Sjávarkjallarinn sekkur

Veitingar

Sjávarkjallarinn er ekki lengur einn af toppstöðum landsins. Hann lifir sig inn í ferðabransann, afgreiðir tólf rétta syrpu á flest borð. Andargiftin var horfin úr hlutlausri matreiðslu. Ekkert laxabragð var að laxi og ekkert humarbragð að humri. Heitir réttir komu kaldir á borð. Verst var þó, að réttir voru lagaðir með fyrirvara og síðan sóttir í kæliskáp. Allt var á færibandi, fyrirlestrar þjóna á miklum hraða í belg og biðu, áhugalaust og vélrænt. Sjávarkjallarinn lifir á frægðinni. Í gærkvöldi var ég þar, lítið hrifinn. Bið verður á, að ég fleygi aftur tíuþúsund krónum í sjóinn.

Raunir prófessors

Punktar

Frændi minn Þórður Harðarson varð stúdent 1960 og lærði síðan til læknis í Háskóla Íslands. Hann er núna yfirlæknir og prófessor. Er að þroskast með árunum, lærir spönsku sér til mikillar ánægju. Um daginn vildi hann setjast á skólabekk að nýju og hefja nám í spönsku við sama skóla. En þá kom babb í bátinn. “Getur þú sannað, að þú sért stúdent”, var hann spurður. “Ég er nú prófessor við þennan skóla”, svaraði hann. Það dugði ekki, honum var bent á að afla sér vottorðs um stúdentspróf. Háskóli Íslands þarf ekki að halda góðu sambandi við gamla nemendur. Sennilega er hann bara ríkisrekinn.

Hennar tími kominn

Punktar

“Minn tími mun koma,” sagði Jóhanna Sigurðardóttir fyrir þrettán árum. Nú er hún orðin fyrsti velferðarráðherra Íslands. Í ríkisstjórninni gætir hún hagsmuna lítilmagnans. Ég hef trú á, að henni farist það vel úr hendi. Hún hefur reynslu í starfi, hefur þrisvar verið ráðherra félagsmála. Hún býr í þessari ríkisstjórn við meiri tiltrú en í fyrri skiptin. Tilvist Jóhönnu í ríkisstjórninni tryggir, að velferð verði í meiri metum næstu tvö árin en verið hefur undanfarin tólf ár. Það er helzti kosturinn við að losna við Framsókn og fá í staðinn Samfylkinguna, það er að segja Jóhönnu í tvö ár.

Fjórar ágætar konur

Punktar

Margt er á huldu um gerðir nýrrar ríkisstjórnar. Hún er ekki umhverfisvæn, en ráðherra umhverfismála er umhverfisvæn. Stjórnin er hvorki gefin fyrir Evrópusambandið né hefur óbeit á lista vígfúsra þjóða. En utanríkisráðherra er þó hóflega Evrópu- og friðarsinnuð. Sumt er skýrara. Ríkisstjórnin er velferðarsinnuð í samanburði við fyrri ríkisstjórn og ráðherra velferðar er skýrt velferðarsinnuð. Ég tel líka, að menntaráðherra geti áfram komið að gagni í hennar starfi. Hér hef ég nefnt fjóra ráðherra, allar konur. Veit hins vegar ekki, hvað karlarnir átta eru að gera í þessari ríkisstjórn.

Beztu stílistarnir

Punktar

Á vefnum er Egill Helgason bezti stílistinn, en á prenti eru ýmsir beztir. Dr. Gunni, Erpur Eyvindarson, Guðbergur Bergsson og Davíð Þór Jónsson eru þeir, sem ég má ekki missa af. Hallgrímur Helgason datt í Samfylkinguna og Jón Gnarr datt í lúterskuna. Það skaðar traustið. Sama gildir um flesta ofurbloggara, þeir eru spunakarlar flokkanna. Þótt beztu bloggararnir séu fyrri til að tjá sig, eru beztu kjallarahöfundar prentmiðla skemmtilegri stílistar. Ég er aðeins að tala um þá beztu. Á báðum stöðum eru endalausar fylkingar froðusnakka. Gamli þreytti Mogginn notar slíka eingöngu.

Söfnuður í svindlbraski

Punktar

Vísindakirkjan, Scientology, er sniðug aðferð til að kreista fé úr fólki. Menn verða að borga sig inn á átta æðri vitundastig til að fá aðgang að speki stofnandans, Lafayette Ronald Hubbard. Spekin felst í rugli um geimverur að hætti vísindaskáldsagna. Söfnuðurinn ræðst hart gegn hinum mörgu, sem hafa flúið hann, reynir að skrúfa fyrir þá. Vitleysingar á borð við John Travolta og Tom Cruise eru hátt skrifaðir í hópnum, sem telur Cruise vera Krist endurborinn. Af öllum söfnuðum heims er Vísindakirkjan tærasta dæmið um brask og svindl, misnotkun á fábjánum.

Loðin froða

Punktar

Stjórnarsáttmálinn er eins og aðrir slíkir, sem ég hef séð. Hann gæti verið samkomulag hvaða flokka sem er. Ekkert er sagt beinum orðum. Ekki einu sinni Norðlingaölduveitu er hafnað berum orðum, þótt flestir telji orðalag benda til þess. Flest á að skoða, leggja áherzlu á eða setja nefnd í málið. Gömul venja segir stjórnmálamönnum að hafa sáttmála loðna og sleipa. Þess vegna eyddi ég tímanum enn og aftur til einskis, þegar ég reyndi að lesa froðuna. Betra er að spá í ráðherrana sjálfa. Sumir eru líklegir til að sinna vel sínu starfi, aðrir eru líklegir að pota kjördæmum og hagsmunum.

Valdafíkn vonkeisara

Punktar

Amnesty segir margar ríkisstjórnir á Vesturlöndum ala á ótta við hryðjuverk og grafa undan mannréttindum. Það er gert til að efla framkvæmdavaldið og koma upp keisarastjórnum, samanber Pútín, Bush og Blair. Hættan er minni en spunakerlingar og fjölmiðlar segja. Með því að mála skrattann á vegginn grafa vonkeisarar undan lögfestu og mannréttindum og fara í staðinn að eigin geðþótta. Þeir sá fræjum ofbeldis og átaka. Flestir reyna þeir að efla her og öryggissveitir. Mest ber á breytingunni í Kína og Rússlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Einnig er reynt að hervæða Ísland sérsveitum.

Gegnsæ dagblöð

Punktar

Sum erlend dagblöð halda stöðu sinni, þrátt fyrir almenna, hægfara minnkun blaðalestrar. Guardian í Bretlandi, Washington Post í Bandaríkjunum og ýmis fleiri blöð hafa gert ráðstafanir til að efla trúnað lesenda. Þau hafa á síðustu fimm árum snúið við þverrandi trausti, sem einkennir flest önnur dagblöð Vesturlanda. Þau hafa tekið upp símenntun starfsfólks og komið sér upp umboðsmanni lesenda, sem rýnir blaðið í vikulegum greinum. Þau halda úti öflugu samtali í bloggi, þar sem fólk gagnrýnir fréttastefnu blaðsins. Kjarninn í þessu öllu er, að þau hafa gert sig gegnsærri en áður.

Himinsælustjórn

Punktar

Þvílíkir snillingar sömdu sáttmála nýju ríkisstjórnarinnar, að hamingja þingliðs hennar nær frá hægri jaðri þess yfir á vinstri jaðarinn. Allir eru jafn ánægðir með allt. Samfylkingin fær að stjórna stóru deilunni, slagnum milli stórvirkjana og náttúruverndar. Hún stendur væntanlega og fellur ein með niðurstöðunni eftir fjögur ár. Evrópa verður lögð í hendur allra flokka nefndar að hætti stjórnarskrárnefndar. Ekki veit ég, hvort Jón Kristjánsson verður fenginn að láni sem nefndarformaður með fína reynslu. En ég sé engar líkur á neinum ágreiningi í nýju ríkisstjórninni. Hún er himinsælustjórn.

