Skilur ekki kjósendur

Punktar

Jón Sigurðsson skilur ekkert í fólki að segjast vilja hafna stóriðju. Búið sé að hafna frekari stóriðju í Hafnarfirði. Helguvík teljist varla stóriðja. Og Húsavík eigi langt í land. Víst sé þó, að fólk sé ekki í nýjustu skoðanakönnun að hafna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Enda hefur hann áður sagt, að stjórnvöld hafi enga stóriðjustefnu. Þetta séu bara staðarmál heimamanna á nokkrum stöðum. Ég held, að leitun sé að manni, sem kemur eins mikið af fjöllum í tilverunni á Íslandi. Jón Sigurðsson segir raunar “erfitt að átta sig á” meiningu kjósenda.

Engan sakaði

Fjölmiðlun

Gissur Sigurðsson er lífsreyndur blaðamaður, sem hefur næmt auga fyrir nauðsyn þess að hreinsa froðu úr texta. Í umræðu um stíl milli mín og starfsfólks visir.is benti hann mér á klisjuna: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” Þetta þýðir á íslenzku: “Engan sakaði”. Froða af þessu tagi er megineinkenni íslenzks fjölmiðlstíls, einkum hinna yngri í faginu. Margir þættir blaðamennsku eru í góðu standi hér á landi, en stíl er almennt ábótavant. Sá er raunar stærsti munurinn á íslenzkri og vestrænni blaðamennsku. Þar hugsa blaðamenn um stíl og spúla burt froðunni.

Þrugl í fjölmiðlum

Punktar

“Það kom eins og þjófur úr sauðaleggnum.” “Það kom eins og þruma á nóttu.” “Það kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti.” Ruglingur í orðtökum er algengur í fjölmiðlum hér á landi og vekur jafnan eftirtekt og aðhlátur. Hafa ber þó í huga, að orðtök eru bara ofnotaðar klisjur, þótt rétt sé farið með þau. Meginvandi stíls í fjölmiðlum er hins vegar þruglið, sem felst í löngum málsgreinum, flóknu orðalagi, þolmynd í stað germyndar, viðtengingarhætti í stað framsöguháttar, nafnorðahossi í stað markvissra sagnorða, ofnotkun lýsingar- og atviksorða og samtenginga.

Vondur háskólastíll

Punktar

Með aukinni menntun hefur stíl farið aftur í fjölmiðlum. Menn skrifa að hætti dauðra háskólaritgerða. Menntamenn nota ekki einföld sagnorð, hornsteina tungumálsins. Þeir breyta þeim í nafnorð eða lýsingarorð, í heilar setningar, sem þeir hengja á alhæfð sagnorð á borð við “gera” og “vera”. Þeir hanga í þolmynd: “Gerð var athugun á dreifingu skoðana íbúa Akraness á atriðum, sem varða afstöðu þeirra til stjórnmálaflokka”. Í stað: “Ég kannaði skoðanir Skagamanna á pólitík.”. Þeir eru hræddir, líta á textann sem fljót, sem þeir geti tiplað yfir á nafnorðum.

Heimskt sjálfstraust

Punktar

Ég á ekki orð yfir Oddi Eysteini Friðrikssyni, umsjónarmanni þáttarins Fyndnasti maður Íslands. Í viðtali við Fréttablaðið í gær segir hann: “Ég sé ekkert óviðeigandi við að fyndnasti maður Íslands sé krýndur á sama degi og Kristur var krýndur sinni kórónu. Ég er viss um, að hann hefði komið á keppnina sjálfur hefði hann ekki verið örlítið bundinn.” Ég geri mér grein fyrir, að menn komast langt í sjónvarpi á heimsku sjálfstrausti. En fyrr má nú rota en dauðrota. Burtséð frá því, hvaða skoðun menn hafa á bröndurum á föstudeginum langa, þá lýsa orð hans fáheyrðri sjálfumgleði.

Spilling allra tíma

Punktar

Philip A. Cooney stjórnaði áður þrýstihóp bandarískra olíufélaga, sem afneitaði ofhitnun jarðar. Hann er ekki fræðimaður. Síðar varð hann ritskoðari bandaríkjastjórnar og sá um, að skoðanir vísindamanna á ofhitnun jarðar næðu ekki eyrum almennings. Nú er hann farinn að vinna hjá Exxon, sem er hrókur allra afneitara. Hinn íhaldssami Thomas L. Friedman hjá New York Times telur þetta mestu spillingu allra tíma. Þúsundir vísindamanna vara við ofhitnun jarðar, en ríkisstjórn George W. Bush leitar allra leiða til að leyna staðreyndum. Friedman þakkar guði fyrir endurkomu demókrata.

Mannfallið staðfest

Punktar

Tölurnar í brezka læknaritinu Lancet um mannfall óbreyttra borgara í Írak hafa verið staðfestar. Vísindamenn við Alþjóðlegu þróunarstofnunina segja reikningsaðferðir John Hopkins stofnunarinnar hafa verið réttar eins og þær voru birtar í Lancet. 650.000 óbreyttir borgarar í Írak hafa fallið síðan Bandaríkin, Bretland og fleiri stríðsglæparíki hófu innrás þar í land. Stjórnvöld í þessum löndum vefengdu tölurnar á sínum tíma, en þær hafa eigi að síður staðist gagnrýni. Ritstjóri Lancet, Richard Horton, segir í Guardian, að þessi vestrænu manndráp séu skelfilegur stríðsglæpur.

Vinsælasti sonur landsins

Punktar

Í Þýzkalandi eru félagsbundnir eigendur íslenzkra hesta tvöfalt fleiri en á Íslandi. Þeir eru 23.000, en við erum 10.000. Íslenzkir hestar eru næstum eins margir í Þýzkalandi og á Íslandi. Þar eru þeir 65.000, en hér 75.000. Næstir Þjóðverjum í áhuga á hestunum koma Danir og Svíar. Á báðum stöðum fara eigendur þeirra senn fram úr fjöldanum hér. Hestar eru greinilega vinsælasta einkenni landsins. Þeir eru orðnir fleiri í útlöndum samtals en hér á landi. Nýjastan landið á perlufesti hestanna er Nýja-Sjáland, hinum megin á hnettinum. Þar eru nú 55 íslenzkir hestar.

Prófílkannanir

Punktar

Ég vil sjá könnun um, hversu harðar og umdeildar skoðanir kjósenda eru. Mér kemur ekki á óvart, að fleiri hafi áhyggjur af velferð en umhverfi. En mig langar að vita, hversu harðar þær skoðanir eru. Það hlýtur einnig að vera munur á prófílum umdeildra skoðana á borð við umhverfi og einróma skoðana á borð við velferð. Ég vil líka vita, hvort skoðanir kjósenda Framsóknar á umhverfi eru vægari en skoðanir Vinstri grænna. Ég vil sem sagt vita, hvar eru topparnir á skölum með og móti frá -5 og upp í +5. Ég vil vita, hvar skoðanir toppa í prófílum. Ég hef enn ekki séð neinar prófílkannanir.

Stafræn íslenzka

Punktar

Google er að skanna bókasöfn háskólanna Oxford, Stanford og Harvard og ríkisbókasafn Bæjaralands. Allar bækurnar verða stafrænar og margar aðgengilegar almenningi, þær sem hafa útrunninn höfundarétt. Margir hafa potast áleiðis í slíkum verkefnum, en Google er eini aðilinn, sem hefur tekið allan pakkann. Þetta er bylting, sem tekur nokkra mánuði. Spurningin er, hvort þetta sé ekki ein virkasta leiðin til að bjarga íslenzku sem tungumáli. Ríkisstjórn og Þjóðarbókhlaðan eiga strax að semja við Google um að gera allt bókasafn þjóðarinnar aðgengilegt á veraldarvefnum.

