þar sem landstjórn Bandaríkjanna býr og vinnur bak við háan múr án þess að hætta sér út fyrir. Þar er öll vara og þjónusta flutt inn í flugi frá Bandaríkjunum, svo sem vatn og ruslfæði. Í greinunum er sagt frá, hvernig fasteignasali var gerður að kauphallarstjóra Íraks. Þar er sagt frá, hvernig hægt sé að stýra ríki án þess að hafa hugmynd um, hvað gerist fyrir utan hallarmúrinn. Þetta er eins og Lísa í Undralandi.
Engum öðrum en Íslendingum dytti í hug að borga 200-250 króna seðilgjald fyrir að njóta þeirrar náðar að fá senda reikninga. Gjaldið er margfaldur pappírs- og póstkostnaður sendibréfs og er þar á ofan ný uppfinning í veraldarsögunni. Í Evrópu yrði uppreisn, ef reynt yrði að koma á slíku gjaldi.
Aðeins Íslendingar eru svo kúgaðir af langvinnu okri, að þeir telja það eðlilegan gang samfélagsins. Okur er ekki bara stundað af bönkum og símum, tryggingum og olíu. Það er stundað af öllum þeim fyrirtækjum, sem leyfa sér að rukka seðilgjöld. Hátt verðlag og hugmyndarík gjöld eru afleiðing af eymd þjóðarinnar.
Brynjólfur og Friðrik
Einu sinni hélt ég, að Brynjólfur Bjarnason og Friðrik Sófusson væru meðal merkisbera frjálsrar samkeppni, teldu markaðshagkerfi beztu leið almennings. Nú eru báðir lengi búnir að vera þekktir okrarar, forstjórar einkavæddra einokunarfyrirtækja, Brynjólfur hjá Símanum og Friðrik hjá Landsvirkjun.
Svo langt eru þeir leiddir í einokun, að þeir hafa orðið að játa ölöglegt samráð um að hindra samkeppni og um að skipta með sér markaði. Brynjólfur er sagður vera upphafsmaður glæpsins og hafa ginnt Friðrik til samstarfs. Síminn var sektaður um 55 milljónir og Landsvirkjun um 25 milljónir. Skiptimynt fyrir okrara.
Einkavæðing var fáokun
Markaðsfræðin segir, að verðlagseftirlit sé óþarft, því að frjáls samkeppni sjái um að halda niðri verði. Þessu höfum við trúað og þess vegna aflagt brokkgenga ríkisstofnun verðlags. Veruleikinn er hins vegar annar. Einkavæðing breytti bara einokun í fáokun. Þar hefur samkeppni í bezta falli reynzt tímabundin.
Ungt dæmi er frjálsa rafmagnið, sem ekki hefur lækkað reikninga fólks. Fáokun er eðlilegt lokastig, hvort sem upphaf hennar er einokun eða samkeppni. Nú síðast er bifreiðaskoðun komin á lokastig einokunar, Frumherji hefur étið Aðalskoðun. Einkavæðing ríkisins býr jafnan til fáokun, alls ekki samkeppni.
Hæstu vextir Evrópu
Karl Marx og Friedrich Engels bulluðu mikið, en höfðu þó að því leyti rétt fyrir sér, að rökrétt niðurstaða markaðslögmála er einokun. Fyrirtæki éta hvert annað, unz tvö eða þrjú standa til málamynda eftir og semja um markaðinn. Þetta kölluðu þeir, að borgarastéttin æti sjálfa sig.
Við þekkjum þetta vel hér. Samkeppni er aðeins á afmörkuðum sviðum, svo sem í bílainnflutningi, sumarferðum og í nýlenduvöru. Skiptir þá engu, hvort önnur fyrirtæki auglýsa grimmt eins og bankarnir. Þeir auglýsa ekki bætt kjör, enda hafa þeir vond kjör fyrir alla og hæstu vexti í Evrópu.
Þolgæði þjóðarinnar
Við berum okkur stundum saman við Norðurlönd og teljum ekki miklu meira okrað á okkur en á nágrönnunum. Við berum okkur síður saman við meginland Evrópu, þar sem verðlag er aðeins tveir þriðju á við það, sem hér er. Og við berum okkur alls ekki saman við Bandaríkin, þar sem bara er hálft íslenzkt verðlag.
Á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og í Japan eru vextir 0-3 prósent og hafa lengi verið. Hér á landi þola kjósendur, að vextir séu 10-20%. Samt er stór hluti þjóðarinnar ungt fólk, sem stendur andspænis húsnæðiskaupum og sér ekki nokkra leið til að ráða við þau, þótt kaup sé gott og yfirvinna nóg.
Verðskyn lagaðist ekki
Endurreist verðlagseftirlit gæti afnumið seðilgjöld og lækkað verð á þjónustu fyrirtækja á sviðum síma, orku, olíu og trygginga, einkum þó banka, sem eru gráðugastir. Í árdaga Hannesar Hólmsteins var þó sagt, að eftirlit borgara skuli leysa eftirlit ríkis af hólmi, því annars verði ekki til neitt verðskyn fólks.
