Múrinn í Bagdað

Punktar

Bandaríkin hafa fundið lausn á borgarastríði Íraks, fimm kílómetra langan múr gegnum Bagdað til að skilja milli sjíta og súnníta. Múrinn á að verða tilbúinn eftir mánuð og varðveita súnníta í eins konar gettó. Hann minnir á múrinn, sem Ísrael reisti í Palestínu og múrinn, sem Bretland reisti í Ulster. Samanlagt eiga múrinn og Tígris-fljót að vera Kínamúr milli súnníta vestan ár og sjíta austan ár. Hernámið hefur enga lausn á vandræðum Íraks og beitir aðskilnaðarstefnu í staðinn. Á endanum verður landinu skipt í þrjú ríki kúrda, sjíta og súnníta.

Reglur Jónasar um stíl:

Punktar

1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.

2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.

3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.

4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.

5. Keyrðu á sértækum sagnorðum og notaðu sértækt frumlag.

6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.

7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.

8. Hafðu innganginn skýran og sértækan.

Frakkland er himnaríki

Punktar

Evrópumenn lifa lengur en Bandaríkjamenn, sumar þjóðir þremur til fjórum árum lengur. Enn meiri verður munurinn, ef aðeins eru talin árin, sem fólk er við góða heilsu. Allar heilsutölur eru raunar hagstæðari í Evrópu en í Bandaríkjunum, svo sem lágur ungbarnadauði. Heilsugæzla er mun betri í Evrópu, enda yfirleitt ríkisrekin. Frakkar hafa einna bezta kerfið. Þar vilja líka flestir eiga sér dvalarstað í ellinni. Frönsk sveit gengur næst himnaríki að mati kaupenda fasteigna. Matvæli eru bezt í Frakklandi. Engilsaxar reyna mjög að gera grín að Frökkum. En væri nær að öfunda þá.

Sparka í leppa sína

Punktar

Í erlendum fjölmiðlum hefur undanfarið verið vakin athygli á slæmri framkomu Bandaríkjanna við stuðningsmenn í Írak. Ég sagði 12.4. frá grein George Packer í The New Yorker um nokkra Íraka, sem unnu fyrir Bandaríkin og treystu þeim. Þess vegna lentu þeir í ógæfu, hundeltir af fólki og fengu enga vernd. Í gær skrifaði svo Kirk W. Johnson í International Herald Tribune um fleiri Íraka, sem lentu í vandræðum vegna lítils áhuga kanans á velferð þeirra. Af þessum greinum má ráða, að Bandaríkjamenn koma kerfisbundið illa fram við leppa sína og fyrirlíta þá.

Framhjá Nató

Punktar

Bandaríkin eru að semja við Pólland og Tékkland um að setja þar upp varnir gegn eldflaugum. Þetta er hluti af hnattrænni öryggisregnhlíf, sem byrjað er að setja upp í Kaliforníu og Alaska. Bandaríkin gera þetta framhjá Atlantshafsbandalaginu í beinum samningum við hægri sinnaðar ríkisstjórnir. Þetta fer í taugar ráðamanna í Vestur-Evrópu. Þeir telja, að Nató sé vettvangurinn fyrir svona verkefni. Sumir segja bandalagið vera orðið úrelt eftir lok kalda stíðsins. Beinu samningarnir benda til, að Bandaríkin telji svo vera. Í gær féllst Nató svo á að láta þetta yfir sig ganga.

Economist gerir grín

Punktar

Í gærkvöldi vitnaði Economist í hershöfðingjann Tommy Franks, sem sagði, að Douglas Feith væri mesta fífl á jörðinni. Feith er einn af nýja íhaldinu, sem nú eru spottaðir í Bandaríkjunum. Paul Wolfowitz þóttist hreinsa spillingu í Alþjóðabankanum og datt sjálfur á bólakaf í hana. Donald Rumsfeld var rekinn, Lewis Scooter Libby er fyrir rétti. Richard Perle og David Frum eru flúnir inn í American Enterprise Institute. Economist segir, að þessir menn, sem hófu stríð við Írak, séu búnir að vera. Þeir hafi orðið aðhlátursefni, er þeir komust til valda; urðu “disaster”, segir Economist.

Lekinn segir satt

Punktar

Lekin skjöl úr brezka stjórnarráðinu sýna markvissa lygi Tony Blair til að koma á stríði gegn Írak. Richard Norton-Taylor, sérfræðingur öryggismála hjá Guardian, skrifaði í gær grein í blaðið um skjölin, sem láku. Þau sýna, að brezka leyniþjónustan vissi, að engin stóreyðingarvopn voru í Írak við lok valdaferils Saddam Hussein. Hún varaði stjórnvöld við, að fréttir um slíkt væru uppspuni bandarískra hagsmunaaðila. Skjölin sýna, að þáverandi utanríkisráðherra Breta, Jack Straw, reyndi að hafa vit fyrir Blair, en tókst ekki. Norton-Taylor telur framferði Blair hafa verið glæpsamlegt.

Þungamiðjan færist

Punktar

Þungamiðja búsetu á höfuðborgarsvæðinu færist smám saman austur, en ekki suður. Síðustu árin hefur miðjan færzt eftir Fossvogshverfi, um 44 metra á síðasta ári. Ekkert bendir til, að miðjan flytjist í Kópavog, sem senn er fullbyggður. Bráðum fara að segja til sín framkvæmdir í Norðlingaholti og Úlfarsfelli. Síðan kemur til skjalanna byggð á Kjalarnesi. Þess vegna er engin hætta á, að Reykvíkingar missi þungamiðjuna úr höndum sér næstu áratugina. Mestar líkur eru á, að miðjan mjakist norður fyrir Bústaðaveg yfir í Gerðin og endi á Elliðaárbrúnni.

Allir á mölina

Punktar

Íslendingar eiga að búa á höfuðborgarsvæðinu. Það er ódýrast og hagkvæmast. Við þurfum ekki lengur verstöðvar við ströndina. Fiskurinn er verkaður um borð eða settur á fiskmarkaði við Faxaflóa. Það er dauðadómur yfir stofnun að senda hana út á land, samanber Byggðastofnun á Króknum og Landmælingar á Akranesi. Ekkert vit er í að hafa háskóla úti um allar trissur. Þar myndast ekki akademískt andrúmsloft. Enda helzt fólk ekki við í plássum án þess að væla um skort á álveri, olíuhreinsistöð, háskóla og svo framvegis, allt á kostnað ríkisins. Ódýrara er að flytja fólkið suður. Hér er nóg pláss fyrir alla.

Lélegur lestur

Punktar

Börn lesa ekki lengur. Þau læra lestur, en þjálfa hann ekki á tugum og hundruðum bóka. Tölvuleikir hafa komið í stað bóka. Þeir geta þjálfað hugann, en ekki á sama hátt og bækur gerðu áður. Við erum að rækta kynslóðir, sem ekki notfæra sér bækur. Það mun fljótt hafa megináhrif í samfélaginu. Blöð og tímarit verða minna lesin og auðvitað minna keypt en áður. Texti á vefnum verður styttri og þjappaðri en hann hefur hingað til verið á pappír. Textagerðarmenn þurfa að temja sér stíl, sem tekur mið af óbeit lesenda á að þola froðu. Tími hennar er liðinn.

Vottun eða gegnsæi

Punktar

Ísland hefur mestan launamun kynja í Vestur-Evrópu. Þess vegna harðna kröfur um gegnsæi launa. Ráðamenn fyrirtækja verjast, enda finnst þeim óþægilegt að geta ekki pukrast með laun. Þaðan kom hugmynd um að setja upp vottun í stað gegnsæis. Eins og ráðgert var um tíma, að ríkisendurskoðandi vottaði fjárreiður stjórnmálaflokka. Vottum er ágæt, en hún jafngildir ekki lýðræði. Vottun á heima í flóknum, tæknilegum atriðum, svo sem gæðavottun matvæla. Á pólitískum sviðum getur vottun hins vegar engan vegin komið í stað gegnsæis, sem er helzta forsenda lýðræðis.

Árni á Suðurlandið

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn sækir fram á Suðurlandi, einkum í Eyjum, undir öruggri forustu hins lífsreynda Árna Johnsen. Fylgi flokksins er 40% í kjördæminu og 48% í Eyjum. Þetta meginfylgi er ekki Árna Mathiesen að þakka, heldur sjálfu náttúruaflinu, sem frægast varð af útistöðum við lög og rétt. Flokkurinn verður áfram í stjórn eftir kosningar. Þegar hann velur sér ráðherraembætti í næstu ríkisstjórn, getur hann tæpast neitað mesta sigurvegara sínum um ráðherraembætti. Því verður stutt og brött sigurbrautin frá Kvíabryggju í stjórnarráðið að þessu sinni.

Vinnumiðlun auglýsir stíft

Punktar

Mánuður er til kosninga og tími kominn til að loka eyrunum. Of mikill hávaði er framundan. Þar hefur fremst farið í flokki vinnumiðlunin Framsókn, sem lengi hefur auglýst stíft í sjónvarpi. Hún mun sennilega eyða meiru en aðrir í kosningabaráttu, enda var hún tregust í samstarf um að tempra útgjöld. Vinnumiðlunin verður komin upp í tugi milljóna króna áður en aðrir fara almennilega af stað. Aftur mun hún sýna sjónhverfingar, sem kjósendur fatta ekki. Þeir hafa alltaf látið plata sig. Fyrir átta árum héldu þeir, að Framsókn mundi afnema fíkniefni í landinu.

Bezta bókabúðin

Punktar

Stundum fer ég í bókabúð, ráfa þar um, tek upp bækur öðru hverju og fletti þeim. Fer út með þrjár bækur. Það er alltaf sama búðin, Amazon á vefnum. Eini gallinn við hana er, að ég fæ bækurnar í flugpósti eftir mánuð. Póstkerfið er svo lélegt í Bandaríkjunum, að ég þarf hraðpóst til að fá sömu þjónustu og í flugpósti frá Evrópu. En búðin bætir þetta upp með aðstoð við að velja bækur. Þarna má lesa ritdóma fagmanna og leikmanna, fletta síðum, lesa efnisyfirlit. Á grundvelli fyrri kaupa kemur Amazon með tillögur um frekari bókakaup. Það leiðir til síðari ferða í bókabúðina.

Bráðþroska terroristar

Punktar

Desree Watson, SEX ára, tekin af löggu í leikskóla í Florida, handjárnuð, flutt á lögreglustöð og kærð fyrir ofbeldi á almennafæri. Chelsea Fraser, ÞRETTÁN ára, var handjárnuð, flutt á lögreglustöð í New York og höfð hlekkjuð við staur í þrjár stundir fyrir að skrifa “OK” á borð. Gerard Mungo, SJÖ ára, var tekinn á gangstétt í New York, fluttur á lögreglustöð og hlekkjaður við bekk í tvo tíma fyrir að sitja á vélhjóli, sem var ekki í gangi. Gene Stephens glæpasérfræðingur segir, að í eðli barna sé uppreisn, sem þurfi að kæfa. Fasistar eru svona hræddir við terrorista.