Ótrúleg frekja

Greinar

Óheilbrigt peningaflóð hefur fylgt björgunar- og uppbyggingarstarfinu í Vestmannaeyjum alla tíð síðan eldgosið byrjaði. Þessi staðreynd hefur varpað nokkrum skugga á hið mikilvæga og ósérhlífna starf, sem þar hefur verið unnið við erfiðar kringumstæður.

Vinir Íslands í öðrum löndum hafa safnað stórfé til að létta byrðar þeirra, sem lentu í hörmungunum. Hér á landi hafa menn líka verið óragir við að létta á pyngju sinni, auk þess sem hár uppbyggingarskattur hvílir á þjóðinni.

Hluti af þessu mikla fé hefur dreifzt eins og gullregn. Menn hafa makað krókinn á því að vinna dag og nótt á uppsprengdum kjörum. Ýktar sögusagnir af þessu peningaflóði hafa hleypt illu blóði í almenning og spillt þeirri þjóðareiningu, sem upphaflega myndaðist um Eyjaaðstoðina.

Fram til þessarar viku var yfirvinna verkamanna við störf hjá Viðlagasjóði í Vestmannaeyjum svo mikil, að þeir höfðu yfir 90.000 króna fastar tekjur á mánuði fyrir utan frítt fæði. Má meta tekjur þeirra á um 100.000 krónur, þótt hálfsmánaðarlegar flugferðir til meginlandsins séu ekki taldar til hlunninda.

Nokkuð er síðan hreinsunarstörf í Eyjum voru svo vel á veg komin, að tímabært var orðið að draga úr vinnuálaginu og peningaflóðinu. Það er því ekkert eðlilegra en Viðlagasjóður fari nú að færa vinnu á hans vegum nær því horfi, sem gildir í þjóðfélaginu almennt, afnemi helgarvinnu, vaktavinnu og fría fæðið.

Engum hefur dottið í hug, að gullregnið í Viðlagasjóðsvinnunni ætti að halda áfram endalaust. Við höfum enga samninga gert við Norðurlandaþjóðirnar né aðrar þjóðir um framhald peningagjafa og við höfum ekki áhuga á að bera Eyjaskattinn lengur en nauðsynlegt er. Ekkert hefur gefið starfsmönnum Viðlagasjóðs tilefni til að halda, að þeir séu komnir upp á “kerfið”.

Þess vegna er blátt áfram óskiljanlegt, að verkamenn Viðlagasjóðs skuli með sólarhrings fyrirvara fara í verkfall út af einu skrefi, sem sjóðurinn hefur stigið í átt til eðlilegs vinnufyrirkomulags. Til að bæta gráu ofan á svart, gera iðnaðarmennirnir samúðarverkfall og sem heild segjast starfsmennirnir vera einhuga um þetta.

Svona gengdarlaus frekja er ákaflega sjaldgæf, að minnsta kosti sem fjöldahreyfing. Við höfum að vísu ótal sinnum heyrt eða lesið ályktanir samtaka, sem hefjast á orðunum: “Fundurinn krefst þess. . . ” og “Fundurinn heimtar. . .” sem undanfari stórfelldrar kröfugerðar. En mál starfsmanna Viðlagasjóðs er það grófasta, sem lengi hefur sézt.

Skattgreiðendur hljóta að vera sammála um að hvetja Viðlagasjóð til að láta hvergi undan fáránlegum kröfum og herða heldur á nauðsynlegri þróun í átt til eðlilegs vinnuástands. Annars á sjóðurinn og Eyjahjálpin í heild á hættu að glata samstöðu almennings um uppbygginguna. Þjóðin hefur aldrei hugsað sér, að menn mökuðu krókinn á hörmungunum.

Jónas Kristjánsson

Vísir