Við höfum lengi prófað að hafna verðlagseftirliti, en samt hefur verðskyn Íslendinga ekki lagast um eina spönn. Eitt af merkustu lögmálum markaðshagfræðinnar gildir nefnilega ekki í landi, sem á Evrópumet í vöxtum.
Jónas Kristjánsson
DV
Ég ók í dag um Kópavoginn. Mér fannst ég vera kominn í útlent slömm. Sá hluti bæjarins, sem er í nágrenni Smáralindar, er sálarlaus ófreskja, safn af slaufum og bílastæðum, steypu og malbiki. Þar er varla sála á gangi og varla örlar á grænum bletti. Gróin hverfi bæjarins eru sum skárri, en hvergi nærri er yfirbragðið sambærilegt við Reykjavík. Ég les fréttir um, að bæjarstjórnin í Kópavogi láti vaða í offorsi með jarðýtur um gamla skógrækt í Heiðmörk. Og mér finnst, að það sé mjög líkt Gunnari Birgissyni bæjarstjóra. Hann er greinilega maður, sem hentar slömmi.
Meiri þungi er í andstöðu Mosfellinga við tengibraut á Álafossi en yfirvöld í bænum gerðu ráð fyrir. Þunginn hefur jafnvel komið í opna skjöldu vinstri grænum, sem eiga aðild að meirihlutanum í bæjarstjórn. Fullt var út úr dyrum á tónleikum, sem haldnir voru til að mótmæla tengibrautinni. Menn hafna tilraunum bæjarstjórnar til að afgreiða málið sem lagatæknilegan vanda. Fyrir mér er þetta spurning um, hvort almenningur sé að verða grænni en vinstri grænir. Hvort vinstri grænir hafi burði til að taka á vandanum í Mosó. Og hvort stofna þurfi harðari flokk græningja.
Frumherji hefur keypt Aðalskoðun og hafið einokun á skylduskoðun bíla. Þetta er á sömu bókina lært og önnur þjónusta í landinu. Endastöð samkeppni er einokun. Allir, sem vettlingi geta valdið, stunda samráð til að spara sér hremmingar markaðarins. Ef ekki finnast leiðir til að virkja samkeppni í landinu, verður að koma aftur á fót stýringu verðlags. Okkur vantar aðila, sem slær í borðið og segir, að árleg skoðun bíls megi aðeins kosta 3.000 krónur. Málsvarar samkeppni hafa ekki sett fram betri hugmynd um að þjóna almenningi.
Höfundar samsæriskenninga komust í feitt, er tvíburaturnarnir á Manhattan hrundu 11. september 2001. Síðan hafa blómstrað hugdettur um, að George W. Bush forseti og ráðgjafar hans hafi staðið fyrir því. Nú er komin bíómyndin Loose Change, sem heldur þessu á lofti. George Monbiot skrifar í Guardian greinar um bíómyndina og lætur sér fátt um finnast. Bush og hans menn séu ekki svo klárir, að þeir geti sprengt tvo skýjakljúfa og orðið þúsundum manna að bana, nema þeir hefðu skilið eftir gögn, sem vísuðu á al Kaída. Þar sé bara aldagömul samsærisárátta á ferð, samanber morðið á Kennedy.
Íran hefur grætt mest á krossferðum Bandaríkjanna í Miðausturlöndum. Um það fjallar Michael Slackman í International Herald Tribune. Fyrir 11. september var landið umlukt ríkjum súnníta og annarra villutrúarmanna. Súnnítar réðu í Írak, þar sem Saddam Hussein var við völd. Og þeir réðu í Afganistan, þar sem talíbanar voru við völd. Aðrir nágrannar voru líka súnnítar, Tyrkland í norðri og Sádi-Arabía í suðri. Nú hafa Bandaríkin rutt Saddam Hussein og talíbönum til hliðar. Í framhaldinu hafa Íranir notað tækifærið og eru að verða voldugasta ríki svæðisins.
Fyrrum sendifulltrúi Breta í Afganistan, Carne Ross, segir í Guardian, að upplýsingar vestrænna utanríkisráðuneyta um líf og skoðanir fólks í þriðja heiminum séu án samhengis við veruleikann. Menn vogi sér nánast aldrei út úr sendiráðunum og tali þá aðeins við persónur, sem hafa vestrænar skoðanir. Úr því komi greinargerðir og álitsgerðir, sem leiða til rangra ákvarðana vesturveldanna í málum þriðja heimsins. Carne Ross segir, að heimurinn hafi ekki lengur efni á svona ófaglegum vinnubrögðum. Taka þurfi tillit til fólksins, sem verður fórnardýr vestrænna ákvarðana.