Prófíll fyrir prófíl

Punktar

Ég var í tölfræði í háskóla í Berlín fyrir hálfri öld. Þar lærði ég, að prófílkannanir á skoðunum fólks væru til að finna prófíla. Fólk er spurt, hvort það telji eitthvað vera fremur gott eða mjög gott, fremur vont eða mjög vont. Tilgangurinn væri að sjá, hvort skoðanir væru harðar eða linar. Þá sést munur á róttækum og hógværum skoðunum. Þegar Fréttablaðið leggur fyrir prófílkönnun með einkunnum frá einum upp í fimm, þá á það ekki halda prófílunum leyndum. Og ég hélt, að það væri fagmaður, sem héldi þar utan um slíka hluti þar á bæ.

Fréttin kom ekki

Punktar

Fréttin um prófílana kom ekki heldur í Fréttablaðinu í morgun. Mér er óskiljanlegt, að lítilvægt sé, hvernig hlutföll eru milli málaflokka af þeim, sem krossuðu við fimm, þ.e. skiptir mjög miklu. Einnig af þeim, sem krossuðu við einn, þ.e. skiptir mjög litlu. Mikilvægt er, hversu mörgum finnst eitthvað skipta mjög miklu og mjög litlu. Það gefur meiri vísbendingu en heildarútkoman í blaðinu í gær. Eitt málið gæti fengið 50% út á einkunnir 1 og 5, annað mál fær sömu niðurstöðu út á einkunnir 2 og 4 og þriðja málið fær bara þrista. Enda rangtúlkaði visir.is könnunina í gær.

Ójafn leikur

Punktar

Með þrotlausri herferð og daglegum heilsíðum í blöðum hefur Alcan í Straumsvík tekizt að þoka andstöðu þjóðarinnar við stækkun álversins niður úr 63% í 55%. Ekki er vitað um stöðu kjósenda í Hafnarfirði, en reikna má með svipuðu ferli þar. Ef svo fer fram sem horfir, verða stuðningsmenn stækkunar komnir í meirihluta í kosningunni á laugardaginn. Þannig getur peningaaustur stóriðju skipt út meirihlutanum. Nógu margir eru ragir, ístöðulitlir, auðsefjanlegir, talhlýðnir, ekki frekar í Hafnarfirði en annars staðar. Þetta er ójafn leikur auðmagns gegn skynseminni.

Misjafnlega grænt

Punktar

Gott er, ef framboð Ómars Ragnarssonar framleiðir hægri græna þingmenn á kostnað Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Listinn fær samkvæmt spám þrjá þingmenn, kannski einn á kostnað Sjálfstæðísflokks. Við útreikninginn hef ég það að athuga, að ég get ekki séð Margréti Sverrisdóttir fyrir mér sem græna. Ómar hefur þakið hana grænni málningu, en ég sé ekkert grænt í sögu hennar. Hún er fyrst og fremst tækifærissinni eins og Jakob Frímann Magnússon. Þau hafa reynt fyrir sér í öðrum flokkum, en orðið að lúta í lægra haldi. Jakob hefur þó áður verið tengdur náttúru, en Margrét ekki.

Skrattinn á vegg

Punktar

Hestar eru hræddari við reiðhjól en bíla, barnavagna en torfæruhjól, skíði en vélsleða, hræddari við fis en flugvélar. Hræddur er ég um, að eitthvað verði undan að láta, þegar fisflugvöllur er kominn í tveggja kílómetra færi við Fjárborg og nýskipulagt hestahverfi í Almannadal. Ég held, að borgin hafi án hugsunar skipulagt fisvöllinn í kjölfar skipulags hesthúsa. Ég held, að enginn hafi spáð í áhrif fisvéla á hesta á þessu svæði. Ekki er nóg að vísa til nálægðar flugvallar í Mosfellssveit við hesthúsahverfið þar. Skrattinn er ekki málaður á vegginn, hann er þarna í raun.

Evrópsk drykkja

Punktar

Þriðji hver Íri er drykkjurútur, 27% Finna, 24% Breta og 23% Dana. Það eru niðurstöður áfengiskönnunar á vegum Evrópusambandsins. Íslendingar voru ekki taldir. Þeir eru taldir drykkjurútar, sem drekka meira en fjóra snafsa á einu fylleríi. Þrátt fyrir eiturlyf er áfengi enn mesta böl Evrópu. 195.000 Evrópumenn deyja árlega af völdum þess. Einnig fjórðungur karlmanna, sem deyja á aldrinum 15-29 ára. Helmingur ofbeldis í Bretlandi er áfengistengdur. Aðeins Ítalir og Grikkir kunna með áfengi að fara, þar eru drykkjurútar aðeins 2% fólks. Frá þessu segir í Spiegel.

Ungbarnadauðinn

Punktar

Mikill ungbarnadauði einkennir Bandaríkin umfram önnur auðríki heims. Ríkasta land í heimi hefur ekki efni á að tryggja nýfæddum börnum öruggt umhverfi, þegar hættan er mest. Dauðinn stafar af velferðarskorti þjóðar, sem telur hvern vera sjálfum sér næstan. Bandaríkjamenn skora hæst þjóða heims í þjóðartekjum á mann og hafa dýrasta heilbrigðiskerfi heims, en bjóða ekki sama heilsuöryggi og Vestur-Evrópa. Af þessum ástæðum er erfitt að taka alvarlega tillögur um, að Ísland geri Bandaríkin að leiðtoga lífs síns.

Hugur og hjörtu

Punktar

Bandaríski herinn vinnur ekki hug og hjörtu Íraka með því að ryðjast inn á stofugólf þeirra, ota að þeim byssum, garga á þá og skjóta suma. Nánast öll þjóðin í Írak hatar Bandaríkin eins og pestina. Um þetta fjallar H.D.S. Greenway í Boston Globe. Nestor bandarískra álitsgjafa vitnar í bandarískan hermann, sem segir andrúmsloftið í landinu hafa gerbreytzt við langvinnt hernám. Allir, sem vinna fyrir herinn eða leppstjórnina, eru taldir raktir landráðamenn og verða síðar skornir á háls. Þegar Bandaríkin leggja niður rófuna og neyðast til að hafa sig á brott. Eins og í Víetnam.

Mislukkuð fæling

Punktar

Löggur fagna hertum refsingum við afbrotum gegn löggum. Prófessor í afbrotafræði bendir samt réttilega á, að ekkert samband sé milli þyngri refsinga og fækkunar afbrota. Raunar er mikið um, að fólk ímyndi sér, að samhengi sé milli refsinga og ýmissa annarra atriða. Svo sem að refsingar eigi að vera mannbætandi eða að þær eigi að vera hefnd. Þær eru hvorugt. Þær eru ekki fæling, eru ekki mannbætandi og eru ekki hefnd. Eina gildi refsingar er, að hún tekur síbrotamenn úr umferð. Það eitt er nægileg ástæða fyrir refsingum og gildir raunar bara um síbrotamenn.

Einkaframkvæmd

Punktar

Lagning Sundabrautar á vegum Faxaflóahafna er sýndarmennska. Eins og aðrar einkaframkvæmdir á ríkisverkum snýst hún um að halda ríkisframkvæmdum utan við fjárlög, svo að þær spenni ekki upp ríkisgeirann. Það sýnir vel, hversu rugluð eru sum hugtök í hagfræðinni. Enginn aðili getur náð lægri vöxtum en ríkið sjálft, af því að það fer síðast allra á hausinn. Það getur alltaf skattlagt fólk. Faxaflóahafnir geta ekki útvegað sér eins lága vexti og ríkið getur sjálft. Engum kemur á óvart, að Bingi í borginni hefur forustu í þessasri sjónhverfingu. Hún er dæmigerð fyrir Framsókn á kosningavori.

Misdýrir flokkar

Punktar

Athyglisvert er, að Framsókn og Samfylkingin vilja eyða meiri peningum í kosningaslaginn en Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir og Frjálslyndir. Framsókn vill auglýsa í fjölmiðlum fyrir 35 milljónir króna og Samfylkingin fyrir 30 milljónir króna. Hinir flokkarnir þrír vilja aðeins auglýsa fyrir 15-20 milljónir króna hver. Þetta eru svipuð hlutföll milli flokka í eyðslu og við sáum í síðustu alþingiskosningum. Framkvæmdastjórarnir hafa setið á fundum um þetta og hafa átt erfitt með að ná saman, því að mikið ber á milli.

Sjór gengur á land

Punktar

Í fyrsta skipti á ævinni varð ég að vaða þang og grjót og klofa yfir malbiksflögur á göngugötunni út í Suðurnes. Sjórinn hefur oft gengið á land á Eiðisgranda, en er nú líka farinn að vaða yfir varnargarða Suðurstrandar. Áður fyrr gekk sjór á land einu sinni á vetri nálægt húsi Jóns Loftssonar. En í vetur hefur hann oft flætt þar. Í þetta sinn rauf hann skarð í varnargarðinn. Í næsta Básendaflóði mun sjór flæða stranda milli um Kolbeinsstaðamýri með miklu eignatjóni. Samt vill Bingi í borginni byggja hverfi úti í sjó við Örfirisey. Til að gleðja verktaka.

Verktakaástin

Punktar

Ást borgaryfirvalda á verktökum er hin sama eftir kosningarnar í fyrra og hún var fyrir þær. Hún minnir á ást bæjaryfirvalda í Kópavogi, sem gera allt fyrir verktaka. Það eru ekki kjósendur, sem biðja um, að nýrri byggð sé troðið ofan í gömul hverfi. Þeir biðja ekki heldur um ný hverfi úti í sjó. Það eru verktakarnir, sem vilja þetta. Þeir ætla samt ekki að borga útsýnismissi. Þeir ætla ekki að borga fyrir mislæg gatnamót og fjölgun akreina. Þeir ætla ekki að borga fyrir stækkaða sjóvarnargarða. Bingi í borginni ætlar auðvitað að láta kjósendur borga. Til að gleðja verktaka.

Vanheilagt hjónaband

Punktar

Stærsti flokkur rannsókna bandarískra fjölmiðla snýst um hjónaband verktaka og kosinna byggðafulltrúa. Annað hvert dæmi um spillingu í Bandaríkjunum snýst um lóðir, nýtingarhlutfall, þéttingu í byggð, deiliskipulag. Á öllum þessum sviðum geta borgarfulltrúar fært verktökum gróða á silfurfati. Það er spilling, þótt ekki sé borið fé á fulltrúana. Raunin er þó sú í flestum tilvikum vestan hafs. Hér á landi þarf að skoða vanheilagt hjónaband pólitíkusa og verktaka. Það sást bezt, þegar varamaður Binga í borginni sat beggja vegna borðsins í Mýrargötumálinu. Til að gleðja verktaka.

Íslenzkir majórar

Punktar

Morgunblaðið talaði í gær við Herdísi Sigurgrímsdóttur “majór” í hernámi Íraks. Hún á að vera á græna svæðinu í Bagdað, sem “er auðvitað Írak” að sögn annars hernámsliða, Steinars Sveinssonar. Það er bull. Þið sannfærist um það með því að lesa langa lýsingu George Packer í The New Yorker á græna svæðinu í Bagdað. Græna svæðið er limbó, þar sem menn hafa ekki hugmynd um Írak. Þeir búa í gervi af Bandaríkjunum, svo fjarri veruleikanum, að þeir eru hættir að nota innfædda túlka. Heldur flytja þá inn frá Jórdaníu. Greinin er flott lýsing á græna svæðinu sem skrípó fyrir ameríska bjána.