Sjáfsvíg Samfylkingar

Punktar

Hrun Samfylkingarinnar er hastarlegra en nokkur álitsgjafi hafði þorað að spá. Tæplega er það Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að kenna, að önnur hver íslenzk kona er komin yfir í Vinstri græna. Líklegra er, að Samfylkingin hafi misst af umhverfislestinni og framið sögulegasta sjálfsvíg íslenskra stjórnmála. Hún er búin í prófkjörum að velja sér stóriðjusinna í efstu sæti hvers kjördæmis á fætur öðru. Hún kaus sér andlit stóriðjunnar og getur ekki röflað sig út úr því. Kjósendur flokksins í prófkjörunum hnýttu reipið, sem Samfylkingin hefur lagt á háls sér.

Ný spunakerling

Fjölmiðlun

Markmið blaðamennsku er að segja satt, en markmið almannatengsla og spuna er að ljúga. Þótt Kristján Kristjánsson, áður í Kastljósi, leggi þetta að jöfnu í viðtali við Fréttablaðið. Í blaðamennsku er það sannleikurinn, sem þrýstir, en í almannatengslum og spuna er það lygin, sem þrýstir. Ég sé í mílu fjarlægð, hvaða blaðamenn muni enda sem spunakerlingar. Á þessu er grundvallarmunur, þótt sjaldgæfar undantekningar kunni að leynast. Í nánast hvert sinn sem blaðamaður fer úr rýrum högum blaðamennskunnar í grænni haga almannatengsla og spuna, hækkar meðaltal siðferðis í báðum stéttum.

Ofsóttur lektor

Punktar

Enn er íslenzka miðaldaþorpið komið í gang. Gyðingaofsóknir síðustu daga hafa beinzt gegn lektor, sem sagður var skilgreina klám of vítt, þegar hann gagnrýndi auglýsingu frá Smáralind. Kominn er tími til að taka á nafnleysi miðaldaþorpsins eins og það birtist í svínastíum á borð við Barnaland og Málefnin. Eins og í prentrétti eru útgefendur vefsvæða ábyrgir fyrir vaðlinum. Þeir geta hindrað nafnleysi á vefnum. Engrar annarrar gæzlu eða refsinga er þörf. Nafnbirting er nægileg refsing fyrir ósómann, virkar eins og gapastokkur á Lækjartorgi. Burt með miðaldaþorpið af vefnum.

Átjándu aldar lektor

Punktar

Mér finnst lítilvægt, að lektor í fjölmiðlafræði hafi of víðtækan skilning á klámi. Fróðlegra finnst mér, að lektorinn hefur arfavitlausar skoðanir á fréttamennsku, sem sjást á heimasíðu Guðbjargar Kolbeins. Hún er svo forn, að henni mundi þykja stílbók Wall Street Journal vera dæmi um afvegaleiddar æsingar. Stílbækur vilja áherzlu á sértækt umfram óhlutlægt og vilja setja sértækar örsögur úr veruleikanum fram fyrir talnasuðu úr skýrslum vandamálafræðinga. Gagnrýni lektorsins á stíl greinar í Ísafold um fátækt sýnir skort á fréttaviti. Hún kemur aftan úr átjándu öld.

Dularfull samúð lektors

Punktar

Guðbjörg Kolbeins lektor ályktar, að rangt hafi verið af Ísafold að tala við fátækling, sem sagðist nota 12.000 krónur í síma á mánuði. Sá kann að vera munur á mér og fátæklingi, að ég hafi áhuga á stórum jeppa, en hann kann að vera svo einmana, að þreföld símnotkun sé hans eini lúxus. Einnig getur verið, að hann þurfi að læra með fé að fara. Hvort tveggja væri fréttnæmt. Lýsing Ísafoldar gaf frábæra sýn í fjölbreyttan heim fátæktar á Íslandi. Hún var ekta. Fjölmiðlar segja fréttir, en stýra ekki, hvar brokkgeng samúð lektors skuli koma niður.

