Hunza pupulinn

Punktar

Hægri menn í Evrópu fíla ekki fremur en vinstri menn hernaðarstefnu Bandaríkjanna. Samt komast ráðamenn upp með að hunza pupulinn, einkum krataforingjar á borð við Tony Blair og Romano Prodi. Blair er raunar langt til hægri við brezka íhaldið og Prodi rekur stefnu, sem kenna má við nýja íhaldið í Bandaríkjunum. Prodi styður líka krossferðir Bandaríkjanna og stærri herstöðvar þeirra á Ítalíu, þótt allur þorri Ítala sé þeim andvígur. Blair er sjálfur hornsteinn krossferðanna, þótt allur þorri Breta sé þeim andvígur. Sama er með Geir hér á landi. Skítt veri með pupulinn.

Íslenzk hystería

Punktar

Þjóðin hefur ekki hafnað klámi og Alþingi hefur ekki hafnað klámi. Eftir hysteríuna hjá þjóð og þingi vegna skemmtiferðar klámiðnaðarfólks er staða kláms á Íslandi nákvæmlega hin sama og áður. Ekkert hefur breyzt. Klám er enn inni á gafli hjá hverjum, sem hafa vill. Við erum klámvædd

Íslenzkir bændur geta eftir sem áður gist í afsláttarferðum á Radisson hóteli sínu og gegn smárri greiðslu horft á klámmyndir í sjónvarpinu í vetrarfríi. Ég get horft á linnulausa klámrás í sjónvarpinu. Allir geta keypt klámblöð hjá klámvæddri benzíneinokun. Og gleymið ekki spólunum.

Klámvætt sukkríki

Hysterískir þingmenn á borð við Össur Skarphéðinsson og Hjálmar Árnason geta valið um súlustaði til að heimsækja. Hysterískir bæjarstjórar á borð við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson geta valið um verzlanir, sem selja klámdót. Geiri í Goldfinger er einn af vinsælustu Íslendingum nútímans.

Inn í þetta sukkríki klámsins, inn í klámvætt Ísland, ætlaði erlent klámiðnaðarfólk að fara í skemmtiferð. Það ætlaði ekki að eðla sig á torgum borgarinnar, heldur skoða Gullfoss og Geysi eins og hverjir aðrir túristar. Og hin hysteríska íslenzka þjóð fékk samstundis taugaáfall.

Linnulaus hræsni

Þingmenn runnu strax á lyktina. Upp rann hefðbundin hystería, þar sem engin skynsemi fær neitt við ráðið. Menn görguðu hver í kapp við annan, gengu af göflunum í ræðustóli á Alþingi. Allir málsaðilar urðu sér til skammar, frá kjósendum yfir í þingmenn, nema ýmis samtök, sem voru sjálfum sér samkvæm.

Við skulum láta liggja milli hluta, að klám skaðar. Við skulum bara líta á hræsnina, sem felst í að leyfa linnulausan rekstur á klámi í landinu og amast jafnframt og samtímis við, að útlent klámiðnaðarfólk fái að gista hér á bændahóteli og fara í skemmtiferð til Gullfoss og Geysis.

Birgjar hittast

Um daginn voru þrjátíu þúsund manns á klámkaupstefnu í Las Vegas. Í BBC kom fram, að heildartekjur kláms þar í landi nemi 12-20 milljörðum dollara. Fagið sé stærra en kvikmyndabransinn og stærra en íþróttir samanlagðar. Fjórar klámkvikmyndir eru framleiddar á degi hverjum vestanhafs.

Þannig er klámið þungavigtargrein í Bandaríkjunum. Vestur-Íslendingar hafa látið að sér kveða á þessu sviði. Greinin sér Íslendingum fyrir klámi, sem flæðir viðstöðulítið til landsins. Enda er það tæpast neðanjarðarhagkerfi, þegar þrjátíu þúsund manns mæta feimnislaust á kaupstefnu í klámi.

Miðaldaþorp nútímans

Hysteríur Íslendinga eiga sér ekki hliðstæður hjá vestrænum þjóðum. Við höfum lesið um slíkar hysteríur í afskekktum þorpum á fyrri tímum, til dæmis nornaveiðum og gyðingaofsóknum. Það er þessi frumstæði eiginleiki miðaldaþorpsins, sem enn sést á ferð í nútímaþjóðfélagi Íslendinga.

Svei allri þessari hysteríu, svei kjósendum og þingmönnum. Öll þjóðin með Alþingi í broddi fylkingar hefur orðið sér til skammar. Nú er ekkert hægt að gera í stöðunni en að banna klámið, loka fyrir tímarit og spólur, súlustaði og hótelklám, klámrásir og Geira í Goldfinger.

Ekkert breytist

Það munu hinir hysterísku kjósendur og þingmenn samt ekki gera. Þegar rykið sezt aftur eftir ólætin, mun allt falla í eðlilegan farveg hjá þjóð, sem er svo meðtekin af hræsni, að henni er fyrirmunað að sjá, hversu hlægileg hún er sjálf. Kannski verður þó skrúfað fyrir klámmyndir á bændahótelinu.

Ég er ekki að lasta þá, sem eru sjálfum sér samkvæmir í öllum greinum þessa máls. Bara að benda þeim á, að þeir hafa ekki haft neinn sigur.

Jónas Kristjánsson

DV

Einstæðingur étur

Veitingar

Stundum er ég einn, konan á pólitískum fundum og ég nenni þá ekki að elda. Matstaðir henta einstæðingum misjafnt, hótelsalir eru undantekningarlaust góður bakgrunnur. Ég fer ekki á skyndibitastaði og mér finnst hótelsalir of dýrir, þegar ég hef ekkert tilefni annað en letina. Flestir aðrir staðir henta betur pörum eða fleira fólki saman. Ég kann vel við Kínahúsið og Þrjá Frakka, en það eru ekki staðir fyrir einstæðinga. Þá hef ég helzt hallazt að Pottinum og pönnunni í Nóatúni. Þar er alltaf fínn fiskur dagsins með salatborði og vali milli tveggja súpa á 2.400 krónur.

Vilja vera úti

Punktar

Hestar vilja ekki vera inni. Þeir vilja heldur vera úti í tíu stiga gaddi eða í hláku og frosti til skiptis. Sé þeim gefið við opið, fara þeir inn til að éta og fara síðan út aftur, þegar heyið er búið. Þeim finnst betra að híma úti. Þeir velja þó skjól til að híma í. Til fyrirmyndar eru Y-hestaskjól, sem menn hafa víða sett upp og veita skjól fyrir öllum áttum. Smám saman hafa hestar vanið sig á íslenzkan vetur. Ef þeir geta, éta þeir á sig gat á haustin og veturna til að eiga aflögu fitu til að lifa á. Síðan renna þeir aftur á vorin, áður en nýgresið tekur við.

Gereyðingarvopnið

Punktar

Fyrir landnám voru eldgos og hraun og jökulhlaup. Samt komu landnámsmenn að landi, sem var viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þeir gerðu til kola á Kili. Þeir hjuggu skóg og beittu hann. Fljótlega varð sauðkindin að þyngstu blóðsugu landsins. Það er hennar vegna, að svona mikið af Íslandi er svart. Áður en hún kom, var náttúran í jafnvægi þrátt fyrir eldgos og hraun og jökulhlaup. Þrátt fyrir mikla og vaxandi uppgræðslu er landeyðing meiri en landrækt enn í dag. Ýmist afneita menn eða reyna að þagga niður, að kindin er sjálft gereyðingarvopnið gegn náttúrunni.

Yfirborðskannanir

Punktar

Mér finnst of mikið af yfirborðskönnunum á fylgi flokkanna á landsvísu. Þær eru ódýrar, en segja lítið um horfur í einstökum kjördæmum. Ég veit, að fylgi Framsóknar er lítið á landsvísu, en það segir mér ekki, hvort Jón Sigurðsson kemst líklega eða tæplega að í Reykjavík eða Guðni Ágústsson á Suðurlandi. Ég veit, að fylgi vinstri grænna er mikið á landsvísu, en það segir mér ekki, hvort Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kemst líklega eða tæplega að í Kraganum. Grunnfylgi og sveiflufylgi flokkanna er misjafnt eftir kjördæmum. Samt ná kannanir nánast aldrei til kjördæmanna.

Forgangsröðun

Punktar

Við getum ekki útrýmt vandamálum, aðeins reynt að halda þeim í skefjum. Við útrýmum ekki fátækt, fíkniefnum, heilsuleysi. Við reynum að fást við þau í samræmi við sameiginlegt fé, sem er til ráðstöfunar. Við verðum að velja og hafna. Sumar aðferðir í baráttu við sjúkdóma eru svo dýrar, að þær mundu taka fé frá öðrum leiðum. Til dæmis eru sum lyf svo dýr, að þau taka fé frá viðureign við sjúkdóma með öðrum lyfjum. Við erum alltaf að skammta. Við sjáum það á biðlistum. Til dæmis bið eftir stálkúlum í mjöðm. Við þurfum að forgangsraða, en höfum ekki manndóm til að viðurkenna það.

Vinstri grænt blað

Punktar

Mest allra dagblaða hefur Morgunblaðið breytzt undanfarna mánuði. Það er farið að birta fréttaljós og skýringar á forsíðu. Nú er hægt að lesa forsíðuna. Í leiðurum blaðsins er pólitískur armur blaðsins hvattur til að kúvenda. Blaðið vill, að Sjálfstæðisflokkurinn gerist skyndilega grænn og vinstri sinnaður. Í einu og sama tölublaðinu heimtar blaðið græna stefnu Birgis Kjaran og að Ögmundi Jónassyni verði falið að hafa forustu um að útrýma fátækt. Hagur flokksins hefur löngum verið blaðinu kær. Og nú sér það þann kost vænstan, að flokkurinn gerist vinstri grænn.

Rítalínstefnan

Punktar

Vandamálafræðingar kalla dugleg börn ofvirk og láta sefa þau með rítalíni til að þau séu til friðs í skólanum og samfélaginu. Börn, sem sleppa við þessa meðferð, verða fyrirferðarmikil í viðskiptum, fara í útrásir um heim og græða milljarða. Sljóu rítalínbörnin hins vegar eiga í vændum að laðast að samkvæmum, þar sem snæddur eru brie og drukkið chablis. Þegar þau fullorðnast, verða þau vandamálafræðingar, sem sitja á málþingum og velta vöngum yfir mikilvægum spurningum í félagslegum réttrúnaði. Rítalínstefnan sækir fram, Íslendingar eru orðnir Evrópumeistarar í notkun deyfilyfsins.

Umhverfisvæn þjóð

Punktar

Þrír af hverjum fjórum Íslendingum vilja meiri áherzlu á umhverfisvernd samkvæmt skoðanakönnun Gallup. Þeir skiptast hnífjafnt í þá, sem vilja nokkuð meiri umhverfisvernd að hætti Samfylkingarinnar, og þá, sem vilja miklu meiri umhverfisvernd að hætti vinstri grænna. Aðeins fjórðungur telur umhverfisvernd hæfilega hér á landi. Umhverfisást okkar lýsir sér ekki til fulls í fylgi þessara flokka, því að margir kjósendur Sjálfstæðisflokks eru umhverfissinnar, en taka ýmis atriði í gerðum flokks og ríkisstjórnar fram yfir gerðir hans í stórvirkjunum og stóriðju .

Aríar á Alþingi

Punktar

Ég vissi alltaf að pólitíkusar landsins eru rasistar undir niðri. Það hefur nú verið staðfest. Samkvæmt umsögn Læknafélags Íslands eru aríar á alþingi, sem vilja varðveita hinn hreina kynstofn landsins. Þeir séu að setja lög um tryggingar, sem feli í sér sundurgeiningu milli hins hreina stofns og innflutts fólks, sem getur verið haldið dularfullum pestum. Þeir, sem taldir eru kynhreinir, eiga að fá ódýrari tryggingaþjónustu. Þetta er frábært dæmi um, að kjósendur á Íslandi eru ófærir um að velja fulltrúa til að hafa vit fyrir sér.

Fangelsi fyrir bull

Punktar

Með Fréttablaðinu í morgun var plakat, þar sem ég var hvattur til að mæta við þýzka sendiráðið til að mótmæla fangelsun Ernst Zündel. Á plakatinu láðist að geta þess, að Zündel er einn þekktasti boðberi falskenninga um þessar mundir. Í fimm ára fangelsi er hann fyrir að afneita, að Hitler hafi látið drepa sex milljón gyðinga. Hann segir einnig, að nazistar hafi flúið til suðurskauts jarðar, stýri þaðan fljúgandi furðuhlutum og muni senn ná heimsyfirráðum. Zündel er í senn rugludallur og fjárplógsmaður. En hann á ekki að sitja inni fyrir bull. Skoðanafrelsi á að ríkja.

Vilhjálmur sígur

Punktar

Ég hafði álit á Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, gamla góða Villa, áður en hann varð borgarstjóri. Síðan hefur óðum dregið úr því. Mér sýnist hann í flestu vaða í sömu villum og Reykjavíkurlistinn, reyna að troða niður húsum, hvar sem hann finnur auðan blett, síðast í Laugardal og Sogamýri. Einnig er hann búinn að tileinka sér skæting forveranna. Þegar nágrannar mótmæla nýju húsi, talar hann af hræsni um innihald hússins. Hann getur sett niður hús fyrir fatlaða hvar sem er. Hann þarf ekki endilega að gera það á svæði neðan Holtavegar, sem hingað til hefur verið talið grænt.

Orðhenglar í Hafnarfirði

Punktar

Ég sá Tryggva Harðarson þráspurðan í sjónvarpi, hvort hann ætlaði að segja já eða nei við stækkun álversins í kosningu í Hafnarfirði. Fyrrverandi bæjarstjóri Samfylkingarinnar svaraði þessu engu, en þyrlaði upp ryki til að dreifa athygli spyrjandans. Það eru stjórnmálamenn af tagi Tryggva, sem hafa ræktað óbeit kjósenda á pólitíkusum. Þeir geta ekki svarað einföldum spurningum og dansa í hringi til að reyna að hafa alla góða. Að því leyti er hann eins og Lúðvík Geirsson, núverandi bæjarstjóri, sem kallar stækkun álvers í Straumsvík “breytingu á deiliskipulagi”.

Æstur sendiherra

Punktar

Mér brá, þegar ég sá, að ráðgert væri að ráða Hjálmar Árnason sem konsúl í Kanada, undanfara sendiherraembættis. Ég held, að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafi nóg gert, þótt landsþekktum æsingamanni sé ekki bætt við stétt sendiherra. Nú þarf að staldra við og spyrja, hvað við höfum að gera við fjölmenna sveit sendiherra. Hafa þeir stutt útrás atvinnulífsins? Hafa helztu kóngar útrásarinnar leitað sér aðstoðar í sendiráðum? Svarið er stutt, nei. Viðskipti Íslands í útlöndum eru óháð sendiherrum öðrum en þeim, sem starfa hjá fjölþjóðastofnunum í Bruxelles og New York.