Þrátt fyrir ítrekaða afsökunarbeiðni Árna Johnsen, blandast fáum hugur um, að hann telur sig hafa gert tæknileg mistök, þegar hann misfór með opinbert fé. Hann hafi bara verið að gera það sama og aðrir gerðu við kjötkatlana, en hafi ekki útfært það nógu vel tæknilega, þannig að hann gómaðist. Árni sat svo aldrei refsingu sína, því að dómsmálaráðherra og handhafar forsetavalds, allir sjálfstæðismenn, notuðu fjarveru forsetans til að náða Árna. Honum hefur því verið vikið undan því að greiða skuldina við þjóðina. Því er ekki fært að kjósa lista með hans nafni.
