Gegnsæir ritstjórar

Punktar

Góð er hugmyndin um, að ritstjórar fjölmiðla geri stöðu sína gegnsæja, segi frá fjármálum sínum, eign hlutabréfa, skuldum við banka, aðild að samtökum. Gott er allt, sem gerir samfélagið gegnsærra, veitir okkur betri skilning á gangverkinu í samfélaginu. Það er eins og opnunin á fjárreiðum stjórnmála. Allt slíkt er til þess fallið að svipta burtu leyndarhjúpum, sem komið hefur verið upp, sumpart fyrir tilstilli Persónuverndar. Ekkert er líklegra til að þróa samfélagið áleiðis til lýðræðis en opnun upplýsinga, sem hingað til hafa verið sagðar vera einkamál Jóns og séra Jóns í samfélaginu.

Vanstilltur dómari

Punktar

Ég er með innrammað bréf, ekki til mín, frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni dómara, þar sem látin er í ljós óvenjulega vanstillt skoðun á manni og málefni. Tilefnið var, að á sínum tíma vann Jón mikið við að semja “hlutlausar” álitsgerðir í þágu ráðherra. Mér finnst fyndið, að hann skuli vera orðinn hæstaréttardómari. Hann hæfði betur embættinu, ef dauðarefsing væri kostur í stöðu Hæstaréttar. Mér finnst vægt til orða tekið, að hann kalli ákærðan mann “raft”. Hann er vanur að taka sterkar til orða, ef honum finnst einhver vera fyrir sér.

Betri stjórar

Punktar

Breytingar Páls Magnússonar á stjórum í Ríkisútvarpinu eru til mikilla bóta. Í fyrsta skipti í langan tíma verða ekki séð nein pólitísk afskipti. Nýja uppstillingin er mun sterkari en sú, sem áður var. Horfið hafa ýmsar silkihúfur, sem forveri Páls réði meira út á flokkshollustu en getu. Að mestu er óbreytt yfirmennska á fréttastofum, en fækkað silkihúfum við almenna framkvæmdastjórn af ýmsu tagi. Eftir breytinguna verður stofnunin betur en áður í stakk búin að keppa á markaði ljósvakamiðla. Hitt er svo líka rétt, að ekki er hægt að öfunda neinn af að keppa við ríkisrekstur.

Mýktir stríðsglæpir

Punktar

Mýkja á stríð Íslands gegn Afganistan. Samkvæmt samkomulagi á síðasta degi Alþingis voru felld út ákvæði um hermennsku í lögum um friðargæzlu. Eftir standa ákvæði um borgaraleg verk og neyðaraðstoð. Þetta er í áttina. Það hjálpar þó ekki fólki, sem sent er til Afganistan til að styðja hernað Nató. Hersetnir heimamenn munu áfram réttilega líta á “friðargæzluliða” sem réttdræpa hermenn. Þingið lét líka undir höfuð leggjast að banna fjárstuðning Íslands við hernað og hernám Bandaríkjanna og nokkurra bjánaríkja í Írak. Sú aðstoð nemur tugum milljóna króna árlega. Hún er stríðsglæpur.

Misvitrir dómar

Punktar

Formaður Rafiðnaðarsambandsins var dæmdur til að greiða forsvarsmönnum starfsmannaleigu 1,5 milljón króna í miskabætur og málskostnað. Hann hafði látið hörð orð falla um vinnubrögð fyrirtækisins 2B í garð pólskra verkamanna við Kárahnjúka. Hann hafði reynt að gæta hagsmuna lítilmagnans, sem fyrirtækið hafði fótum troðið. Dómurinn fylgir nýjum sið íslenzkra dómstóla að dæma háar fébætur fyrir meiðyrði og brot á persónufrelsi. Þessir misvitru dómar munu smám saman draga úr gegnsæi þjóðfélagsins, efla fasisma og leiða vandræði yfir þjóðfélagið.

Ofstæki formanns

Punktar

Nýr formaður Framsóknar er sérkennilega ofstækisfullur. Hann hendir inn á Alþingi frumvarpi um náttúruvernd, sem unnið er af nefnd þriggja fulltrúa orkufyrirtækja. En engum frá náttúruverndarsamtökum. Hann kallar frumvarpið þjóðarsátt. Hann kallar allt þjóðarsátt, bara ef það er nógu sérsinnað og ofstækisfullt. Það er eins og Jón Sigurðsson sé klipptur út úr bókinni 1984 eftir George Orwell. Jón talar tungumál, þar sem allt stendur á haus. Þar sem svart er hvítt, stríð er friður, ofbeldi er ást. Ég held, að hann sé að verða miklu verri formaður en nokkurn hafði órað fyrir.

Hlaupið fyrir björg

Punktar

Framsókn var óheppin að láta Halldór Ásgrímsson, Valgerði Sverrisdóttur og Siv Friðleifsdóttir leiða sig úr grænum flokki í svartan stóriðjuflokk. Í stað þess að losna úr öngstrætinu, heldur flokkurinn dauðahaldi í nítjándu aldar stefnu stóriðju og færibanda. Meðan aðrar þjóðir losa sig við álver og heilsa nýrri stefnu, þekkingariðnaði 21. aldar. Allir geta lent á villigötum. Þeir þurfa samt ekki að æða áfram og hrista allt fylgi af sér til vinstri grænna. Framsókn virðist ekki vera sjálfrátt. Hún virðist staðráðin í að hlaupa fyrir björg. Kannski mun formaðurinn kalla það þjóðarsátt.

Tryggvi er stofnun

Punktar

Tryggvi Þór Herbertsson hefur skrifað enn eina skýrsluna undir dulnefninu Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Allar, allar hafa þær niðurstöður í þágu þess, sem pantaði og borgaði skýrsluna. Að þessu sinni hefur Tryggvi, öðru nafni Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, samið skýrslu fyrir Hafnarfjarðarbæ, þar sem bæjarstjóra Samfylkingar dreymir um álver. Í skýrslunni er ekkert rætt um útblástursmengun, umhverfisskaða og raflínur. Ekkert er þar heldur fjallað um, að orkan er ekki sjálfbær, heldur mun ganga til þurrðar. Því er gott fyrir Tryggva að kalla sig Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

“Kosið í burtu”

Punktar

Helgi Magnússon hjá Samtökum iðnaðarins vill ekki, að álverið í Straumsvík verði “kosið í burtu”. Hann vill, að ekki bara stjórnvöld, heldur líka almenningur, láti kúgast af hótunum. Ummæli hans segja mér, að hinir stóru og öflugu séu orðnir of stórir og of frekir. Þeir vilja ráða ferðinni og stilla þess vegna samfélaginu upp við vegg. Auðjöfrar segjast fara af landi brott, ef þeir borgi sama tekjuskatt og launþegar og gamalmenni. Þeir frekustu hafa raunar þegar gert það. Nú er farið að hóta, að fyrirtæki fari burt, ef þau fái ekki að nota evrur í bókhaldi. Fasisminn er að síast inn.

Annar hvor lýgur

Punktar

Ríkiskaup samþykkti, að hugbúnaður í Tetra-öryggiskerfið yrði ekki boðinn út. Ríkiskaup samþykkti þetta ekki. Hið fyrra sagði Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar. Hið síðara sagði Júlíus S. Ólafsson, forstjóri Ríkiskaupa. Annar hvor lýgur. Neyðarlínan fór algenga leið í svindli, fékk sér fyrst lítinn búnað frá Motorola utan útboðs. Síðan kom að ákvörðun um meiri kaup. Þá sagði Þórhallur, að áfram yrði að skipta við Motorola vegna tækninnar, sem fyrir var. Neyðarlínan er nefnilega ein af dæmigerðu, einkavæddu ríkiseinokunum, sem auka bruðl og spillingu í samfélaginu.

Gefnar auðlindir

Punktar

Upphlaup varð um gefnar og margseldar auðlindir hafsins. Framsókn var í forsæti stjórnarskrárnefndar og mistókst að semja um að segja svart vera hvítt. Í kjölfar þess kastaði Framsókn málinu inn á þing. Þar átti að afgreiða það í flaustri á næturfundum. Sérfræðingar og stjórnarandstæðingar hindruðu það. Málið er gott dæmi um siðleysi Framsóknar og örvæntingu hennar á kosningavori. Auðlindir hafsins verða ekki aftur þjóðareign með pólitískri yfirlýsingu í stjórnarskrá. Þær voru gefnar. Fyrir löngu. Vestfirðingar fá ekki með sjónhverfingum aftur heimildir, sem seldar hafa verið burt.

Stríð gegn veitingahúsum

Veitingar

Nornaveiðar gegn veitingahúsum eru rugl. Matvæli eru bara hluti af verði matsölustaða. Ódýr veitingahús á borð við Pottinn og pönnuna geta lækkað verð um 2%, ef vaskur lækkar mat um 7%. Þar eru matvæli kannski þriðjungur af verði. En dýrt veitingahús þarf ekki að lækka verð, því að þau eru að verðleggja fleira en hráefni. Ef staður er talinn hipp og kúl og verðleggur sig sem slíkan, er hráefnið kannski 10% af veitingaverði. Það þýðir, að lækkun matvælaverðs um 7% samsvarar minna en 1% af matarverði hjá Domo. Ég sé því ekkert brýnt samhengi milli breytts vasks og verðlags veitingahúsa.

Verðsviptingar veitinga

Veitingar

Sviptingar hafa orðið í verði veitinga síðustu mánuði. Vox og Perlan hafa sigið niður af tindinum, þar sem nú tróna Holtið og Grillið, enda betri. Mest fyrir féð fá menn í Sjávarkjallaranum, þar sem fínt er eldað fyrir miðlungsverð. Og á Maru, sem er í flokki ódýrra. Minnst fyrir peningana fæst í Lækjarbrekku, Óperu, Domo og Galileo, sem eru ofmetnir staðir. Nálægt botni verðs eru tveir góðir, Þrír frakkar og Potturinn og pannan. Austur-Indíafélagið er mjög gott og hefur farið lækkandi í verði síðustu misseri. Þetta er gott stöðumat á borgarlyst í aðeins 95 orðum.

Skrunað um sjónvarpið

Punktar

Ég er orðinn svo fullorðinn, að ég er að mestu hættur að vinna eða lesa á kvöldin. Mér getur dottið í hug að taka hausinn úr sambandi með því að horfa á sjónvarp. Heima hjá mér eru svo margar rásir, að heila eilífð tekur að skruna milli þeirra. En þar er hvergi bita að sjá. Ég er búinn að fá upp í kok af múmíu- og píramídaþáttum og ferðaþættirnir eru bara hefðbundin sjálfhverfa þáttastjóra. Ég skruna tvær umferðir í klukkutíma og fer svo bara að sofa. Ömurlegast er þó fréttasjónvarpið, frá CNN yfir í Fox, sem notað er til að misþyrma einmana ferðamönnum á hótelherbergjum.

Íhaldið til vinstri

Punktar

Íhaldið til vinstri
Svo langt hefur fasistinn Tony Blair runnið til hægri, að Íhaldið hefur birzt vinstra megin við Labour. Nýr formaður Íhaldsflokksins vill stöðva aðildina að krossferð Blair gegn múslimum og vill róttækar aðgerðir gegn hnignun umhverfisins af mannavöldum. Við höfum lengi horft furðu lostin á Blair breyta gömlum verkfallaflokki í fasistaflokk. Nú sjáum við eina afleiðinguna, David Cameron hefur fyllt í eyðuna, sem myndaðist við brottför ofsatrúarmannsins af miðju stjórnmálanna. Brezk stjórnmál leita aftur jafnvægis í miðjunni. Tony Blair reyndist bara vera vofa Thatchers.