Frábær minnisvarði

Veitingar

Múlakaffi er dýr og vinsæl sjálfsafgreiðsla við Lágmúla, súpa og réttur í hádeginu fyrir 1.300 krónur. Frábær minnisvarði um mötuneyti fortíðar. Hér fékk ég góða soðningu, ýsu með hvítum kartöflum, rúgbrauði og hömsum. Ýsan var auðvitað ofelduð, enda kemur allt upp úr hitakössum. Ljúfsætur jólagrautur með kanil og rúsínum hét sunnudagsgrautur. Svo fást fiskibollur og hvítkálsbögglar, kjötbollur og medisterpylsur, hakkabuff og plokkfiskur, saltfiskur og bjúgu. Allt er eins og ég man það úr mötuneyti Sogsvirkjunar fyrir nákvæmlega fimmtíu árum. Þetta er það, sem fólkið vildi. Og vill enn.

Innri ríkisverðbólga

Punktar

Innri verðbóla gerir ríkinu ókleift að halda uppi óbreyttri þjónustu á óbreyttu verði. Við sjáum þetta vel í heilsukostnaði. Hann bólgnar, þótt þjónustan minnki. Ef verða ætti við öllum kröfum um bætta þjónustu, mundi kostnaður verða óviðráðanlegur. Við megum ekki magna samneyzlu umfram getu. Bezt er að ákveða hlutfall hverrar tegundar þjónustu af landsframleiðslu. Þannig má setja ramma, sem segir 8% í heilsu og 8% í skóla. Síðan verða menn að forgangsraða verkefnum, svo að vitað sé, hvað sé valið og hverju hafnað. Nú veit enginn, hvað ríkið á að borga og hvað það á ekki að borga.

Gömul næturlífskönnun

Punktar

Á hausti er vitrænna að flagga niðurstöðum skoðanakönnunar sumarsins fremur en vetrarins þar á undan. Ferðamáladeild Reykjavíkur flaggar núna útkomu könnunar frá því í vetur. Það eru hægfara vinnubrögð. Þá var líka kaldara og fólk minna úti á götum á nóttunni en það hefur verið að undanförnu. Færri útlendingar urðu þá varir við skrílmennsku. Ég hefði líka viljað vita, hversu margir, sem reynt var við, tóku ekki þátt. Við fáum að vita, að fólk í Leifsstöð hafi í fyrravetur verið ánægt með næturlíf í Reykjavík. Það er lítið og lélegt innlegg í umræðuna um næturlíf borgarinnar í sumar.

Núllþol á pissinu

Punktar

Stefna núllþols á næturbullum miðborgarinnar hefur hingað til snúist um piss á veggi og brotnar bjórflöskur. Lítið hefur verið tekið af fíkniefnum og fáir ofbeldisseggir teknir úr umferð. Við skulum bíða með að klappa fyrir núllþoli, þangað til tekið verður á þeim málum, sem alvarlegust eru. Til þess er löggan enn of fámenn. Tilviljanakennt er, hverjir eru teknir og hverjir ekki. Þegar tvöhundruð pissudúkkur og tvöhundruð flöskubrjótar eru sektaðir á einni nóttu, erum við farin að tala sömu tungu. Og vinsælt væri, að nokkrir fíknisalar og fætingssnapar fengju að fylgja með hverju sinni.

Ókeypis kjallaragreinar

Fjölmiðlun

Á miðnætti í nótt veitti New York Times ókeypis aðgang á vefnum að föstum dálkahöfundum. Einnig að greinasafni blaðsins allt aftur til 1987. Áður var seld áskrift að þessu efni. Forstjóri blaðsins segir meira upp úr því að hafa að selja auglýsingar með ókeypis efni, sem margir nota. Þótt sumir hafi notað seldu áskriftina á vefnum, voru þeir ekki nógu margir til að kalla á auglýsingar. Stefnubreytingin sýnir áhrif leitarvélarinnar Google, þaðan koma flestir notendurnir. Sala auglýsinga er tekin fram yfir blandaða leið með sölu áskrifta, enda meiri upphæðir í húfi. Framtíðin er komin.