Sögufölsun um Spörtu

Punktar

Enn ein fölsun sagnfræðinnar er í uppsiglingu í siðlausum heimi bíómynda. Gerð hefur verið myndin “300“, sem lýsir bardaga Spartverja í Þermópylæ gegn Persum sem baráttu vestræns frelsis gegn austrænu einræði. Ekkert er fjær sanni. Persar voru á þessum tíma frjálslyndasta þjóð í heimi, leyfðu öllum að rækta trú sína og þjóðerni, ef þeir borguðu skatt. Spartverjar voru hins vegar krumpað þjóðfélag, sem lifði á styrjöldum og þrælahaldi. Sparta var það, sem við köllum fasistaríki, þar sem ríkið var öllu æðra. Hin dásamaða Sparta var helvíti, jafnt fyrir íbúa og nágranna.

Evrópa tekur forustu

Punktar

Evrópusambandið hefur tekið skýra forustu í baráttunni fyrir sjálfbærri jörð, meðan ráðamenn Bandaríkjanna ætla að velta vandræðunum yfir á börn sín og barnabörn. Evrópusambandið hyggst minnka útblástur skaðlegs lofts um 20% á þrettán örum og að hafa þá komið fimmtungi orkunotkunar sinnar yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Með þessu hefur Evrópa gefið fordæmi, sem stillir heimsins mestu sóðum í Bandaríkjunum og Kína upp við vegg. Evrópa hyggst gera hertar kröfur til nýrra bíla til að ná þessum árangri. Það var Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, sem knúði fram þessa vitrænu stefnu.

Japanir í afneitun

Punktar

Enn tregðast Japanir við að viðurkenna ógeðsframkomu í síðari heimsstyrjöldinni. Öfugt við Þjóðverja hafa þeir aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum. Japanir afneita staðreyndum og hver forsætisráðherrann á fætur öðrum opinberar fasisma sinn. Meðan Þjóðverjar hafa gerzt fullgildir borgarar í samfélagi þjóðanna, halda Japanir enn dauðahaldi í gamla lygi, sem mokað var upp í þá á stríðsárunum. Economist fjallaði í síðasta hefti um nýjustu birtingarmyndir þessa einkennilega ástands, sem stendur Japan fyrir þrifum í samfélagi þjóðanna. Blaðið segir, að Shinzo Abe forsætisráðherra hagi sér eins og fífl.

Harold Evans skrifar

Fjölmiðlun

Ég borðaði í Mantova á Ítalíu með Harold Evans, sem þá var ritstjóri Sunday Times. Þá var Evans frægur fyrir uppljóstrunina um Thalidomide-málið, er börn fæddust vansköpuð vegna lyfs fyrir mæður. Evans hrökklaðist undan fasistanum Rupert Murdoch til Bandaríkjanna og varð þar þekktur útgefandi. Evans skrifaði fyrir helgina grein í International Herald Tribune um drápin á sendiboðum válegra tíðinda. Þúsund blaðamenn hafa verið drepnir á áratug, um hundrað á ári. Pútín í Rússlandi er orðinn mikilvirkur, hefur nú látið drepa Ivan Saffronov í Washington og Önnu Politkovskaja í Moskvu.

Mótleikur hjá Kasparov

Punktar

Heimsmeistarinn fyrrverandi í skák, Garry Kasparov, er orðinn mikilvægasti stjórnarandstæðingur Rússlands, þar sem leyniþjónusta og auðjöfrar ráða ríkjum í skjóli hins nýja Stalíns. Kasparov kom af stað uppþotum í Sankti Pétursborg um mánaðamótin og ruglaði herlögreglu Pútíns í ríminu með því að breyta leið 5000 manna mótmælagöngu. Eftir tveggja tíma þæfing voru 130 manns teknir höndum fyrir ólöglega andspyrnu. Þetta eru fjölmennustu mótmælin gegn stjórn Pútíns, sem hægt og sígandi er að færa stjórnarhætti í átt til Stalíns og Sovétríkjanna.

Matröð Pútíns

Punktar

Mótmæli Kasparovs komast aldrei í sjónvarp í Rússlandi. Stalínistinn Pútín heldur þar öllum þráðum í hendi sér. Kasparov birtir því greinar sínar í vestrænum fjölmiðlum, svo sem Wall Street Journal. Þar segir hann raunar ekkert annað en það, sem allir vita. Það er, að Pútín starfar samkvæmt sínu gamla hugarfari úr leyniþjónustunni. Hann bælir niður andstöðu gegn sér, notar ríkisvaldið til að þjóna auðjöfrum, sem starfa samkvæmt hugarfari ítölsku mafíunnar. Allt fer aflaga í Rússlandi, meðalaldur, alþýðutekjur, menntun. Kasparov er einn fárra, sem þorir að andæfa martröð Pútíns.

Rússar fara austur

Punktar

Rússar vilja ekki vestrænt lýðræði. Þeir telja sig ekki vera Evrópumenn, heldur Evrasíumenn. Meirihlutinn vill harðstjórn eða sovét. Þeir hafa engan áhuga á vestrænum mannréttindum á borð við skoðanafrelsi og félagafrelsi. Þeir vilja sterka stjórn, sem sinnir öryggi ríkisins. Og húsnæðismálum.

Við skulum líta á tölurnar: Aðeins 16% Rússa vilja vestrænt lýðræði í landi sínu. 35% vilja sovétið og 26% vilja harðstjórn Pútíns. 18% Rússa telja skoðanafrelsi mikilvægt og aðeins 4% þeirra telja félagafrelsi mikilvægt. Aðeins 10% Rússa telja land sitt vera hluta af vestrinu.

Einfeldningar nýíhalds

Svo segir í nýútgefinni könnun frá EU-Russia Center í Bruxelles. William Pfaff skrifaði í Herald Tribune um forsendur niðurstöðunnar, sem hefur komið Evrópusambandinu í opna skjöldu. Við þessu var ekki búizt, þegar kalda stríðinu lauk og Jeltsín galopnaði Rússland fyrir vestrænum áhrifum.

Einfeldningar markaðshyggju og nýíhalds ráðlögðu Rússum að brjóta niður sovézku fjötrana í vetfangi. Stofnanir sovétsins hrundu og ekkert kom í staðinn. Róttæk einkavæðing frjálshyggju rústaði þjóðareignir og nokkrir auðjöfrar eignuðust allan þjóðarauðinn fyrir skít og kanil.

Krústjov betri en Jeltsín

Þetta er sú reynsla, sem Rússar hafa af vestrinu. Það innleiddi auðjöfra, sem stálu öllu steini léttara. Það rýrði velferðina, gerði ellistyrki verðlausa og setti almenning á kaldan klaka. Fólki leið betur á tímum Krústjovs en Jeltsíns. Þriðjungur þess vill afturhvarf til sovétsins.

Fyllirafturinn Jeltsín rústaði Rússland með aðstoð vestrænna hagfræðinga af Chicago-skólanum. Það er svipað og gerðist eftir innrás Bandaríkjanna í Írak, þegar innviðir ríkisins voru lagðir niður og óöld hinna sterku hófst. Takmarkalaust einstaklingsfrelsi er ávísun á stjórnlausar öfgar.

Pútín er nýr Stalín

Eftir Jeltsín voru Rússar undir Pútín búnir. Með honum hófst afturhvarf til fyrri stjórnarhátta með ívafi af stjórnarfari að hætti vestrænna bófa. Morðsveitir Pútíns halda andstöðu í skefjum, hvort sem hún er á götum Sankti Pétursborgar eða í Tsjetsjenínu, þar sem Pútín fremur þjóðarmorð.

Örvænting Rússa út af afleiðingum Chicago-hagfræðinnar kallaði á Pútín og gerði þennan nýja Stalín að vinsælasta manni ríkisins. Pútín skammtar alþýðunni húsnæði og ríkisstyrki og fær í staðinn stuðning við að efla það, sem hann kallar öryggi ríksins, en ætti fremur að heita grimmt þjófræði.

KGB gengur laust

Menn Pútíns drápu njósnarann Alexander Litvinenko á eitri, skutu blaðamanninn Önnu Politkovskaya til bana og reyndu að drepa Jegor Gaidar, fyrrverandi forsætisráðherra. Öll verkin bera merki stofnunar, sem Felix Dzershinky veitti fyrst forustu og lengst var fræg undir bókstöfunum KGB.

Rússland er alræðisríki undir stjórn arftaka KGB. Hún hefur náð öllum öngum ríkisvaldsins í sínar hendur, nánast öllum fjölmiðlum landsins og beinir gamalkunnum ógnunum gegn nágrannaríkjum alræðisins. Enginn er óhultur fyrir Pútín, ekki einu sinni á veitingahúsi í London eða Washington.

Þeir eru hræddir

Rússar nútímans eru nokkurn veginn sammála um, að vestrænt frelsisskeið Jeltsíns hafi verið myrkasta tímabilið í sögu Rússlands. Það var tímabil fátæktar, atvinnuleysis og ójafnaðar. Rússar vilja engan Jeltsín aftur, þeir vilja enga Chicago-hagfræði, þeir vilja frið í stælingu á stalínisma.

Rússar eru almennt hræddir við vestrið. Þeir óttast, að Evrópusambandið leggi stund á efnahagslegt samsæri gegn Rússlandi. Þeir óttast, að Nató hyggi á landvinninga á rússnesku sléttunum. Þeir telja Bandaríkin seilast til áhrifa í Úkraínu, næst séu Hvíta-Rússland og Georgía á matseðlinum.

Bush lærir ekkert

Chicago-hagfræði nýíhaldsins framleiðir hatur á vestrinu, alla leið frá Pétursborg um Bagdað til Bora Bora í Afganistan. Hún hefur búið til fjölmennar sveitir hatursmanna Vesturlanda. Merkilegast er, að George Bush lærir ekki neitt af reynslunni og framleiðir Pútína og Bin-Ladena á fullu.

DV

Hægfara skilningur

Punktar

Feginn er ég, að ný borgaryfirvöld hafa loksins skilið, að böggull fylgir skammrifi, þegar nýjum húsum er troðið ofan í gróin hverfi. Slík framkvæmd veldur auknum umferðarþunga og kallar á aukin umferðarmannvirki. Það skildi Reykjavíkurlistinn aldrei. Nú á að viðurkenna staðreyndir og setja mislæg gatnamót á Miklubraut í Kringlumýri. Ennfremur á að skipuleggja Mýrargötu og Örfirisey með umferðarþunga í huga. Að vísu virðast yfirvöld sannfærð um, að sjór muni aldrei ganga á land, og vilja því skipuleggja úti í sjó. En bráðum átta þau sig á, að ný hús skerða lífsgæði íbúanna, sem fyrir eru.

Viðstöðulaus akstur

Punktar

Auðvitað á að setja Miklubraut í stokk frá Miklatorgi fram yfir Grensásveg. Viðstöðulaus akstur á að vera í miðbæinn alla leið frá Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi, Reykjanesbraut og Hafnarfjarðarvegi, svo og frá Sæbraut. Það sparar benzín og minnkar mengun af bílum í kyrrstöðu við ljós. Við enda þessara viðstöðulausu brauta þarf að vera góður aðgangur að bílastæðahúsum, til dæmis um göng undir Skólavörðuholti. Umferð mun aukast í bænum um 30% á fáum árum, til viðbótar við þá aukningu, sem stafar af troðslu nýrra húsa í gömul hverfi og af byggingum úti í sjó. Gera þarf ráð fyrir öllu þessu.

Verktakar sleppa

Punktar

Stóru blokkirnar við Skúlagötu rýra lífsgæði íbúa í Skuggasundi, sem áður horfðu út á sjó. Blokkirnar við Sóltún rýra lífsgæði íbúa á Teigunum. Þannig fer alltaf, þegar nýjum stórhýsum er klesst innan um gömul og lítil hús. Borgaryfirvöld eru með þessu ekki beinlínis að taka nýja íbúa fram yfir gamla, heldur eru þau að þjónusta verktaka, sem þyrstir í að selja íbúðir “á góðum stað”. Mest hungrar verktaka í að byggja úti í sjó og geta selt útsýni á kostnað þeirra, sem missa útsýnið. Verktakar borga ekki skaðabætur og ekki ágang sjávar. Því síður nauðsynleg umferðarmannvirki.