Olíuverðhrun í vændum

Greinar

Segja má, að Vesturlönd fljóti í olíu um þessar mundir. Olíugeymar eru hvarvetna fullir og risaolíuskipin dóla um höfin án þess að geta losað. Þessi offramleiðsla á olíu byrjaði að koma í ljós á miðju síðasta ári og fer senn að verða sumum olíuframleiðsluríkjum óbærileg.

Vesturlöndum hefur tekizt svo vel að spara olíu, að framleiðslan hefur um nokkurt skeið verið 20% meiri en notkunin. Þá hafa alls konar ráðstafanir verið gerðar til að spara olíu í náinni framtíð. Þessar orkuáætlanir hafa þau hliðaráhrif, að búast má við áframhaldandi offramboði á olíu, þótt framleiðsluríkin nái samkomulagi um að draga saman seglin.

Heimsmarkaðsverð á olíu er nú um 1500 krónur tunnan, en framleiðslukostnaðurinn í Arabaríkjunum er aðeins 15 krónur tunnan. Olíuframleiðsluríkjunum hefur mánuðum saman tekizt að halda uppi þessum óeðlilega verðmun, sumpart með stuðningi olíufélaganna á Vesturlöndum, sem hafa hagnazt á fimmföldun olíuverðsins. En lögmál markaðsins hljóta að segja til sín fyrr eða síðar og valda verðhruni á olíu.

Með hverjum deginum sem líður hlaðast upp olíubirgðir. Arabaríkin framleiða enn, þrátt fyrir samdráttartilraunir, mun meiri olíu en markaðurinn getur tekið við á því uppsprengda verði, sem nú gildir. Þetta verð er ekki lengur í neinu samræmi við raunveruleika markaðsins, enda eru olíuframleiðsluríkin þegar orðin uggandi um sinn hag. .

Arabaríkjunum tókst á sinum tíma að rjúfa einokunarhring hinna sjö stóru olíufélaga í heiminum, þótt samstaðan í þeim hring væri mikil. Samstaða hinna tólf þjóðernissinnuðu ríkisstjórna í olíuframleiðslusamtökunum, sem nú.hafa tekið við hlutverki einokunarhringsins, er mun minni en samsæða olíufélaganna var áður. Ýmis dæmi eru um, að farið sé að hrikta í þessum einokunarhring, til dæmis deilur Írans og Saudi-Arabíu á síðasta fundi olíuframleiðsluríkjanna.

Olíumenn Saudi-Arabíu hafa séð fyrir hættuna á verðhruni olíunnar og vilja því taka upp mildari afstöðu gagnvart Vesturlöndum. Íranskeisari lifir hins vegar í draumum um nýtt Persaveldi, byggt á olíugróða, og áttar sig ekki á, að olíuokrið hefur gengið of langt.

Lækkun á olíuverði hefur að sjálfsögðu víðtæk áhrif á orkuþróun Vesturlanda. Olíulindir Breta og Norðmanna í Norðursjó verða ekki eins mikilvægar og ella og yfirburðir vatnsaflsins verða minni en áður.

Íslendingar mega t.d. búast við, að í framtíðinni verði erfitt að fá hærra verð fyrir rafmagn en samið hefur verið um við Union Carbide vegna málmblendiverksmiðjunnar fyrirhuguðu í Hvalfirði. Eigi,að síður ætti markaðsverð á vatnsaflsrafmagni að haldast nógu hátt til að tryggja áframhaldandi stórvirkjanir í fallvötnum landsins.

Möguleiki er á því, að íslenzkir bílaeigendur fái fyrr eða síðar að njóta lækkaðs benzínverðs,þótt reynslan sýni, að ríkisvaldið sé líklegt til að reyna að krækja í mismuninn sér til viðurværis. Hitt ætti að vera öruggt, að fiskveiðar okkar verði hagkvæmari, þegar olíuverðið fer að lækka að marki.

Jónas Kristjánsson

Vísir