Rétti tíminn fyrir þorskinn

Punktar

Nú er rétti tíminn til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skriffinnar þess hafa áttað sig á, að fiskveiðistefna þess er stórslys. Sérstaklega hefur hrun þorskstofnsins vakið athygli. Fjölmiðlar í Evrópu, þar á meðal BBC, fjölyrða um, að annað sé uppi á teningunum á Íslandi. Þar séu menn raunsæir og hafi skorið róttækt niður kvótann á nýju fiskveiðiári. Nú getum við farið til Bruxelles og bent á, að Íslendingar kunni að passa fiskinn, en Evrópa geti það alls ekki. Við getum sagt, að bezt sé að fela okkur að sjá um fiskveiðistefnu bandalagsins. Evrópa getur ekkert sagt gegn því.

Kindur fái lögregluvernd

Punktar

Ódýrara er að láta kindur, hesta og menn nota þjóðvegi en að leggja sérvegi fyrir misjafna umferð. Fyrst voru vegirnir fyrir fólk og dýr, bílarnir eru síðari viðbót. Lifandi verur eru lögum samkvæmt á vegum. Ríkið ábyrgist ekki, að menn geti þindarlaust ekið þar á 90 km hraða. Palli var einn í heiminum kvartar yfir þessu í Fréttablaðinu undir dulnefninu Sigurður Helgason. Frekjudallar eins og Palli eru til vandræða á vegum, knúðir fram af linnulausu óþoli, flauta, fæla hesta, valda slysum. Kominn er tími til, að gangandi fólk og fólk með hesta og kindur fái lögregluvernd á vegum.

Hastarleg brottvísun

Punktar

Fyrir skömmu sögðu fjölmiðlar, að Útlendingastofnun hafi rekið Ruslan Bogaeira úr landi. Hafði hann þá verið hér í hálft þriðja ár, var í vinnu og hafði ekkert gert af sér. Svo mikið lá á, að frúin, Julia Zacharova, fékk ekki að kveðja hann. Hildur Dungal, forstjóri stofnunarinnar, virðist hata útlendinga eins og pestina. Það hefur komið í ljós í fyrri málum. Samt kallar atvinnulífið á þá í örvæntingu. Ekkert hefur heyrst síðan af málinu. Mig fýsir að vita, hvernig tekið var á móti Bogaeira í Moskvu. Fékk Júlía símtalið, sem hún átti von á? Fjölmiðlar hafa brugðist, gleymt framhaldinu.

Mannasiðaskortur Maríu

Punktar

Ég sá í gær, að Ljósmyndasafn Reykjavíkur heldur sýningu á ljósmyndum úr þremur dagblöðum. Úr Vísi 1960-1975, Dagblaðinu 1975-1981 og DV 1981-2000. Engum þáverandi aðstandenda þessara dagblaða var boðið að vera við opnunina eða tala þar. Ekki heldur höfundum myndanna utan einum. Mér virðist safnstjórann, Maríu Karen Sigurðardóttur, skorta mannasiði. Auðvitað er mikið af embættismönnum landsins illa hæft til að gegna starfi samkvæmt Pétursreglunni. Tek þetta því ekki nærri mér. En við hæfi er, að borgaryfirvöld muni senn biðja marga afsökunar fyrir hönd safnstjórans.

Persónuverndun glæpamanna

Fjölmiðlun

Gallinn við persónuvernd er, að hún er einkum í þágu glæpona. Reiðin út af birtingu skattskrár er upprunnin hjá fólki, sem vill ekki láta koma upp um sig. Gagnrýni á eftirlitsmyndavélar og fingraskanna á rætur sínar í óskum fólks að fela sig fyrir lögum og rétti. Heiðarlegt fólk þarf ekki að óttast skattskrá, eftirlitsmyndir, fingraför, ættir, kennitölu. Gegnsætt samfélag er í þágu venjulegs fólks. Aðrir ramba á jaðri samfélagsins, ofbeldismenn, fíkniefnasalar, skattsvikarar. Þeir vilja, að sem minnst sé um sig vitað. Róttækar hugmyndir um persónuvernd eru fyrst og fremst í þágu glæpamanna.

