Opinber geðbilun

Greinar

Steingrímur Hermannsson landbúnaðarráðherra er um þessar mundir að reyna að smygla 3,5 milljörðum viðbótarkróna í útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða framhjá samþykktum fjárlögum þessa árs.

Búast má við, að honum takist þetta, þótt Alþýðuflokkurinn þvælist enn fyrir. Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, landbúnaðarflokkar ríkisstjórnarinnar, hafa samþykkt að styðja þessa ráðstöfun á alþingi.

Svo kann að fara, að landbúnaðarflokkar ríkisstjórnarinnar leiti á náðir stjórnarandstöðunnar, þriðja landbúnaðarflokksins, til að fá málið í gegn. Og ekki ætti að standa á upphafsflokki Ingólfskunnar.

Smyglið fer fram á þann hátt, að ríkið fær 3,5 milljarða að láni í útlöndum. Framleiðsluráð landbúnaðarins fær þessa peninga til að greiða bændum uppbót á núverandi útflutningsuppbætur.

Ríkið sjálft á síðan að endurgreiða lánið á 4-5 árum og verður þá í tæka tíð að finna smugur á fjárlögum næstu ára. En ríkisstjórnin sleppur með 3,5 milljarðana framhjá fjárlögum þessa árs.

Með viðbótarpeningunum eru ráðgerðar útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur landbúnaðarafurða árið 1979 komnar upp í 27,5 milljarða króna. Það eru 6-7 milljónir króna á hvert einasta býli í landinu!

Þá er ótalinn annar stuðningur ríkisins við landbúnaðinn, svo sem margvíslegir styrkir til bygginga og ræktunar, sjálfvirk lán á hagkvæmustu kjörum og síðast en ekki sízt innflutningsbann á landbúnaðarafurðum.

Illskárra væri að borga hverjum bónda þessar 6,7 milljónir króna á ári gegn því, að hann hætti að búa, hætti að sóa gjaldeyri í olíur, tæki, áburð og fóður og hætti að íþyngja neytendum með afurðum langt yfir heimsmarkaðsverði.

Sannleikurinn er sá, að erlend aðföng landbúnaðarins eru svo dýr, að þau jafngilda gjaldeyristekjum af útfluttum afurðum landbúnaðar og búvöruiðnaðar, svo og gjaldeyrissparnaði af því að flytja ekki inn mat á heimsmarkaðsverði.

Sannleikurinn er líka sá, að Sovétmenn kaupa smjör hjá Efnahagsbandalaginu á 108 krónur kílóið meðan íslenzkir neytendur og skattgreiðendur kaupa það hjá hinum innlenda landbúnaði á 3.037 krónur.

Hingað komnar mundu ársbirgðir þjóðarinnar af smjöri Efnahagsbandalagsins ekki kosta nema 200 milljónir króna, meðan ársneyzla þjóðarinnar af smjörfjalli landbúnaðarins kostar hana 4.200 milljónir króna.

Innlenda smjörið er sem sagt 4 milljörðum of dýrt. Og hér er bara verið að ræða um smjörið og ekki aðrar þær landbúnaðarafurðir, sem við leyfum okkur að framleiða hér á mörkum freðmýrabeltisins, náttúru landsins til stórtjóns.

Hin opinbera landbúnaðarstefna á Íslandi er hrein geðbilun. Hún dregur niður lífskjörin í landinu og stuðlar að atgerfisflótta úr landi. Á endanum eyðir hún sjálfstæði þjóðarinnar, ef ekki verður gripið i taumana í tæka tíð.

Sú stefna landstjórnarmanna að reyna að hverfa frá offramleiðslu til framleiðslu, er miðuð sé við innanlandsmarkað, er örlítið spor í rétta átt. Hún sýnir að minnsta kosti, að þeir eru byrjaðir að átta sig.

En í verki er gamla geðbilunin í fullum gangi. Fráhvarfs frá offrammleiðslu sér hvergi áþreifanleg merki. Tilraun Steingríms Hermannssonar landbúnaðarráðherra til að auka útflutningsuppbætur ársins um 3,5 milljarða er skýrt dæmi um þetta.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið