Hatrið í Texas

Punktar

Hatrið í Texas
Í Texas fékk hvítur unglingur skilorð fyrir að brenna ofan af fjölskyldunni. En 14 ára svört stúlka fékk sjö ára fangelsi fyrir að stjaka við eftirlitsmanni í skóla. Hún hafði hreina sakaskrá. Sami dómarinn var að verki, Chuck Superville. Chicago Tribune fjallar um þetta einkennilega mál, sem minnir á tíma Ku Klux Klan. Í grein blaðsins er fjallað um fleiri tilvik af þessu tagi. Það er trúlega met í negrahatri að dæma fjórtán ára stúlku í sjö ára fangelsi fyrir agabrot í skóla. Shaquanda Cotton er enn í fangelsi og hefur setið inni eitt ár af sjö.

Létu ekki hugfallast

Punktar

Hafnfirðingar höfnuðu í gær stækkun álversins í Straumsvík. Í fyrsta skipti hefur stóriðjustefna beðið hnekki í almennri kosningu. Mjótt var á mununum, enda jós Alcan eins miklu fé í slaginn í Hafnarfirði og heill flokkur gerir á landsvísu í kosningunum í vor. Meðal annars hótaði auðhringurinn að loka sjoppunni. Hafnfirðingar stóðust þrýstinginn. Búast má við, að auðhringir fái oftar tækifæri til að hafa afskipti af lýðræðisferli í samfélaginu. Þeir gera það víða erlendis. En við höfum séð í Hafnarfirði, að kjósendur sáu ofurefli fjármagnsins og létu samt ekki hugfallast.

Rök og rasismi

Punktar

Frjálslyndi flokkurinn byrjaði í dag að auglýsa það, sem aðrir flokkar kalla útlendingahatur. Búast má við hressum upphrópunum í tilefni þessa. Frjálslyndir segja, að erlent vinnuafl hafi haldið niðri launum í byggingaiðnaði. Það hafi valdið mikilli spennu á leigumarkaði húsnæðis. Nýbúar séu hlutfallslega fleiri en annars staðar á Norðurlöndum. Þeir hafi ekki þurft að læra íslenzku og íslenzka samfélagsfræði. Þetta eru allt umræðuverð atriði, sem aðrir flokkar þurfa að taka afstöðu til, í stað þess að hrópa “rasistar”. Málefnaleg umræða er bezt.

240 hvítliðar

Punktar

Ég óttast 240 manna varalið Björns Bjarnasonar og Haraldar Johannessen. Þeir girnast svona lið, af því að þeir telja jaðra við landráð að vera þeim ósammála í pólitík. Ég treysti þeim ekki fyrir 240 manna herliði. Mér er sama, hvort herinn hans Björns heitir varalið, hvítliðar eða SS-sveitir. Ég veit, að þær munu soga til sín menn, sem þrá að berja fólk. Svoleiðis hefur það alltaf verið, alls staðar í heiminum. Við þurfum að vísu að passa hafnir og flugvelli. En við þurfum ekki sveitir til að siga á fólk. Við höfum í áratugi komist af án slíkra. Og svo mun verða um langan aldur.

Erfðabreytt leyndó

Punktar

Evrópumenn geta valið erfðabreyttan mat eða hafnað honum, af því að það er merkt á umbúðirnar. Hér í villtu vestri geta menn ekki valið, erfðabreyttur matur og fóður eru flutt inn án merkinga. Erfðabreytt fóður er notað í innlendum landbúnaði án þess að okkur sé sagt frá því. Stundum er jafnvel fullyrt, að það sé ekki notað. Þegar upp kemst um karlinn Guðna, munu erlendir viðskiptavinir landbúnaðarins kippa að sér hendinni. Erfðabreytt ræktun hefur verið leyfð í Skagafirði, án þess að fólki sé gefinn kostur á að hafna búvörum sýslunnar. Svona er leyndó á Íslandi árið 2007.

Mengað land

Punktar

Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði er eina svæði Íslands, sem hefur verið lýst frítt við erfðabreytta framleiðslu. Á meginlandi Vestur-Evrópu er samt meginhluti flestra landa yfirlýstur laus við erfðabreytt matvæli, nema Spánn og Þýzkaland. Vandinn hér og þar er hinn sami, erfðabreytta kornið fýkur inn á ómengað svæði og veldur miklum usla og kostnaði við hreinsun. Hvað gerir Heilsustofnunin, þegar þetta gerist þar? Mun Framsókn, sem skipar stjórn stofnunarinnar, fara í mál við Framsókn, sem skipar stjórn landbúnaðarmála?

Ei má satt kyrrt liggja

Punktar

Þeir vilja ekki banna eitt né neitt, sem vilja láta merkja erfðabreytt matvæli. Þeir vilja bara fá að hafna slíkum mat fyrir sitt leyti. Það er dæmigert fyrir ofbeldishneigð stjórnvalda að gefa fólki ekki kost á að velja eða hafna. Í mörgum slíkum atriðum hefur ríkisstjórnin unnið gegn vilja fólks. Erfðabeytti maturinn skal ofan í helvítis pakkið, annað hvort beint eða gegnum lambakjötið, hvort sem fólk vill eða ekki. Það er kjarninn í matvælastefnu Guðna Ágústssonar og stjórnarinnar. Ef fólk fær að vita sannleikann, fer það kannski að haga sér á skjön við vilja kerfisins.

Undirbúin himnaríkisvist

Punktar

Þegar ég dey, ef ég dey, verður gaman að lifa. Vegna góðs lífernis mun ég vafalaust hafna í himnaríki. Þar er fullt af þriggja stjörnu veitingahúsum af alls konar tegundum. Í þau fara kvöldin. Hádegið fer í reiðtúra með íslenzkum gæðingum, sem ég þekki suma hverja. Eini gallinn við himnaríki er, að þar er lítið af spekingum. Samkvæmt Dante Alighieri er skemmtilega fólkið í forgarði helvítis. Þar eru engar þjáningar. Þetta er eins konar kaffihús. Mér finnst nauðsynlegt, að við í himnaríki fáum útivistarleyfi einu sinni á dag. Til að fá okkur espresso á kaffibar í forgarði helvítis.

Vandamálafræði á forsíðu

Punktar

Helgi Gunnlaugsson vandamálafræðingur telur óhæft að setja fimmtán ára ungling á Litla-Hraun. Þótt sá sé gamall síbrotamaður, sem gengur vopnaður til verka og er hættulegur lífi og limum. Fræðingurinn lýsir skoðun sinni á forsíðu Moggans. Helgi talar ekki um fólkið, sem verður á vegi vopnaðra síbrotamanna. Hann spyr ekki, hvort við viljum sjá fyrir okkur, að fólk loki sig inni af ótta við glæpamenn. Spyr bara um heill glæponsins. Vont er að setja unga menn á Hraunið, en verra er að láta vopnaða síbrotamenn ganga lausa. Fangelsun er ekki lækning, heldur útlegð.

Örstormur í bloggi

Punktar

Blogglætin um huldufund Geirs Haarde og Steingríms Sigfússonar sýnir tvennt: Lítið er að marka blogg og bloggi er ofhossað. Við hrærumst í baráttu, þar sem nokkrar spunakerlingar úr vinnumiðlun Framsóknar mynda skjallbandalag í bloggi. Þær tyggja slúðrið hver upp eftir annarri í von um, að slúður annarra fjalli um annað en vinnumiðlunina. Sjónvarpsþáttur, sem þykist vera alvöruþáttur, reynir að negla niður fund, sem ekki hefur fundizt. Þáttastjórinn bloggar svo um, að Geir og Steingrímur eigi að tjá sig um blogg hans. Þetta rugl er ársins örstormur í vatnsglasi.

Áttaviti í fuglum

Punktar

Bréfdúfur rata, af því að þær eru með örlitlar járnflögur í húðinni ofan á gogginum. Þær snúast eftir segulsviði jarðar eins og áttaviti. Sama er að segja um farfugla, til dæmis kríuna okkar. Gerta Fleissner og fleiri þýzkir fræðimenn birtu þessar niðurstöður í tímaritinu Naturwissenschaften. Fleissner segir alla fugla hafa slíkar járnflögur. Þar á ofan hafa franskir vísindamenn fundið, að bréfdúfur eru minnugar, geta munað 1200 myndir af landslagi. Loks segja ítalskir fræðimenn, að þær finni mismunandi lykt af landi. Dúfur eru samt ekki taldar gáfaðastar fugla. Hrafninn er gáfaðri.

Einfaldur orkusparnaður

Punktar

Fundinn hefur verið upp fimm sentimetra vaxkubbur til að setja í kæliskápa til að spara orku. Rafmagnið fer þá í gang, þegar varan hitnar, ekki þegar bara loftið í skápnum hitnar. Kubburinn kostar 3000 krónur stykkið og á að geta lækkað orkureiknings hótels um 2 milljónir króna á ári. Auk þess dregur hann úr útblæstri gróðurhúsalofts. Einnig er byrjað að selja ljósaperur, sem draga úr orkunotkun og endast betur en venjulegar perur. Næsta skref er að setja vaxkubba í alla nýja kæliskápa og setja umhverfisgjald á gamaldags ljósaperur. Í orkubúskapnum gerir margt smátt eitt stórt.

Samfelld sigurganga

Punktar

Evrópusambandið er samfelld sigurganga. Jafnvel hin fáránlega langa 50.000 orða stjórnarskrá, sem féll í Frakklandi og Hollandi, hefur tekið gildi í átján löndum þess. Nánast öll Evrópa er eitt myntsvæði og öll álfan er einn markaður. Lög um alla álfuna eru mótuð af sambandinu. Aldrei verður aftur stríð í Evrópu. Þetta er stórkostlegri afrekaskrá en flestra annarra fjölþjóðasamtaka. Menn kvarta og kveina út af smámunasemi sambandsins. Og ný ríki hafa átt erfitt með að fóta sig í regluverkinu. Samt er Evrópusambandið hornsteinn að lífi utangarðsríkja á borð við Ísland.

Kvennaflokkur

Punktar

Þorgerður Einarsdóttir skrifar rugl ársins í Fréttablaðið í dag. Hún kvartar yfir, að umhverfisflokkur Ómars Ragnarssonar hafi ekki kvenfrelsi á oddinum. Hún kvartar yfir, að Margrét Sverrisdóttir sé ekki formaður. Það er eins og Þorgerður komi út úr kú. Umhverfisflokkur Ómars var stofnaður vegna umhverfismála, ekki kvennamála. Tákn flokksins er Ómar sjálfar, umhverfispostulinn. Ef Margrét væri formaður, mundi flokkurinn ekki vera trúverðugur sem umhverfisflokkur. Grein Þorgerðar er róttækt dæmi um bullið, sem þrífst í kjallaragreinum rétttrúaðra.

Vitræn könnun

Punktar

Milli óhóflega tíðra kannana á fylgi flokka án tillits til stöðu einstakra kjördæma kom vitræn könnun í gær. Fréttablaðið segir kjósendur telja velferð skipta mestu og þar næst efnahag. Í þriðja sæti eru skattar og í því fjórða umhverfið. Því miður birtist bara tilvísunin á forsíðu, en tilvísuðu fréttina vantaði í blaðið á bls. 6. Gaman verður að sjá, hvernig hvert mál lítur út í hlutfalli við normalkúrvu. Umhverfið er sennilega mál, sem skiptir fólki þétt til beggja enda. Við þurfum að sjá kúrvu hvers málaflokks til að skilja þessa annars ágætu könnun. Meðaltalið segir fátt.