Ótíndir bófar

Greinar

“Mér lízt ekki á húsið og vildi ekki kaupa það, hvorki fyrir mig né aðra,” sagði Halldór E. Sigurðsson landbúnaðarráðherra í viðtali við Dagblaðið á laugardaginn um þá ákvörðun nokkurra félaga hans í ríkisstjórninni að gefa trésmiðjunni Víði 260 milljónir króna fyrir brunarústir á horni Laugavegar og Nóatúns.

Innkaupastofnun ríkisins og Hagsýslustofnun fjármálaráðuneytisins hafa fjallað um ástand þessa óásjálegasta húshræs borgarinnar. Eru lýsingar hinna sérfróðu manna í meira lagi ófagrar, enda hafa landsfeðurnir ákveðið að gera þær að ríkisleyndarmáli.

Þak hússins er ónýtt. Einangrun þess er ónýt. Raflögn þess er ónýt. Gler og gluggakarmar er hvort tveggja ónýtt, vatns- og frárennslislögn er ónýt. Stigarnir eru ónýtir. Allir lóðréttir og láréttir fletir hússins eru meira eða minna hornskakkir. Bílastæði eru ekki nema brotabrot af því, sem nauðsynlegt er talið, og aðeins nothæf með því að leigja aðkeyrslu frá annarri lóð.

Niðurstaðan af þessari hrikalegu lýsingu sérfræðinganna á mannvirkinu, sem nokkrum sinnum hefur brunnið að meira eða minna leyti, er sú, að meira kosti að rífa húsið og byggja það upp að nýju en að byggja nýtt hús.

Samt vill Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra fá húsið fyrir ráðuneyti sitt og ýmsar skyldar stofnanir. Hann telur sig ekki geta fengið 400 milljónir króna til að byggja bús fyrir ráðuneytið. En hann telur sig geta fengið 400 milljónir til að laga og endurnýja hús, sem ríkið sé þegar búið að kaupa á 260 milljónir.

Vilhjálmur sýnir þarna réttan skilning á því, hvernig hugsað er í ríkiskerfinu. En hann er nokkuð tilætlunarsamur að vilja láta skattgreiðendur borga þennan skilning sinn.

Frumkvöðlar þessarar ógæfu eru Geir Hallgrímsson forsætisráðherra og Matthías Mathiesen fjármálaráðherra. Þeir ákváðu að hunza álit sérfræðinganna, kaupa brunarústirnar á uppsprengdu verði og koma þeim á Vilhjálm Hjálmarsson. Aðrir ráðherrar voru ekki spurðir álits, aðeins valdir menn úr fjárveitinganefnd.

Halldór E. Sigurðsson landbúnaðarráðherra sagði um þetta í áðurnefndu viðtali: “Annars hefur málið ekki enn verið tekið fyrir í ríkisstjórninni og ég er ókunnugur þeim kjörum, sem húsið er keypt á.”

Ákvörðunin um kaupin er tæpast tekin af mannúðarástæðum gagnvart einu mesta auðfyrirtæki þjóðarinnar. Trésmiðjan Víðir þarf varla 260 milljón króna gjöf. Sennilegast er, að hluti milljónanna renni til einhverrar starfsemi, sem ráðherrarnir telja göfuga, t.d. kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.

Ráðherrar og þingmenn kvarta stundum um, að Dagblaðið tali um þá eins og ótínda bófa. Því miður sýna dæmin, að fyrirlitning Dagblaðsins er á gildum rökum reist. Kaupin á brunarústum trésmiðjunnar Víðis eru átakanlegt dæmi um, hversu gerspilltir helztu ráðamenn þjóðarinnar eru, þrátt fyrir allt hugsjónagasprið.

Ummæli Halldórs E. Sigurðssonar sýna þó, að unnt er að ofbjóða sumum ráðamönnum. Kannski tekst þeim að stöðva glæpinn og efla virðingu íslenzkra stjórnmála.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið