Óviðurkvæmileg tíðindi af morði

Greinar

Bezti dálkahöfundurinn kvartaði nýlega yfir “langdregnum lýsingum” DV “á morði á Hverfisgötu, dæmigerðum íslenzkum glæp þar sem allir voru fullir og ruglaðir og svo fjölskylduhögum morðingjans”. Þar á Egill Helgason við, að DV upplýsti, að morðinginn væri sonur dæmds morðingja.

“Hvað er maður ekki að fatta”, sagði Egill að lokum. Þetta minnir mig á svipaða niðurstöðu Loga Bergmanns Eiðssonar í bloggi um löngu gleymt mál á heimasíðu blaðamanna, þegar hann sagði: “Hef ég misst af einhverju?” Í báðum tilvikum er um að ræða menn, sem misstu af einhverju, eru ekki að fatta.

Egill lýsir því, sem honum finnst draga úr frásagnargildi morðsins, að málið var dæmigert íslenzkt, allir voru fullir og ruglaðir og að sagt var frá ættartengslum morðingja. Þar talar hann einmitt frá sjónarhóli yfirstéttarmanns, sem les gáfaðar kjallaragreinar í Spectator, en fattar ekki fréttir.

Alvöru fréttaflutningur finnst ekki í kjallaragreinum í Spectator eða Guardian, New York Times eða Washington Post. Þar eru gáfumenn heimsins að ræða heimsins gagn og reyna að sjá á þeim nýja vinkla. Atburðir gerast hins vegar, morð og fellibyljir, ástir idolstjörnu og miðaldra píanóleikara.

Fréttir í fínum blöðum snúast ekki um efni dálkahöfunda eða leiðarahöfunda. Þær lykta af þangi, mold, blóði, svita, tárum. Þannig eru fréttir líka í Guardian og New York Times. Þar er fjallað um alvörumál og ekki skafið utan af hlutunum eins og því miður hefur allt of lengi tíðkazt hér á landi.

Morgunblaðið er fínt fyrir þá, sem eru komnir á virðulegan aldur og farnir að lesa minningargreinar, eina blaðið utan kaþólsku, sem hefur þá sérstöðu. En fjöldinn allur af ungu fólki, sem ég hef hitt, skilur alls ekki texta blaðsins úr kauphöllum og ráðhúsum, stjórnarráði og prestsetrum.

Margir gera sér grein fyrir, að fjölmiðlun getur snúizt um fleira en áhugaefni miðaldra leiðara- og dálkahöfunda, sem heyra að minnsta kosti í tveimur ráðherrum, fimm þingmönnum og tíu embættismönnum á viku. Fyrir utan fílabeinsturninn er heimur fullur af fólki. Fjölmiðlun getur líka snúizt um það.

Agli er velkomið að leiðast langar fréttir af “íslenzku” morði, þar sem allir voru “fullir og ruglaðir”. En svarið við spurningunni er: “Þú ert ekki að fatta lífið í landinu.”

DV