Fermetrar bóka

Punktar

Var að fleygja þremur fermetrum bóka. Nú eru umfangsmest erlend skáldrit, tólf metrar. Næst koma innlend skáldrit, sjö fermetrar, þar af ljóð á tveimur. Sagnfræði, einkum erlend, á sjö, ferðalög á sex fermetrum. Síðan eru minni flokkar, hestamennska á fjórum fermetrum og náttúra á fjórum. Þá koma uppsláttarrit á þremur fermetrum, matreiðsla á þremur, félagsfræði á þremur (verður fleygt), kvennabókmenntir á tveimur, fagurfræði á tveimur, ævisögur á tveimur og pólitík á einum fermetra, óflokkaðir sjö fermetrar. Samtals eru þetta 63 fermetrar af bókum. Samt er öldin kölluð starfræn.

Höfuðhögg Framsóknar

Punktar

Framsókn hefur fengið höfuðhögg út af eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindum hafsins. Frammari er formaður stjórnarskrárnefndar, sem hefur árum saman ekki fengið botn í málið. Meira máli skiptir þó, að ríkisstjórn Framsóknar og Íhalds er fyrir löngu búin að gefa útgerðarmönnum auðlindir hafsins. Útgerðin er svo búin að selja þær auðjöfrum og eyða gróðanum. Einhvern tíma verður samfélagið að taka þessar auðlindir eignarnámi. En varla er það tillaga Framsóknar, sem nýlega gaf sjálf kvótann Halldóri Ásgrímssyni og félögum hans í stétt útvegsmanna.

Ókeypis þjónusta

Punktar

Leó M. Jónsson er einn af fáum mönnum, sem er alltaf að hjálpa náunganum. Í hans tilfelli veitir hann bíleigendum góð ráð ókeypis og heldur uppi umfangsmiklu netsvæði í því skyni. Ég hef notfært mér þetta og fengið greið svör. Sjálfur tel ég mig vera einn af slíkum. Ég held úti vefsvæði um 600 reiðleiðir á Íslandi og geri mönnum kleift að hlaða ókeypis niður GPS-punktum og setja á kort sín og tæki. Til skamms tíma hafði ég vefsvæði um ræktunarhross á Íslandi í hundrað ár. Þar var flett upp hrossum, jörðum, hestafólki, feðrum, mæðrum og afkvæmum. Það er lokað í bili vegna úreldingar á tölvubúnaði.

Hroki Steingríms

Punktar

Aðeins lokuðustu hrokagikkir kalla viðmælanda sinn “Guðmund nokkurn Steingrímsson”. Steingrímur J. Sigfússon er farinn að tala eins og hann sé orðinn ráðherra. Líklega hafa landsfundurinn og skoðanakannanir stigið honum til höfuðs. Fylgið er samt ekki komið í hús og ástæða til að fara varlega á torgum. Steingrímur lenti í erfiðri vörn, þegar hann hvatti til lögregluaðgerða á netinu. Vandamál netsins eru alvarleg, en verða ekki leyst með Geir og Grana. Og að ávarpa álitsgjafa sem “Guðmund nokkrun Steingrímsson” er bjánalegur og ákaflega gamaldags hroki.

Prófessorar aka úti

Punktar

Prófessorar rífast í fjölmiðlum um Gini-stuðul eins og hann sýni eitthvað um aukna fátækt og stéttaskiptingu á Íslandi. Við þurfum engan Gini-stuðul til að vita, að hér er mikil fátækt og vaxandi gjá milli stétta. Blaðakona á Ísafold veit meira um fátækt en Hannes Gissurarson og Stefán Ólafsson. Hún fór í biðraðir, þar sem fólk beið eftir útrunnum mat. Hún talaði við fólkið og fann tvenns konar fátækt. Annars vegar einstæðu barnakonurnar og hins vegar þá, sem bankar hafa féflett í lánum. Ég hlustaði á hana segja frá Katrínu og Óttari og þarf ekki að heyra meira í Hannesi og Stefáni.

Sveitir Alcan á ferð

Punktar

Baráttan um sálir Hafnfirðingar harðnar. Alcan hefur ráðið sveitir manna til að hafa áhrif á kosningar um stækkun álversins í Straumsvík. Stofnað hefur verið fyrirtækið Hagur í Hafnarfirði, sem slær um sig með röngum staðhæfingum á borð við, að 5-7% af tekjum bæjarins komi frá álverinu. Hið rétta er 1-2% koma þaðan. Áhöfn fyrirhugaðs álvers verður fámenn. Hafnfirðingar tapa engu á því að hafna stækkun hjá Alcan og tapa enn síður á, að álverið efni hótun sína um að leggja sjálft sig niður. Þetta er úreltur atvinnuvegur fyrir úrelta kaupstaði.

Bubbi féll

Punktar

Bubbi féll og myndin sannaði það. Hæstiréttur kann ekki íslenzku og tekur skoðun yfirstéttargaurs fram yfir íslenzku orðabókina. Til að sanna, að Bubbi var fallinn, þurfti að birta myndina, rétt eins og birta þurfti mynd af Finni Ingólfs og Ólafi Ólafs í bíl. Hæstiréttur er úti að aka og veit ekki, að Bubbi á ekkert einkalíf. Hann hefur fyrir löngu selt það út og suður, með linnulausu þvaðri um líf sitt, þar á meðal um tóbak sitt. Bubbi yrkir án afláts um einkalíf og fær síðan Hæstarétt til að dæma sér þrefalda nauðgunarsekt frá fjölmiðli, sem kom upp um gaurinn. Þetta er hræsni firrtra dómara.

Þeir verðlauna sig

Punktar

Framsókn veitti sér verðlaun á flokksþingi. Án þess að brosa veitti hún sér jafnréttisverðlaun. Það er sniðugt. Framsókn hefði líka átt að veita sér umhverfisverðlaun. Sjálfstæðið getur senn veitt sér stjórnarskrárverðlaun fyrir að vera á bremsum gegn þjóðareign á kvóta og velferðarverðlaun fyrir að hafa áraum saman hindrað, að velferð fari úr hófi. Samfylkingin getur sömu helgina veitt sér umhverfisverðlaun fyrir að vera með álverum í Hafnarfirði og Húsavík. Ef enginn hirðir um spuna flokka, verðlauna þeir sig bara sjálfir.

Máluð græn

Punktar

Margrét Sverrisdóttir hefur ekki sýnt meira dálæti á umhverfinu en aðrir framámenn Frjálslynda flokksins. Óséð er, hvernig Ómar Ragnarsson ætlar að mála hana græna og umbylta henni í oddvita hægri græns flokks. Sama er að segja um Jón Baldvin Hannibalsson. Ekki er langt síðan hann var ráðherra svartrar ríkisstjórnar. Hann verður tæpast málaður vel grænn í einni sjónhendingu. Framboð Ómars Ragnarssonar væri trúverðugra, ef efsta fólk listans kæmi úr Framtíðarlandinu eða öðru sannanlega grænu umhverfi. En ekki pólitískir stafkarlar með vafasama fortíð.

Hugarfarið er dagljóst

Punktar

Raunvextir Glitnis og Kaupþings eru helmingi lægri á Norðurlöndum en hér. Þetta kom fram í rannsókn Fréttablaðsins og er í samræmi við fyrri fréttir af okri bankanna. Gróði þeirra er að vísu fenginn með ýmsum öðrum hætti en með okri á Íslendingum. En hugarfarið leynir sér ekki. Þótt þeir auglýsi ást sína á viðskiptavinum, er veruleikinn annar. Vextir á Íslandi eru margfalt hærri en á Vesturlöndum. Og menn eru látnir greiða stórfé í refsingu fyrir að borga upp skuldir. Það heitir uppgreiðslugjald. Okrið byggist auðvitað á, að viðskiptamenn hafa ekki í önnur hús að venda.

Þýfisleikhúsið

Punktar

Línuhönnun er nú að mylja niður hrafntinnuna, sem björgunarsveitir á Suðurlandi stálu í Hrafntinnuskeri í haust að undirlagi Þjóðleikhússins. Ráðamenn þess ímynda sér, að það muni laga stöðu þess í þjóðarsálinni að makað verði á það sjaldgæfri hrafntinnu á fimmtíu ára fresti. Meðsek Þjóðleikhúsinu eru Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið, sem bera nöfn að hætti skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell. Í sumar verður þýfinu makað á leikhúsið, því til ævarandi háðungar. Ekki dettur mér í hug að horfa þar á sviðsverk framvegis. Húsið verður að tapa á öðrum en mér.

Þeir náðu olíunni

Punktar

Leppþingið í Írak hefur samþykkt að fela olíulindir landsins til þrjátíu ára í hendur bandarískra olíufyrirtækja. Þar með hafa Bandaríkin náð þeim árangri, sem í upphafi var stefnt að með því að fara í blóðugt stríð gegn saklausri þjóð. Þótt leppstjórnin verði síðar að fara og allar hennar gerðir marklausar gerðar, mun stjórn Bandaríkjanna hengja sig í þessa ákvörðun þingsins og heimta, að við hana verði staðið. En það er ekkert að marka lög, sem leppstjórnin koma gegnum þing undir þrýstingi frá þeim her, sem ver leppstjórnina fyrir almenningi í landinu.

Fjárhættuspil í West Ham

Punktar

West Ham er í steik, segir brezka blaðið Observer í morgun. Leikmenn spila daglega póker um peninga, þar sem milljónir króna skipta um hendur á einni nóttu. Matthew Etherington og Roy Carroll þiggja aðstoð vegna spilafíknar. Alan Churbishley þjálfari talar ekki við leikmann, sem vann fimm milljónir króna af félaga sínum á einu síðdegi. Í hópnum eru klíkur, sem talast ekki við. Fundur stjórnenda félagsins með leikmanni var haldinn á súlustað með kjöltudansi. Anton Ferdinand sætir ákæru fyrir óspektir við næturklúbb. Verðlaust félag Eggerts Magnússonar fellur niður um deild í vor.

Ofsóknir sem hagkerfi

Punktar

Hagfræðin hefur löngum verið kölluð hin ömurlega fræðigrein. Í samræmi við það hafa margir frægustu hagfræðingar heims hvatt þjóðir til að auðvelda brottrekstur starfsfólks til að skapa skelfingu almennings um hag sinn og þar af leiðandi meiri dugnað þess í starfi. Hafa þeir bent á Bandaríkin sem dæmi um hag allra af öryggisleysi almennings. Nú eru þeir farnir að klóra sér í höfðinu, því að hagvöxtur er orðinn meiri í Japan og Evrópu en í Bandaríkjunum. Á fyrrnefndu stöðunum er þó minna gert af því að ofsækja launafólk til að magna gróða atvinnulífsins. Sjá grein í Herald Tribune.

Terroristaþjóðin

Punktar

Bandarísk könnun hefur leitt í ljós, að þjóðir múslima eru ekki hlynntar hryðjuverkum. Hins vegar sker ein þjóð sig úr. Fjórði hver Bandaríkjamaður telur oft eða stundum rétt að beina loftárásum að óbreyttum borgurum. Svo há prósenta þekkist hvergi annars staðar í heiminum. Því er rangt að saka þjóðir múslima um dálæti á hryðjuverkum. Nær er að saka Bandaríkjamenn um slíkt. Það er ekki bara ríkisstjórn Bush, sem ber ábyrgð á stríðsglæpum ríkisins, heldur stendur þar þétt að baki stór hópur trúarofstækismanna og annarra kjósenda. Sjá grein í Christian Science Monitor.