Múslimar frekjast enn

Punktar

Enn frekjast múslímar vegna teikninga af spámanni sínum, í þetta sinn í Svíþjóð. Sænska ríkisstjórnin segir hefðbundin og hrædd, að hún stjórni ekki fjölmiðlunum. Kominn er tími til harðari viðbragða. Ríkisstjórnir eiga að kalla í sendiherra múslima og segja þeim að harma viðbrögðin í löndum þeirra. Þær eiga að kalla í formenn félaga múslima og heimta, að þeir fordæmi morðhótanir úr heimi múslima. Full ástæða er til að gera grín að Múhameð spámanni. Ekki gengur lengur, að stjórnir fari með löndum andspænis frekjunni. Múslimar á Vesturlöndum þurfa að fara að skilja, hvar þeir búa.

Afnám Spaugstofunnar

Punktar

Spaugstofan hefur hingað til verið vinsælasta sjónvarpsefni landsins. Þeir, sem hafna spaugi hennar, hafa aðgang að öðru gríni, svo sem Strákunum og Stelpunum. Kominn er grínþáttur um að ljúga að fólki, Tekinn. Samt er alltaf verið að heimta afnám Spaugstofunnar, nú síðast Atli F. Bjarkason í Blaðinu. Ég skil ekki, af hverju helmingur þjóðarinnar má ekki hafa sitt grín í friði. Nú hefur Ríkissjónvarpið orðið við frekjunni. Komnir eru til skjalanna tízkuleikarar, sem ekki bæta þáttinn. Meira er um fimmaura, sem nóg er af í öðru sjónvarpsgríni. En nú get ég hætt að horfa á Spaugstofuna.

Orðum stolið á víxl

Punktar

Búvörumafían kvartar yfir stuldi í Bandaríkjunum á orðinu “skyr”. Það er sagt vera bandarísk vara, framleidd annan hátt en íslenzkt skyr. Það steli íslenzku vörumerki, sem Ísland eigi. Úr því að mafían hefur þessa skoðun, hví stelur hún erlendri vöru og stælir hana, stelur erlendum vörumerkjum? Hvers vegna tekur hún orðið “feta”, sem er grískur geitaostur, og slengir því á allt annan kúaost hér á landi? Hvers vegna stelur hún vörumerkjunum Camembert og Brie, sem eru vörumerki frá héruðum í Frakklandi? Búvörumafían er dæmi um botnlausa hræsni Íslendinga. Við megum, en aðrir mega alls ekki.

Hræsnin og þjóðernið

Fjölmiðlun

Hræsnisfull þjóðernishyggja Íslandinga sést glöggt í viðhorfi til frétta af einkalífi fólks. Fjölmiðlum er undir forustu Moggans heimilt að velta sér daglega upp úr einkamálum og vandræðum útlendinga. En þeim dettur ekki í hug að ræða einkamál og vandræði Íslendinga. Til þess eru höfð sérstök tímarit. Menn fussa og sveia, þegar þau eru nefnd. Hér eru menn hræsnarar, sem hafa þá skoðun, að til sé tvenns konar fólk. Annars vegar Íslendingar, sem eiga að njóta róttækrar persónuverndar, og hins vegar eru réttir og sléttir útlendingar. Um þá má slúðra þindarlaust. Einkum í Mogganum.

Naipaul skildi íslam

Punktar

Lauk við að lesa Among Believers, ferðasögu nóbelshöfundarins V.S. Naipaul um lönd múslima árið 1981. Ég hef lesið nokkrar bækur um þessi lönd, einkum Pakistan. Bók Naipaul kemst ein þeirra að kjarna málsins. Íslam er trú, sem spannar pólitík, lög og annað veraldlegt. Múslimar nota vestrænu á borð við tækni og kapítal, en telja samt Kóraninn veita svör við öllu. Selja olíu og kaupa allt að vestan, hafna samt vestrinu og vilja reisa trúarríki. Eftir lesturinn skil ég, að múslimar á Vesturlöndum samlagast ekki. Þeir hafna vestrænum gildum og halda fast í vonda siði, sem stríða gegn vestrinu.