Vefurinn er álitsgjafi

Punktar

Vefurinn hefur slegið í gegn sem álitsgjafi, ekki sem sjálfstæður fréttamiðill. Fréttir vefsins eru einkum upp úr prentmiðlum, en skoðanir prentmiðla eru að hluta af vefnum. Flest blöð hafa tekið upp yfirlit úr bloggi, en lítið er um, að menn leiti á vefnum að skoðunum úr prentmiðlum. Á vefnum getum við brugðizt snöggt við fréttum. Ef mér dettur eitthvað í hug núna, er ég óðar búinn að koma því á blogg. Ef mér datt eitthvað í hug, þegar ég starfaði á prentmiðli, tók það hálfan sólarhring að koma því á prent. Prentmiðlar eru orðnir ósamkeppnishæfir í skoðunum. Og það sést.

Auðræði án lýðræðis

Punktar

Kapítalisminn nær árangri í löndum, þótt þar sé ekki lýðræði. Kína er hrikalegasta dæmið um það. Auðræði án lýðræðis er stutt af fjölmiðlum Rupert Murdoch. Hann hefur komið sér inn fyrir dyrnar í Kína með því að ritskoða fréttir, sem valdhafarnir í Kína telja koma sér illa. Stöðugt fjölgar voldugum auðhyggjumönnum, sem telja lýðræði annað hvort óþarft eða til vandræða. Fyrr eða síðar kemur að uppreisn auðhyggjunnar, sem breytir lýðræði í auðræði. Bandaríkin nálgast þröskuld uppreisnarinnar. Þar stýrir auðmagnið kosningaúrslitum nú þegar. Þetta er stærsta ógnun nýrrar aldar.

Nató tregt í taumi

Punktar

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins reynir stöðugt að juða ríkjum þess til að taka meiri þátt í stríðinu gegn Afganistan. Jaap de Hoop Scheffer hitti George W. Bush forseta í Texas í gær. Ítrekuðu þeir kröfurnar um meira stríð þar eystra. Bandaríski herinn er þar þekktur af að drepa fólk í misgripum. Afganar eru eðlilega orðnir þreyttir á því. Sem betur fer vill Evrópa ekki hlusta á þá félaga. Aðeins Bretland og Kanada taka virkan þátt í hernaðinum. Menn spyrja sig, hvaða tilgangi þjóni að púkka undir leppinn Hamid Karzai forseta og bróður hans, mesta heildsala fíkniefna í heiminum.

Nýja íhaldið hundelt

Punktar

Nýja íhaldið liggur í sárum í vegkanti George W. Bush í Bandaríkjunum. Paul Wolfowitz er núna fyrrverandi forstjóri Alþjóðabankans. Donald Rumsfeld er fyrrverandi stríðsráðherra, Douglas Feith er fyrrverandi deildarstjóri stríðsráðuneytisins, Richard Perle fyrrum formaður hermálanefndarinnar, John Bolton er fyrrverandi sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum og Lewis “Scooter” Libby er fyrrum aðstoðarmaður varaforsetans. Senn verður Alberto Gonzales fyrrverandi dómsmálaráðherra. Hann reyndi að fá undirskrift frá fárveikum innanríkisráðherra, Ashcroft. Það var stjórnarskrárbrot. Og Tony Blair er að hætta.

Bush ritskoðar, Pútín ekki

Punktar

Ríkisstjórnir 26 ríkja nota ýmsar aðferðir til að ritskoða vefinn með aðstoð tölvufyrirtækja, einkum Yahoo, Microsoft og Google. Oft er síað burt klám, en einkum er það pólitík, sem skelfir valdhafa. Harðast ganga fram Kína, Sádi-Arabía, Íran, Sýrland, Túnis, Úzbekistan, Óman og Pakistan. Öll þessi ríki sía á víðu sviði. Bandaríkjastjórn er líka hrædd við vefinn. Hún er farin að ritskoða aðgang hermanna í Írak að ýmsum sviðum vefsins, svo sem YouTube, MySpace, Pandora og Live365. Hún er minnug ljósmyndanna frá Abu Ghraib fangelsinu. Pútín í Rússlandi ritskoðar hins vegar ekki vefinn.