Torfærutíminn

Punktar

Nú er spóltími óskráðra og ótryggðra torfæruhjóla. Frost er að fara úr jörðu, náttúran viðkvæm og því kjörið færi geðsjúklinga. Þeir spæna upp göngu- og reiðstíga ofan borgarinnar þessa dagana. Ekki er hægt að ávarpa þá, því að þeir garga bara og góla, líka fullorðnir. Þeir kenna ríkinu um skemmdirnar, því að það hefur ekki útvegað þeim svæði til eyðileggingar. Merkilegt er, hversu létt menn selja sér, að ríkið skuli fjármagna dellur. Ríkisstjórnin hefur brugðist, skráir ekki, skattleggur ekki, lætur ekki tryggja og setur ekki lög um torfæru í náttúrunni. Hún er ekki græn.

Skrifa án stíls

Fjölmiðlun

Margir Íslendingar eru haldnir þeirri meinloku, að þeir geti skrifað. Þeir fylla prentsíður og vefsíður af texta. Og gerast jafnvel blaðamenn. Þeir kunna stafsetningu og fara rétt með orðtök. Samfélagið telur það nægja. En þeir kunna engan stíl, eru frosnir í afleitum ritgerðastíl úr menntaskóla og háskóla. Stílistar eru nánast engir í umræðunni. Það er fólk, sem kann að setja punkt og stóran staf. Fólk sem spúlar textann niður um helming. Fólk sem liðast um á sértækum sagnorðum, en höktir ekki á nafnorðum. Fólk sem notar germynd, ekki þolmynd. Og notar aldrei orðtök; þau eru klisjur.

Óvinsæl stóriðja

Punktar

Mikill meirihluti þjóðarinnar hafnar frekari stóriðju. Og mikill meirihluti vill fá að kjósa um stóriðju, eins og Hafnfirðingar fengu. Þetta eru niðurstöður tveggja skoðanakannana. Nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum eru andvígir stóriðju og vilja kosningar um hana. Aðeins þriðjungur er hlynntur stóriðju og hafnar kosningum um hana. Fyrst og fremst eru það kjósendur vinnumiðlunarinnar Framsóknar, sem vilja stóriðju og hafna kosningum um hana. Sjálfstæðismenn eru beggja blands. Kjósendur annarra flokka hafa enga trú á stóriðju og hafa fulla trú á að fá að kjósa.

Gerviheimurinn

Punktar

Katie Couric er frægt akkeri í sjónvarpsfréttum hjá CBS í Bandaríkjunum. Á vef sjónvarpskeðjunnar segir hún fréttir og frægðarsögur af sér úr æsku. Allt er þetta samið af Melissu McNamara framleiðanda. Raunar ekki samið; Melissa stal textanum upp úr greinum eftir Jeffrey Zaslow hjá Wall Street Journal. Nú hefur þetta komið á daginn og Melissa hefur verið rekin. Katie, sem er miðja hvirfilbylsins, hefur hins vegar ekki verið rekin. Hún er áfram andlit CBS, gervimanneskja á gerviöld sjónvarpsins. Hún er “brand”, ekki persóna. Timothy Noah skrifar um þetta á Slate.

Iacocca hefur stíl

Punktar

Ef mönnum finnst ég vera harðorður um Bush forseta, ættu þeir að lesa Lee Iacocca. Fyrrverandi forstjóri Chrysler dregur ekki styttri stráin. Hann kallar Bush “clueless bozo”, sem rambi um með aðstoð “corporate gangsters”. Tillaga Iacocca til þjóðarinnar hljóðar svona: “Throw the bums out”. Í greininni rekur Iacocca, hvaða kostum forstjóri þurfi að vera búinn og telur Bush alls ekki hafa þá neina. Ekki forvitni, frumleika, viðmót, persónu, hugrekki, sannfæringu, aðdráttarafl. Bezt er þó grein Iacocca fyrir textastílinn, sem er hátt yfir nokkru því, sem sést á íslenzku.

Hörmung Antí-Krists

Punktar

Ég á því miður ekki orð til að lýsa því, sem kallast “disaster” á ensku. Haifa Zangana skrifar í Guardian grein um ástandið í Írak. Þar fara morðsveitir um á vegum bandaríska hersins og leppstjórnar hans. Stríðið gegn íbúum landsins beinist nú einnig að konum og börnum, því að feðurnir eru dauðir. Í örvæntingu reynir fólk að verjast með sjálfsmorðsárásum. Ef einhver maður í heiminum er Antí-Kristur, þá er það George W. Bush forseti. Og vei þeim eftir dauðann, sem létu hafa sig út í stuðning við ógeðið. Og hafa nú ekki manndóm til að lýsa formlega yfir fyrirlitningu á því.

Illa innrætt fífl

Punktar

Svo getur farið, að repúblikanar nái bara að halda suðrinu og miðvestrinu í næstu kosningum í Bandaríkjunum. Svo mikil er orðin óbeit þjóðarinnar á stríðsæði repúblikana og foráttuheimsku nýja íhaldsins, sem stýrði æðinu. Mikill hluti hægri arms flokksins er nú í felum, en annar hluti hans undirbýr innrás í Íran. Hún er sögð verða “pís of keik” eins og stríðið gegn Írak átti að vera á sínum tíma. Bandaríkjamenn eru nokkuð seint farnir að sjá, að leiðtoginn er illa innrætt fífl, sem gæti ekki einu sinni stjórnað olíuborpalli í Texas. Enda gat Bush það ekki.

Dauð og röng atkvæði

Punktar

Stofnendur nýrra flokka þurfa ekki að velta vöngum um, hvort atkvæði þeim greidd falli dauð eða komi frá röngum flokkum. Ómar Ragnarsson stofnaði Íslandshreyfinguna til að koma sjónarmiðum á framfæri. Rangt er að ætlast til, að hann fylgi skoðanakönnunum hvers tíma. Hann gefist upp, ef þær sýna 4,9% fylgi og engan þingmann, en fagni, ef þær sýna 5,1% og þrjá þingmenn. Hann gefist upp, ef of lítið af fylgi hans kemur frá hægri flokkum og of mikið frá vinstri flokkum. Skoðanakannanir eru ekki nein helgirit. Það ærði óstöðugan að reisa á þeim pólitískar forsendur.

Óbeit á útlendingi

Punktar

Pétur Gunnarsson, bloggari á hux.blog.is, hefur horn í síðu Paul Nikolov frambjóðanda. Pétri finnst nýbúinn hafa tæp tök á íslenzku og nefndi eitt dæmi til vitnis. Mér fannst dæmið betra en stíll margra innfæddra. Pétur óttast óþægindi og kostnað á þingi, ef Paul skilur ekki aðra eða aðrir skilja ekki hann. Ekki kemur á óvart, að Pétur er helzti jaxl Framsóknar í bloggheimum. Sú hin sama vinnumiðlun hefur lengi átt utanríkisráðherra, sem sjá um, að flóttamenn fái alls ekki landvist hér á landi. Hatur á útlendingum er rótgróið í Framsókn; ekki þarf að leita hjá Frjálslyndum.

Vinnumiðlun á Lönguskerjum

Punktar

Vinnumiðlun Framsóknar veldur sífelldum vandræðum í borgarstjórn. Fyrst settist hún báðum megin borðsins í Mýrargötumálinu. Hún vildi í senn gæta hagsmuna borgar og verktaka, en fékk ekki. Nú vill hún ekki sætta sig við niðurstöðu, sem hafnar flugvelli í Lönguskerjum, fávísri hugmynd úr kosningabaráttu vinnumiðlunar. Vegna aukins vatnsmagns heimshafa skulum við forðast smíðar úti í skerjum; flugvöll eða íbúðahverfi. Ef Hólmsheiði er betra flugvallarstæði en Miðnesheiði eða Vatnsmýri, má ræða það. En gerið það, skrúfið fyrir rugl Framsóknar um Löngusker.

Enginn er grænn

Punktar

Þótt einn flokkur kalli sig grænan og annar kalli sig grænan í gegn, er enginn flokkur grænn. Enginn amast við lausagöngu búfjár, sem hefur breytt grænum afréttum í svarta mela. Ekki er nógu grænt að andmæla orkuverum og raflínum einum, en þegja yfir sauðfénu. Það étur hvern þann kvist, sem fyrirfinnst á afréttum landsins. Grænasta aðgerðin bannar lausagöngu búfjár og leyfir sauðfé bara í afgirtum högum í byggð. Sú sízt græna er að taka gamla, svarta pólitíkusa og reyna að mála þá græna: Jón Baldvin og Margréti Sverris og Birgi Guðmunds og Sigurlín Margréti. Það heitir að svíkja lit.

Sannleikur frá Helsinki

Punktar

Kannski trúa kjósendur, þegar aðalbankastjóri norræna fjárfestingarbankans segir sannleikann. Jón Sigurðsson er kominn frá Helsinki, segir velgengni ríkissjóðs stafa af umframtekjum af tímabundnum framkvæmdum og af sölu ríkiseigna. Hins vegar hafi ríkið enga stjórn á útgjöldum. Nú stefni í hækkandi vexti, gengisfall og verðbólgu. Jón segir hringlanda einkenna efnahagsstefnuna. Fögnuður kjósenda af meintri hagsæld virðist þannig stafa af sjónhverfingum og ábyrgðarleysi. Það var fyrir nokkrum áratugum sagt einkenna vinstri flokka, en einkennir nú hægri stjórn. Eins og í USA.

Hafna frumvinnslu

Punktar

Íslenzkir unglingar vilja ekki vinna í álverum. Sú er niðurstaða könnunar á vegum Samtaka atvinnulífsins. Þeir vilja ekki heldur vinna í sjávarútvegi eða landbúnaði. Fimmtán ára unglingar vilja ekki vinna í frumvinnslu, hvaða nafni sem hún nefnist. Flestir vilja verða sérfræðingar og hafa hátt kaup. Þetta er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt. Hver vill rýja rollur, skaka í álpottum eða beita öngla? Fólk vill auðvitað komast áfram í lífinu. Það gerir slíkt ekki í álverum. Merkilegast er, að Samtök atvinnulífsins hafa áhyggjur af þessu. Miklu fremur ber að fagna framsýni unglinganna.

Rasisminn fundinn

Punktar

Við leitum með logandi ljósi að rasismanum í heilsíðu auglýsingu Frjálslynda flokksins. Þar er hvatt til varúðar í innflutningi fólks og hvatt til, að fólki sé kennd íslenzka. Við förum langt yfir skammt til að leita að óbeit á útlendingum. Hana finnum við auðveldar hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hafa nánast skrúfað fyrir innflutning flóttafólks. Nánast öllum, ef ekki öllum, sem leita hælis, er vísað frá. Þetta er ákvörðun utanríkisráðherra Framsóknar. Sá flokkur hefur þó mest allra gagnrýnt Frjálslynda fyrir rasisma.

Loforð eru marklaus

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að efna kosningaloforð. Kjósendur flokksins hafa ekki áhuga á loforðum. Þeir vilja, að flokkurinn skaffi góðan efnahag. Þeir vilja fyrst og fremst formann, sem skaffar. Þeir töldu Davíð vera slíkan formann og væntanlega telja þeir Geir einnig vera nógu góðan. Þeir heimta ekki, að hann framkvæmi suma hluti og aðra ekki. Þeir vilja, að hann hugsi sjálfur. Þeir kjósa sér formann til að hafa hugmyndirnar og ráða ferðinni. Listi svikinna kosningaloforða skiptir kjósendur Sjálfstæðisflokksins engu máli.