Ólafur þvælist fyrir.

Greinar

Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra boðaði forföll, þegar forustumenn Framsóknarflokksins komu saman í gærkvöldi til að ræða kröfu Alþýðuflokksins um þingrof og kosningar. Forföll Ólafs segja nokkra sögu.

Raunar er dæmigert fyrir landsstjórnina, að forsætisráðherra skuli ekki nenna að mæta, þegar flokkur hans stendur andspænis versta áfallinu, sem ríkisstjórn hans hefur sætt.

Leiðtogar og aðrir talsmenn stjórnmálaflokkanna hafa keppzt um að tjá sig fyrir almenningi um hina nýju taflstöðu stjórnmálanna. Ólafur einn hefur ekki látið ná tangarhaldi á sér.

Vafalaust hefur Ólafur verið að hugleiða, hvort hann geti neitað þingrofskröfunni og tafið kosningar. Með slíku mundi hann knýja fram atkvæðagreiðslu á alþingi um vantraust og þingrof.

Ekki er auðséð, að Ólafur geti með slíkum hætti frestað kosningum lengur en fram í janúar, þegar færð í strjálbýli er orðin mun verri en í desember. Og ekki er auðséður neinn hagur Ólafs né flokks hans af slíkri frestun.

Í fjarveru Ólafs hefur Steingrímur Hermannsson, formaður Framsóknarflokksins, hamazt gegn desemberkosningum. Á Ólafslausa fundinum voru menn sammála um, að flokkurinn skyldi bregðast hart við hinni óvæntu stöðu.

Hvort tveggja mætti túlka sem ákall til Ólafs um að finna einhverja klæki og króka, sem geti forðað Framsóknarflokknum frá kosningum á næstu mánuðum. Þar í flokki bíða menn þess nú með óþreyju, að Ólafur skríði undan feldinum.

Kosningahræðsla Framsóknarflokksins er eðlileg. Ráðamenn flokksins telja sig eygja möguleika á skárri stjórn efnahagsmála í vetur og fram á vorið, einkum með notkun hinnar svonefndu “norsku aðferðar” í samráði við samtök launþega.

Það er auðvitað sárt fyrir Framsóknarflokkinn að missa af þessu tækifæri til að bæta fyrir óstjórn undanfarinna missera. En flokkurinn virðist dæmdur til að svara til saka hjá kjósendum án þessa tækifæris.

Gremja Alþýðubandalagsins virðist af allt öðrum toga spunnin, þeim, að Alþýðuflokkurinn hafi óvænt verið nokkrum dögum á undan að heimta þingrof og kosningar. Ráðamenn bandalagsins afneita þessu að vísu og það með nokkrum þunga.

Samgöngur á landi ættu ekki að vera þröskuldur í vegi desemberkosninga, þótt svo hafi verið fyrr á árum. Hinn skammi frestur ætti ekki heldur að verða til umtalsverðra óþæginda. Frá 1974 höfum við reynslu af jafnskömmum fresti.

Svo virðist meira að segja, að þeir stjórnmálaflokkar, sem áhuga hafa, geti beitt prófkjörum til að velja frambjóðendur. Alþýðuflokkurinn ætlar að hafa prófkjör og Alþýðubandalagið í þeim kjördæmum, sem þess óska.

Framsóknarflokkurinn ætlar að spara sér prófkjör, en Sjálfstæðisflokkurinn tvístígur. Þar eru ráðamenn ekki hrifnir af prófkjörum og vilja auðvitað nota tækifærið til að losna við þau. En tæknilega séð eiga þeir ekki að komast upp með slíkt.

Gott er, að unnt skuli vera að beita prófkjörum við svo skamman undirbúningsfrest. Og það er líka gott, að fræðilega er mögulegt að laga kosningalögin dálítið með breytingu á reglum um úthlutun uppbótarsæta.

Ranglát kjördæmaskipan er því ekki röksemd gegn kosningum í desember. Ef flokkarnir kærðu sig um lagfæringar, gætu þeir afgreitt þær í tæka tíð. Við skulum því fylgjast vel með þeim, sem nú fella krókódílstár vegna framlengingar núverandi kjördæmaskipunar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið