Allir eru þeir eins

Punktar

Til mikillar skelfingar Írum, Skotum og Englendum hafa erfðarannsóknir leitt í ljós, að þetta er sama fólkið. Skotar hafa hingað til sagt: “Here’s tae us; wha’s like us” í skálaræðum. Hafi þetta í fyrndinni verið þrjár þjóðir, gildir það ekki lengur. Þetta eru allt saman Bretar, mjög gömul blanda af Keltum, Germönum og Rómönum. Rauðhærður forstjóri Associated Press í London í gamla daga, sagði við mig “Við Skotar verðum að halda saman”, þegar hann lyfti glasi í klúbbnum. Það endar með, að Eyjamenn verða að viðurkenna, að þeir séu Íslendingar.

Sjálfshjálp kennd

Punktar

Ég les á bandarísku vefspjalli, að þrennt eigi að kenna í grunnskólum. Í fyrsta lagi persónuleg fjármál, svo sem meðferð krítarkorta og annarra skuldbindinga, svo og varnir gegn bönkum. Í öðru lagi almenn tjáskipti, kunna til dæmis að undirbúa það, sem þú vilt segja, í stað þess að blaðra út í eitt. Þá mundi til dæmis blogg leggjast að mestu niður. Í þriðja lagi heilsurækt, svo sem mataræði og útivist. Allt þetta skiptir meira máli en lærdómurinn. Enda ætti að vera tími til að kenna fleira en lestur, skrift og reikning. Þegar ég var í barnaskóla, var okkur kennt að fylla út víxla.

Kjölfestan í pólitík

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er kjölfestan í pólitíkinni. Þriðjungur kjósenda velur hann til að tryggja jafnvægi í þjóðarhag og gott svigrúm fyrir atvinnuvegina, sem borga kaupið. Þetta fólk vill engar æfingar. Þótt sumt sé það umhverfissinnað, mun það ekki kjósa Ómar eða grænmálaða Margréti. Því að umhverfið er ekki efst í forgangsröð þess. Framsókn nýtur þess ekki að vera talin kjölfesta, heldur er hún talin hækja og vinnumiðlun. Ef menn vilja óbreytt ástand, kjósa þeir Íhaldið. Ef þeir vilja breytingar, hafa þeir um marga flokka að velja, þó ekki Framsókn. Hún er úti í kuldanum.

Svindlinu hampað

Punktar

Steingrímur S. Ólafsson spyr oft stórt á heimasíðunni, en smá eru oftast svörin. Hann fagnar birtingu The Great Global Warming Swindle á fjórðu stöð í brezku sjónvarpi. Segir þáttinn fara gegn “tískustraumum”. Tískustraumum! Ef hann læsi brezku blöðin á vefnum, svo sem Independent og Guardian, sæi hann langan lista af svörum um þáttinn. Flestir eru sammála um, að þátturinn sé sjálfur stærsta svindlið í fréttum af breyttu veðurfari. Ef Steingrímur á barn, bætir hann ekki horfur þess með blaðrinu. Þegar seint og um síðir verður tekið á stóra slysinu, verður ekki mikið afgangs í lífskjör nýrra kynslóða.

Mannkynið vatnslaust

Punktar

Eftir fáa áratugi verða hundruð milljóna manna vatnslausir. Það verður niðurstaða skýrslu rúmlega þúsund vísindamanna, sem funda í Bruxelles í næsta mánuði. Þegar Kári, sonur Egils Helgasonar, verður fimmtugur, munu malaría og margs konar inflúensur geisa um heiminn. Þá mun fólk flæða gegnum skothríð yfir landamæri í vonlausri leit að vatni og mat. Þá gengur sjór á land og fellibyljir verða margfalt tíðari en nú. Margir hafa samt ekki fattað, að mannkynið er ekki sjálfbært. Það er komið á fulla ferð að rústa hnettinum. Til að hindra ragnarök, þarf að leysa málið núna. Nú.

Hannes orðinn umbi

Punktar

Frjálshyggjumenn hafa fundið Guð í andstöðu sinni gegn ríkisafskiptum í umhverfismálum. Hannes Hólmsteinn Gissurarsson bendir á, að biblían segi manninn vera herra jarðarinnar. Sennilega á Hannes ekki börn, því að hann virðist áhyggjulaus af ástandinu eftir fimmtíu ár, þegar baráttan um auðlindir og lífsgæði nálgast ragnarök. Sem umbi Guðs á Hannes samt nokkuð langt í að ná ofsatrúarmönnum Omega, sem fagna heimsendi. Þeir telja, að þá verði þeir halaðir upp í himnaríki, meðan afgangurinn af heiminum ferst í ragnarökum. Sem væntanlega er stóri slagur mannkyns um loft, vatn, orku.

Bezta fréttin

Punktar

Bezta frétt, sem ég hef lengi lesið, var 307 orða fréttaskýring Ólafs Þ. Stephensen á forsíðu Moggans á fimmtudaginn. Hann lýsir því, sem sagt var í beinni útsendingu á eldhúsdegi Alþingis. Og ekki síður né léttvægar því, sem ekki var sagt. Í þrettán málsgreinum, sumum of löngum, rekur hann, hvað menn töluðu um og hvað þeir töluðu ekki um. Lýsing hans á eldhúskvöldinu studdi engan og hlífði engum. Æpandi var þögn Samfylkingarinnar í umhverfismálum og Framsókn mistókst sjónhverfing stjórnarskrárinnar. Fleiri atriði rekur Ólafur og vísa ég til fréttar hans.

Við elskum skurðgröfur

Punktar

Ísland fjárfestir í orkufrekum iðnaði, meðan toppríki heimsins fjárfesta í þekkingariðnaði. Við höfum komið á fót orkuverum upp um öll fjöll, meðan toppríkin fjárfesta í rannsóknum og þróun. Við sjáum risavaxnar raflínur meðfram þjóðvegum og rússneskt iðnaðarhverfi í Hafnarfirði, meðan toppríkin fjárfesta í Sílikon-dölum út um alla Evrópu. Meðan Bandaríkin, ríki og einkaframtak samanlagt, fjárfesta 1,5 milljón krónur á ári í hverjum stúdent, fjárfesta stóriðjusinnuð ríki á borð við Ísland minna en 0.5 milljón krónur á ári í hverjum stúdent. Við elskum skurðgröfurnar.

Gleymdi dísil

Punktar

Ríkisstjórnin segist fíla vistvæna bíla. Hún hefur látið smíða frumvarp um að hvetja til kaupa á metan- og rafbílum, til dæmis með afslætti á gjöldum. Þar er samt ekki fjallað um raunverulega bíla, sem eru í fjöldaframleiðslu og eru vistvænni en benzínbílar. Það eru dísilbílarnir, sem nú eru farnir að menga mun minna en benzínbílar og eru nærtækari en metan- og rafbílar. Ríkisstjórnin skattleggur dísilolíu upp fyrir benzín við pumpurnar. Góðsemi hennar í garð náttúru og umhverfis er því marklítil. Frumvarpið á að telja fólki trú um, að stjórnin sé vistvæn. Það er spuni á kosningavori.

Klofningur í Evrópu

Punktar

Evrópa er að klofna í tvennt í viðhorfum sínum til rannsókna og þróunar. Annars vegar eru Svíþjóð og Finnland, Þýzkaland og Bretland, sem fjárfesta meira en 2% af þjóðarframleiðslu í rannsóknum og þróun. Hins vegar eru Ísland og Portúgal, Ítalía og Grikkland, sem fjárfesta miklu lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu í rannsóknum og þróun. Annars vegar eru ríkin, sem horfa fram á veg nýrra atvinnuvega. Hins vegar eru ríkin, sem eru læst inni í gömlu atvinnuvegunum, þar sem stóriðja er fremst í flokki. Að ráði ríkisstjórnarinnar sökkvum við enn dýpra niður í fortíðina.

Spuni Framsóknar

Punktar

Framsókn fór í stjórnarandstöðu á landsfundinum. Hún steingleymdi, að hún er búinn að vera í stjórn lengur en margir muna. Hún þegir um, að hún ber ábyrgð á hrörnandi velferð þeirra, sem minna mega sín. Hún veit ekkert, hvað Írak er. Hún hefur ekki hugmynd um, að hún ber ábyrgð á úreltri stóriðju, og segist allt í einu vera grænni en allt, sem grænt er. Hún veit ekki, að hún gaf Halldóri Ásgrímssyni og fleiri kvótakóngum auðlindir hafsins, og þykist nú vilja kalla þær þjóðareign. Framsókn hefur áður bjargað sér út úr kosningum með því að hafa hamskipti á kosningavori. Eins og Bingi hjá borginni.

Orka fyrir okkur

Punktar

Hvort sem vetni er orkugjafi framtíðarinnar á Íslandi eða ekki, þurfum við gífurlegt magn af rafmagni fyrir okkur sjálf, ef við viljum láta innlenda orku koma í stað kola, olíu og gass. Slíkir orkugjafar munu snarhækka í verði, þegar menn fara að átta sig á, að þeir eru af skornum skammti. Við megum ekki fórnu beztu orkukostunum fyrir stóriðju, jafnvel þótt við hættum að niðurgreiða orkuna fyrir hana. Við megum ekki verða uppiskroppa með eigin orku, þegar við þurfum á henni að halda. Við skulum því hætta að borga með rafmagni til stóriðju, strax.

Hundraðasta hræsnin

Punktar

Sá, sem notar flugvélar mikið, getur ekki sakað græningja um tvískinnung, þegar þeir nota flugvél. Sá, sem á stóran bíl, getur ekki sakað græningja um tvískinning fyrir að eiga bíl. Sá, sem býr í stóru húsi, getur ekki sakað græningja um að búa í of stóru húsi. En það hefur einmitt verið stefna þeirra, sem lasta græningja, að saka þá um að fylgja ekki kreddunni út í fingurgóma. Róttækir græningjar geta lastað hófsama græningja fyrir slíkt, en alls ekki hinir, sem alls ekki eru grænir sjálfir. Gagnrýni hatursmanna græningja að þessu leyti er marklaus hræsni.

Skóli lífsins

Punktar

Á menntaskólaárunum var ég um tíma í Framsókn, sótti stjórnmálanámskeið og hélt, að ég mundi fræðast um stjórnmálastefnur. Í staðinn var í boði kennsla í ræðublekkingum að hætti Junior Chamber. Mér varð svo hverft við, að ég hætti strax. Löngu seinna áttaði ég mig á, að það var skortur á virðingu námskeiðsins fyrir sannleika, sem fældi mig frá því. Allar götur síðan hefur núningur minn við samfélagið einkum falizt í andúð minni á hræsni og dálæti mínu á vonlítilli leit að sannleika.

Ég var ritstjóri Skólablaðsins í 5. bekk. Síðan hef ég ekki vikið af leið og er nú búinn að vera í blaðamennsku og ritstjórn í hálfa öld. Ég kom inn í undarlega flokkspólitíska veröld, þar sem hræsni var í algleymingi og sannleikur lítils metinn. Ég kynntist eldri ritstjórum, sem voru að reyna að byrja að klóra sig út úr þessu ástandi. Ég tók við kyndlinum af þeim og vildi gefa út fréttablöð eins og þau, sem ég las, þegar ég bjó erlendis. Blöð sem höfðu leitina að sannleikanum að leiðarljósi.

Það gekk vel. Að öðru leyti þroskaðist ég lítið og tróð löngum marvaðann í eins konar vinsamlegri styrjöld milli blaðamennsku annars vegar og stjórnmála, auglýsinga og eigenda hins vegar. Það var ekki fyrr en um fimmtugt, að ég tók út þroska og fór að gera mér grein fyrir tæpri stöðu minni í samfélaginu. Um það leyti var ég orðinn svo hrokafullur, að ég speglaði sjálfsvirðingu mína ekki lengur í augum annarra. Þá kaus ég að feta braut, sem hafnaði ýmsum gildum samfélagsins og leiddi fljótt til sviptinga í starfi.

Snemma áttaði ég mig á, að margir hafa hræsni að leiðarljósi, taka jafnan þægindi og hagkvæmni líðandi stundar fram yfir sannleika. Eftir fimmtugt fór ég að skynja, að þessu fylgir eindregin afneitun. Fjöldi fólks neitar beinlínis að sjá neitt, sem gæti spillt trú þess á það sem er þægilegt og hentugt, rólegt og einkum hagkvæmt. Hræsni og afneitun eru tvær hliðar á sama einseyringi, hinu íslenzka þrælasamfélagi nútímans. Stjórnmálamenn eru ekki sekir, þeir endurspegla bara eymd samfélagsins.

Allra síðustu ár hef ég staðnæmst við hugtakið gegnsæi sem einu færu leiðina úr myrkri samfélagsins. Það verður að neyða fólk til að sjá, ef það á að geta leikið hlutverk sitt í lýðræðislegu samfélagi. Við þurfum að gera sem flest gegnsætt, allt frá fjárreiðum stjórnmála yfir í samskipti við erlend ríki, allt frá vanskilum á skatti yfir í vanskil á meðlagi. Við þurfum að opna allt það, sem nú er lokað, jafnvel ættir fólks, fjármál fólks, útistöður fólks við samfélagið. Við þurfum að lofta út haughúsið.

Ég er sáttur við ævina. Þeir, sem stjórnast að innan, hafa betri tök á lífi og sál en hinir, sem velkjast um eftir vindum samfélagsins. Ég hefði þó kosið að þjálfa húmorinn betur. Hann felur í sér mildari höfnun á gildum samfélagsins, dregur úr einsemd. Þessi skortur á auðsprottinni gamansemi er mér fjötur um fót. Hann er mín sök, því að hver er sinnar gæfu smiður. En það er léttvægt í samanburði við, að ég hef náð að skrifa 7400 greinar um minnisstæð mál, allar aðgengilegar á vefnum. Og er enn á fullu.

Þegar ég sezt í helgan stein, tek ég á hrokanum.

(Ísafold, marz 2007)

Hipp og kúl matur

Veitingar

Litlu, sætu dúfurnar og karrarnir þeirra fylla Domo í Þingholtsstræti á kvöldin. Þeim finnst hipp og kúl að koma þangað, fjárhagslega vaxin upp úr hamborgurum og pítsum. Maturinn er frambærilegur, en hefur þann eina metnað að sýnast. Uppsetningin á diska er mikilvægari en bragðdauf matreiðsla, sem kýlir ekki einu sinni á “fusion”-tízku með sterku kryddi. Japanskt sushi er betra og ódýrara í Maru í Aðalstræti. Sem tízka í mat er Domo daufari kostur en Apótekið í Pósthússtræti, sem áður var hipp og kúl. Ekta matreiðsla er rýrnandi þáttur í pakkanum, sem ræður vinsældum hipp og kúl veitingahúsa.