Frjáls sem fuglinn

Punktar

Ég er frjáls sem fuglinn. Enginn getur gert mér neitt. Ég er kominn á aldur og hef lagt nóg fyrir, eyddi engu. Get sagt það, sem mér sýnist. Hef ekkert símanúmer og ekkert skiptiborð. Engir æstir valdhafar ná í mig. Þarf ekki að svara fyrir verk annarra. Mér var borgað sem svarar milljón á mánuði fyrir að vera ritstjóri. Það voru skítalaun fyrir erfiða starfsævi. Nú fer ég í fimmtán daga hestaferð, þegar mér þóknast. Fer til útlanda, ef ég nenni. Blogga bara prívat og persónulega um ruglið í þjóðfélaginu. Og leyfi úrillum ekki einu sinni að setja inn athugasemdir. Flott starf.

Þríeini einokunarbankinn

Punktar

Einokunarbanki landsins er svo sjálfhverfur, að hann telur sig fara með löggjafar- og dómsvald. Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir halda, að þeir geti sektað fólk fyrir greiðslufall og haldið eftir sektum. Ríkisvaldið eitt hefur rétt til að sekta og taka til sín sektarfé. Svo firrtur er þríeini einokunarbankinn, að hann segir ekki einu sinni, hvað hann stelur miklu fé af fólki og ríkissjóði með því að setja fólk á “fitt”. Umboðsmaður neytenda hefur vaknað til lífsins og með stuðningi lagaprófessora vakið athygli á lögleysu bankanna. Segir fólk eiga endurkröfu á bankadólgana.

Þeir völdu dópsalana

Punktar

Neðanjarðarhagkerfið á Íslandi er 63 þingmönnum að kenna. Þeir eru að vísu sáttir við, að ríkið höndli hættulegustu fíkniefnin, áfengi og tóbak. En önnur fíkniefni láta þeir eftir neðanjarðarhagkerfinu. Það mundi hverfa, ef ríkið fengi að höndla fíkniefni almennt. Þá mundu dópsalar og handrukkarar hverfa og siðferði þeirra um leið. Þeir yrðu að selja bimmana sína og fólk mundi hía á þá. En þingmennirnir hafa ákveðið, að dópsalar og handrukkarar skuli vera helztu höfðingjar landsins. Þeir megi hafa um sig hirðir, sem taka reglur neðanjarðarhagkerfisins fram yfir lög og rétt samfélagsins.

Tilbúnir fiskréttir gamlir

Punktar

Matgæðingar, sem ég tek mark á, kaupa tilbúna fiskrétti í nýtízku fiskbúð til að setja á pönnu. Það þori ég ekki, fer í gamaldags fiskbúð. Ég hef óbilandi trú á, að gamall fiskur sé notaður í tilbúna rétti. Fyrst sé fiskurinn seldur eins og hann er eða afhausaður og slógdreginn, kannski flakaður. Það, sem ekki seljist yfir daginn, fari í tilbúna fiskrétti eða plokk. Þegar ég kaupi nýjan fisk, leynir sér ekki við eldamennskuna, hvort hann er raunverulega nýr eða ekki. Tilbúni fiskurinn leynir hins vegar á sér, ellibragðið af fiskinum er falið bak við krydd og legi og sósur.

Zero tolerance

Punktar

Ég ók um miðbæinn í mesta hitanum, þegar Austurvöllur var þéttsetinn fólki. Á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis stóðu tveir stjarfir og lömdu hvor annan. Voru sæmilega klæddir en augnaráð þeirra var af annarri plánetu. Sama dag las ég í blaði Stefán Eiríksson lögreglustjóra stæra sig af zero tolerance fyrir minni háttar brot og óskunda á almannafæri. Þeir stjörfu vissu ekkert um það, enda hvergi sjáanleg lögga. Ég sé aldrei löggu þarna, í athvarfi öl- og dópóðra. Dag nokkurn mun einhver stjarfur grípa vélbyssu úr pússi sínu og skjóta tugi fólks. Hvar verður zero tolerance þá?

Skúbb aldarinnar í boði

Punktar

Góður tölvuhakkari og vel skipulagður safnari ummæla nafnlausra álitsgjafa geta eignazt skúbb aldarinnar. Það væri jólabók, þar sem flett er ofan af hinum nafnlausu. Þar væri nafn þeirra, mynd, heimilisfang og sími. Neðan við hvert nafn kæmi svo allur sorinn, sem vellur um veraldarvefinn af völdum þess. Þetta yrði reiðarslag fyrir landssamband klikkusa og alla félagsmenn þess. Ég mundi kaupa svona bók, þótt hún kostaði 10.000 krónur. Því miður hef ég ekki nógu mikið vit á tölvum og ekki nógu mikla þolinmæði til að moka upp soranum. Þess vegna get ég ekki sett saman metsölubókina.

Á eldavél og þarf ekki grill

Punktar

Ég á forláta eldavél úr keramiki og eldunarofn, sem hefur fleiri stillingar en ég kann að nefna. Því þarf ég ekki að nota grill. Ég er laus við að hanga úti í garði við að forkelast, meðan matargestir sitja inni í hlýju gluggaveðri. Konan keypti einu sinni grill að mér forspurðum, en ég sá við henni. Örlög þess urðu þau, að einn sonurinn fékk það lánað og skilaði því ekki frekar en öðru. Ég sakna þess ekki. Þegar ég kem heim undir kvöld finn ég lykt af kryddaðri, brenndri olíu liggja yfir nálægum götum. Nágrannarnir hamast við að forkelast við að brenna og eyðileggja góðan mat.

Þegar sólin snýst um jörðina

Punktar

Einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum trúir, að sólin snúist um jörðina. Enn fleiri hafna þróunarkenningunni, sennilega hinir sömu, og svo margir í viðbót. Það eru þeir, sem hafa komið óorði á kristni í heiminum. Enn fleiri vita ekki, hvað er fruma, litningur og geislun. Fólkið, sem trúir róttækum bókstafsklerkum að hætti Gunnars í Krossinum. Kannanir í Bandaríkjunum sýna, að þetta er sama heimska, ómenntaða bókstafsfólkið. Í Evrópu er það jaðarfólk umhverfis stofnanir á borð við Omega. En það er því miður við stjórnborðið í valdamiðstöðvum Bandaríkjanna og við gereyðingarvopn þeirra.

Víða leynist Stóri bróðir

Punktar

Þótt veraldarvefurinn virðist opinn og frjáls, leynist þar Stóri bróðir. Jón Ólafsson fékk Hannes Hólmstein dæmdan í Bretlandi fyrir efni, sem sett var á vefinn á Íslandi. Vont er, ef menn geta valið sér afturhaldsland til málaferla. Einnig hefur höfundaréttur verið þaninn út. Svo sem til að gera Warner Bros. kleift að elta uppi blogg barna og unglinga. Dómstólar í Bandaríkjunum hafa bannað sumt: Krækjur í efni annarra framhjá heimasíðum. Forrit, sem brjóta læsingar á efni. Að setja upp krækjur í slík forrit. Löggan kemur fljótt í heimsókn og óvænt, ef bloggarar vara sig ekki.

Langur biskupavegur

Hestar

Biskupaleið hin forna var 450 km. Farið var um Hreppa og Gnúpverjaafrétt, sem nú er vel vörðuð, yfir Sóleyjarvað, um Sprengisand, niður Kiðagil. Síðan yfir vað á Skjálfanda, um Ódáðahraun, að Ferjufjalli, yfir Jökulsá á Fjöllum, um Möðrudalsöræfi í Vopnafjörð. Vegalengdir skiptust þannig: Hreppar 90 km, Gnúpverjaafrétt 90 km, Sprengisandur 90 km, Ódáðahraun 90 km, Möðrudalsöræfi 90 km. Nútímamenn ríða þingmannaleið á dag, 36 km. Við getum varla gert okkur í hugarlund, hvílíkir garpar forfeður okkar voru. Þeir létu sig ekki muna um 90 km á dag, Skálholt-Vopnafjörður á fimm dögum.

Sprengisandur og Ódáðahraun

Hestar

Sprengisandur og Ódáðahraun voru mesti eyðivegur landsins fyrr á öldum, 180 km. Þar fóru biskupar úr Skálholti til að vísitera sóknir austur á landi. Frá Sóleyjarvaði á Þjórsá var farið beint norðvestur sandinn að vaði á Skjálfanda norðan Kiðagils. Þar var áð. Þaðan lá Biskupavegur, sem enn er varðaður, yfir Ódáðahraun til Ferjufjalls við Jökulsá á Fjöllum. Fyrr á öldum var meiri góður og fleiri lindir á þesari 180 km leið. Enda hefði hún tæpast verið þjóðbraut við þær aðstæður, sem nú nríkja. Við landndám vantaði aðeins tuttugu kílómetra í gróðurþekjuna hæst á Sprengisandi.

Ferjufjall og Möðrudalsöræfi

Hestar

Elzta ferja á Jökulsá á Fjöllum var á reginöræfum sunnan við Ferjufjall, um tíu km sunnan við Möðrudal. Biskupaleið úr Skálholti lá þar um garða og áfram Langadal austur í Vopnafjörð. Langt var milli bæja á þeirri leið, yfir þrjátíu km til efstu heiðarbýla. Önnur leið lá suður á Hérað um Rangalón eða Sænautasel. Á þeim slóðum voru áður bæir í allt að 600 metra hæð. Þriðja leiðin lá norður í Víðidal og Grímsstaði á Fjöllum. Á þessu hálenda, afskekkta svæði voru margar heiðajarðir fyrr á öldum, frægust Veturhús af Halldóri Laxness. Frá Ferjufjalli í Vopnafjörð eru 90 km.

Riðið um þjóðgarðinn

Hestar

Góð aðstaða er fyrir hestaferðamenn í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur. Vel merkt og falleg reiðleið liggur frá Ási um Vesturdal, Svínadal, Hólmatungur upp á veginn að Dettifossi við Ytra-Þórunnarfjall. Þverleið liggur úr Vesturdal vestur í Þeistareyki. Hægt að fá næturbeit fyrir hesta í túni eyðibýlisins í Svínadal. Þaðan þurfa hestamenn að ganga þrjá kílómetra að vegi í Vesturdal við Hljóðakletta. Bílar mega ekki fara þessa fallegu reiðleið. Það hefur pirrað suma hestamenn, sem eru lítið fyrir labb. Við höfum hins vegar ekkert nema gott af þægilegu þjóðgarðsfólki að segja.

Sambandslaus á heiðum

Hestar

Að lenda utan þjónustusvæðis stafræns síma er eins og að detta út af sólkerfinu. Ég er á Melrakkasléttu í eyðibýli og hestarnir eru í girðingu á öðru eyðibýli. Ég þarf að ríða til Kópaskers eða Raufarhafnar til að ná sambandi við umheiminn. Bílasími næst hér, en hann er ekki stafrænn og kemur mér því ekki á veraldarvefinn. Af þessum sökum kann tilvera mín á vefnum að verða stopul næstu daga. Ferðinni er heitið frá Leirhöfn norður og austur meðfram rekaviðnum á ströndinnni. Síðan inn á Blikalónsheiði til bæjanna sunnan Raufarhafnar. Framundan eru rúmar tvær vikur í heiðasælu.

Kóngur í ríki sínu

Hestar

Íslendingum er heimilt að ferðast um eignarlönd. Það gildir frá Járnsíðu á miðöldum til náttúruverndarlaga frá 1999. Réttur ferðamanna er settur ofar rétti landeigenda. Hefðbundnar leiðir eru skráðar á herforingjaráðskortum frá upphafi 20. aldar. Sumir vilja ekki vita af þessu, girða af gamlar leiðir og grafa skurði gegnum þær. Þeir eru kóngar í ríki sínu. Á ferðum hestamanna þarf stundum að ræða við fólk, sem tekur engum rökum. Við reynum að beita lagi og semja. Það tókst ekki núna, konan hefði fengið slag og fælt hrossin. Hugsun hennar var bandarísk. Við völdum heldur krókinn.