Vandaðar greinar

Punktar

Farið á newyorker.com, vefsíðu hins fræga The New Yorker og lesið vandaðar greinar um spennandi mál. Þar er núna grein John Cassidy um ný-íhaldsmanninn Paul Wolfowitz, sem stjórnar Alþjóðabankanum í götóttum sokkum og hrækir í greiðuna, þegar hann greiðir sér. Grein Jeffrey Goldberg um Wal-Mart og spunakerlingar fyrirtækisins, sem eru úr flokki demókrata. Grein George Packer um nokkra Íraka, sem treystu Bandaríkjunum og lentu í ógæfu. Grein Seymour M. Hersh um bandarískan hershöfðingja, sem var rekinn úr Víetnam-stríðinu. Vídeó um pyndingar Kiefer Sutherlands.

Bless, kosningaloforð

Punktar

Mér kom í opna skjöldu fréttin um, að stjórnarflokkarnir hafa að mestu svikið kosningaloforðin fyrir fjórum árum. Í Fréttablaðinu á laugardaginn birtist listi yfir efnd og svikin loforð. Þar sést, að sjálfstæðismenn hafa svikið mikinn meirihluta loforða sinna. Þar á meðal er afnám biðlista í sjúkraþjónustu; endurgreiðsla tannlækninga fyrir unglinga; að þinglýstar eignir verði látnar í friði; fangelsi verði reist; skylduáskrift afnumin af útvarpi;, o.s.frv. Svik framsóknarmanna eru einnig merkileg, en þeir hafa þó efnt helminginn af loforðum sínum.

Siðareglur um blogg

Punktar

Siðareglur um blogg
Áhugamenn um blogg í Bandaríkjunum hafa tekið saman höndum um siðareglur bloggara. Bezta tillagan er, að eigendur heimasíðna skrúfi fyrir nafnlausar athugasemdir annarra. Önnur hugmyndin er, að byrjað verði að lögsækja bloggara skipulega fyrir ófeðrað níð á síðum þeirra. Þriðja leiðin er, að vistendur þursahríns, svo sem Barnaland og Málefnin taki ábyrgð á nafnlausu níði. Allt er þetta samhljóða tillögum, sem ég hef sett fram hér á landi. Ennfremur leggja þeir til, að “þursarnir” verði þagðir í hel. Sjá tillögu að siðareglum á Blogger’s Code of Conduct.

Rangfærslur bloggara

Punktar

Rangfærslur bloggara
Bloggarar um pólitík fara rangt með staðreyndir. Það gera fjölmiðlar ekki. Oliver Kamm skrifar um þetta í Guardian og bendir á, að bloggarar lúti ekki eftirliti ritstjóra. Enga hæfni eða þekkingu þarf til að blogga. Hann segir dæmin sanna, að stjórnmálaflokkar skaðist á að taka mark á bloggi. Þar sé á ferð hávær minnihluti, sem hefur fátt þarfara að gera en að blogga. Prófið að reyna að taka þátt í spjalli pólitískra bloggara. Það er ókleift, þeir öskra bara sömu innantómu klisjurnar í síbylju. Kamm telur, að bloggið hafi dregið pólitík á lægra plan.

Umdeildur Albani

Punktar

Tekizt er á um Ramush Haradinaj. Stríðsglæpadómstóll Júgóslavíu reynir að dæma hann fyrir stríðsglæpi, morð og nauðganir. Nató og Sameinuðu þjóðirnar reyna að hindra þetta. Samtökin hafa nefnilega ákveðið, að Haradinaj sé hinn eini, sem geti stjórnað Kosovo, þegar það verður sjálfstætt. Hvað eftir annað hafa samtökin reynt að bregða fæti fyrir dómstólinn. Ekki bætir úr skák, að vitni stríðsglæpadómstólsins eru drepin á dularfullan hátt. Það segir allt, sem segja þarf um ástmög Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. Og um siðferði samtakanna.

Ábyrgð fylgir fé

Punktar

Öryggisráðgjafi Evrópusambandsins hefur vakið athygli þess á, að sambandið kunni að vera meðsekt í stríðsglæpum í Mogadishu í Sómalíu. Sambandið fjármagnar árásarríkin. Þar er fremst í flokki Kenía, sem hefur gert innrás í landið með stuðningi Bandaríkjanna. Flugher Kenía hefur ráðizt á valin íbúðahverfi í Mogadishu, þar sem talið er að búi fólk hliðhollt íslamistum. Öryggisráðgjafinn telur, að með fjárstuðningi sé Evrópusambandið hugsanlega samábyrgt stríðsglæpum. Hvað þá með fjárhagslega aðstoð Íslands við flutninga í tengslum við hernám Íraks?

Voldugu vinirnir

Punktar

Kína og Bandaríkin hafa undanfarið staðið saman. Þau reyna að fá vægara orðalag um gróðurhúsaáhrif í skýrslu nokkur hundruð vísindamanna á vegum Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan “Loftslagsbreytingar 2007” kom á laugardaginn. Niðurstaða hennar er, að gróðurhúsaáhrifin stafi af mannavöldum. Það vilja stjórnir Bandaríkjanna og Kína ekki viðurkenna. Þeim tókst ekki að falsa niðurstöðuna. En í sumum liðum náðu þau orðlagi, sem fullyrðir ekki beinlínis, að grípa þurfi strax í taumana. Bandaríska þingið undirbýr nú kúvendingu á þessu sviði gegn vilja forsetans.

Geir gef mér álver

Punktar

Húsvíkingar biðja ríkið um álver, Bolvíkingar biðja ríkið um ígildi álvers. Um allt land biðja menn ríkið að skaffa. Alls staðar er uppgjafartónn í fólki, sem situr og bíður eftir hjálp úr ráðuneytinu. Það hefur gefizt upp á að reyna að bjarga sér sjálft. Sjaldan hefur ríkisforsjá verið í meiri metum en einmitt núna. Þótt mjög sé talað um einkavæðingu, eru menn víða um land sannfærðir um, að ekkert geti bjargað fjárhag þeirra annað en aðkoma ríkisvaldsins. Álver væri bezt, ríkiskontór næstbeztur. Og ekki gleyma að gefa háskóla í hvern hrepp. Gerviskóli er betra en ekkert.

Sölumaður snákaolíu

Punktar

Bretar eru loksins farnir að átta sig á Tony Blair forsætisráðherra eftir tíu ára spuna. Samkvæmt skoðanakönnun Guardian lítur meirihluti fólks neikvæðum augum á alla þætti stjórnar hans. Einkum telja menn hann fullan af spuna og óáreiðanlegan. Þetta var mér ljóst fyrir tíu árum, þegar ég sá hann fyrst í sjónvarpi. Hann hefur frá upphafi komið fyrir sem sölumaður snákaolíu á autrænum markaði. Hann minnir mig á Binga í borginni. Mér er hulið, hvernig Bretum hefur í áratug tekizt að fresta réttum skilningi sínum á mestu spurnakerlingu allra tíma.

Reyna að spara orku

Punktar

Ljósaperur mannkyns nota samtals þrisvar sinnum meiri orku en flugvélar mannkyns nota samtals. Með því að nota sparperur má minnka rafmagnsnotkun um tíu prósent. Sem svarar þriðjungi af allri orkunni, sem fer í flugvélar. Þetta eru meðal tíu ráðlegginga brezka blaðsins Guardian til lesenda sinna. Almennt eru fjölmiðlar í Evrópu orðnir meðvitaðir um verndun umhverfisins. Þeir reyna að hjálpa lesendum sínum til að taka þátt í að spara orku. Hér verður minna vart þessarar forustu fjölmiðla í umhverfismálum. Enda er hér áhugi almennings á umhverfismálum tiltölulega nýr af nálinni.

Myndsímar í stað flugs

Punktar

Menn eru að átta sig á, að flug er einn versti mengunarvaldur heims. Samt er flug ekki skattlagt sem slíkt. Ekki einu sinni er vaskur innheimtur af flugfarseðlum. Það er náttúrlega ekki nógu gott. Eðlilegt er að skattleggja flugfarþega fyrir menguninni, sem þeir valda, eins og bíleigendur eru skattlagðir í benzíni. Svo ætti ríkisvaldið að ganga á undan með góðu fordæmi og taka upp símafundi í stað hefðbundinna funda. Ódýrt er að búa út herbergi í ráðuneytum fyrir myndasímafundi, sem mundu spara skattgreiðendum stórfé og draga úr mengandi flugi.

Stríðið hefnir sín

Punktar

Íraksstríðið mun valda bandarískum þingmönnum miklum erfiðleikum í næstu kosningum, sem verða haustið 2008. Ekki bara repúblikönum, heldur einnig þeim demókrötum, sem meira eða minna hafa stutt stríðið. Sérstaklega er ástæða til að ætla, að stríðið verði Hillary Clinton þungt í skauti sem forsetaframbjóðanda. Hún hefur undanfarið verið í hægri armi flokksins, hefur stutt stríðið, svo og krabbameinið Ísrael. Sumir repúblikanar sjá fram á missi þingsætis. Tilraunir þeirra til að hindra, að Írak komist á dagskrá öldungadeildarinnar, eru dæmdar til að koma þeim í koll.

Afturhald í Mið-Evrópu

Punktar

Mið-Evrópa hefur ekki gerzt vestrænni við aðild að Evrópusambandinu. Víða eru við völd ríkisstjórnir, sem hafa efasemdir um Evrópu og vilja færa stjórnarfar í átt til gömlu sovétblokkarinnar. Fremstir fara þar í flokki Kaczynski-tvíburarnir, sem stjórna Póllandi. Þeir hrósa einræðisherrunum Salazar og Franco, sem einu sinni réðu Portúgal og Spáni. Og vilja gera Jesú Krist að kóngi í Póllandi. Svipaðir rugludallar hafa komizt til áhrifa í Slóvakíu, Ungverjalandi, Litháen og Tékklandi. Þótt Evrópusambandið hafi siðað marga pólitíkusa, hefur það ekki enn gerzt í Mið-Evrópa.

Ómar tekur ekkert

Punktar

Ómar Ragnarsson tekur samkvæmt síðustu könnunum ekkert fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Ég hafði reiknað með 10% af fylgi flokksins eða 3% af heildarfjölda kjósenda. En sjálfstæðismenn geta verið sæmilega grænir án þess að það ráði úrslitum um atkvæði þeirra. Þeir treysta fyrst og fremst forustunni. Þeir reikna með, að hún dempi stóriðjustefnuna, annað hvort í samstarfi við Samfylkinguna eða Vinstri græna. Þeir yfirgefa ekki flokk, sem þeir reikna með að skaffi vel stæðum borgurum. Þeir munu því ekki kjósa hægri grænan flokk Ómars Ragnarssonar. Og enn síður gamlingjaflokkinn.

Jón Sig virkar ekki

Punktar

Jón Sigurðsson virkar ekki sem formaður Framsóknar. Hann er of líkur Halldóri Ásgrímssyni, of fjarri veruleikanum. Hann sagði fátt um kosninguna í Hafnarfirði, fyrr en henni var lokið. Ef álverið hefði unnið, hefði Jón fagnað. En álverið tapaði og Jón lýsti efa um réttmæti kosningarinnar. Þetta var rosalega hefðbundin pólitík hjá honum. Mér finnst hann alltaf tala óskiljanlega útlenzku. Hann tengir saman óskyldar forsendur og ályktanir. Það kann að henta í kjarna vinnumiðlunar Framsóknar. En ég tel rökin eiga lítið erindi til kjósenda.