Á þessu ári leggur ríkið fram 312 milljónir króna í Fiskveiðasjóð og 202 milljónir í Stofnlánadeild landbúnaðarins, en ekki nema 50 milljónir í Iðnlánasjóð. Þessar tölur lýsa vel misjöfnum áhuga ríkisvaldsins á framleiðsluatvinnuvegunum. Iðnaðurinn hefur jafnan verið homreka og er það enn.
Þegar svona mismunun hleðst upp ár eftir ár, verður útlánageta sjóðanna mjög misjöfn. Í ár geta fjárfestingarlánasjóðir sjávarútvegsins lánað út 3650 milljónir króna, fjárfestingarlánasjóðir landbúnaðarins 1300 milljónir króna og fjárfestingarlánasjóðir iðnaðaríns 1025 milljónir króna.
Þetta hefur líka gífurleg áhrif á fjármunaeign í atvinnuvegunum. Heildarfastafjármunir nema 1467 þúsund krónum á hvern starfsmaam í sjávarútvegi, 1804 þúsund á hvern starfsmann í landbúnaði og 703 þúsund á hvern starfsmann í iðnaði.
Í öðrum löndum þætti það saga til næsta bæjar, ef fjármagn á starfsmann væri minna í iðnaði en í landbúnaðí, því að iðnaður er langsamlega fjármagnsfrekasta atvinnugreinin. En svo langt hefur hin pólitíska forréttinda- og fyrirgreiðslustefna leitt Íslendinga, að fjármagn á mann er tvisvar til þrisvar sinnum meira í landbúnaði en í iðnaði.
Tölurnar hér að framan sýna einnig, hvernig stendur á því, að Íslendingar hafa keypt alltof mörg fiskiskip i hlutfalli við aflamagnið í sjónum. En að vísu hefur forgangur sjávarútvegsins að fjármagni þá afsökun, að verið er að bæta honum upp þann arð, sem tekinn er af honum með of hárri skráningu á gengi krónunnar.
Hin beinu framlög ríkisins í stofnlánasjóði atvinnuveganna segja ekki alla söguna um forréttindaröðina. Landbúnaður og sjávarútvegur fá rekstrarlán með sjálfvirkum hætti, svokölluð afurðalán. Iðnaðurinn fær hins vegar ekki sjálfvirk rekstrarlán.
Vextirnir á rekstrarlánum eru einnig mismunandi eftir atvinnugreinum. Meðalvextir á lánum til sjávarútvegs eru 11,5%, til landbúnaðar 11,2%, og til iðnaðar 15,5%. Iðnaðurinn greiðir fjórum prósentustigum hærri vexti en hinar greinarnar.
Áfram má rekja mismununina. Iðnaðurinn á mjög erfitt með að fá lán til véla og bygginga. En sjávarútvegurinn fær sjálfkrafa lánað 80% af kaupverði skipa og í sumum tilvikum enn hærra hlutfall. Helzti möguleiki iðnaðar til lána er að flytja starfsemina út á land og krækja síðan í peninga úr Byggðasjóði.
Fyrir meira en 15 árum bjó iðnaðurinn í skjóli hafta og tolla. Nú eru höftin löngu horfin og tollarnir fara hríðlækkandi. Þetta er eðlileg þróun. En hins hefur ekki verið gætt að bæta aðstöðu iðnaðarins til að mæta hinni vaxandi samkeppni við vel fjármagnaðan erlendan iðnað.
Þrátt fyrir allar þessar misþyrmingar hjarir iðnaðurinn enn sem lítilsgild lágtekjugrein. En það er hvorki ríkinu né stjórnmálamönnunum að þakka, að hann lifir.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið