Góð er hugmyndin um, að ritstjórar fjölmiðla geri stöðu sína gegnsæja, segi frá fjármálum sínum, eign hlutabréfa, skuldum við banka, aðild að samtökum. Gott er allt, sem gerir samfélagið gegnsærra, veitir okkur betri skilning á gangverkinu í samfélaginu. Það er eins og opnunin á fjárreiðum stjórnmála. Allt slíkt er til þess fallið að svipta burtu leyndarhjúpum, sem komið hefur verið upp, sumpart fyrir tilstilli Persónuverndar. Ekkert er líklegra til að þróa samfélagið áleiðis til lýðræðis en opnun upplýsinga, sem hingað til hafa verið sagðar vera einkamál Jóns og séra Jóns í samfélaginu.