Algerlega á tánum

Punktar

“Við ætlum að vera algerlega á tánum í þessum efnum,” segir tæknistjóri Garðabæjar í Mogganum. Hver er munurinn á að vera “á tánum” og “algerlega á tánum”? Hvort tveggja þýðir á íslenzku að “vera viðbúinn”. Dæmið sýnir vandræði manna, sem þurfa sífellt að finna ýktari orð en áður. Og nóg er af klisjum í örstuttum texta mannsins: “sem er að gerast í kringum okkur í þessum efnum … þetta fær núna aukið vægi hjá bæjarfélaginu … algerlega á tánum í þessum efnum.” Kenna þarf mörgum embættismönnum venjulega íslenzku. Og kannski nokkrum blaðamönnum í leiðinni.

Bloggarar stela myndum

Punktar

Margir íslenzkir bloggarar krydda síður sínar með ljósmyndum, sem þeir hafa ekki tekið og eiga ekki. Þeir stela þeim bara, hvar sem þeir finna þær. Allar varða þessar myndbirtingar við Bernarsáttmálann um höfundarétt. Til að birta myndir þarf leyfi höfundar eða erfingja hans, svo og greiðslu. Svo virðist sem bloggurum sé ekki kunnugt um höfundarétt. Eða þeim finnist sér heimilt að gera það sem hinir gera. Samtök ljósmyndara þurfa að gæta hagsmuna sinna á þessum vettvangi. Einfaldast er að beina kröfum þeirra að hýsingaraðilum bloggsins og ná þannig til fjölda bloggara í einu höggi.

Réttar veiðistengur

Punktar

Veiðistöng beygist svona: Stöng – stöng – stöng – stangar – stengur – stengur – stöngum – stanga. Ekkert er rangt við að nota orðið stengur með e í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Það kemur ekki neitt við stangveiði með a. Að vísu má líka nota stangir – stangir. Hljóðbreytingar íslenzku eru sérstakt fag og ekki á færi hvaða almannatengils sem er. Skynsamlegra er að láta fræðimenn í sagnfræði íslenzkunnar um að gagnrýna auglýsingar stangveiðimanna um veiðistengur.

Flatur tekjuskattur 28%

Punktar

Ég er orðinn svo gamall, að ég fjarlægist launatekjuskatt og nálgast fjármagnstekjuskatt. Samt finn ég ekki réttlæti í lækkun skatta. Af hverju á ég að borga 10% skatt meðan aðrir borga 38% skatt? Ég sé ekki, að neinn pólitíkus tali um, að fjármagnseigendur eigi að borga sama og launamenn og eftirlaunafólk. Enginn pólitíkus lofar að jafna tekjuskattinn. Þrátt fyrir áratuga þvaður krata um velferð er enn verið að hossa þeim ríku á kostnað hinna fátæku. Ég gizka á, að flatur tekjuskattur á alla mundi verða 28%. Mér sýnist það líka vera sanngjörn og sáttfús tala fyrir alla.

“Hryðjuverkamaður” játar

Punktar

Íslenzkir fjölmiðlar segja, að hryðjuverkamaður hafi verið dæmdur. Ég sé ekki, að þeir hafi nein rök fyrir því. David Hicks dró til baka kvörtun um pyntingar gegn því að fá bara sjö ára dóm og fá að afplána í Ástralíu. Ekki er hægt að lýsa neinn sekan, sem setið hefur árum saman í Guantanamo og sætt pyntingum að bandarískum hætti. Játningar, sem fást með pyntingum og samningum um sérmeðferð, eru einskis virði. Marklaus er kengúrudómstóll bak við luktar dyr að hætti bandaríska hersins. Fjölmiðlar eiga að orða fréttir svo, að þeir taki ekki undir augljóst rugl. Þar með talin Gufan.