Ólafur tapar tíma

Greinar

Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra kom landhelgissamningnum við Breta ekki í gegn í ríkisstjórninni á fundi hennar í gær. Þar var ákveðið að fresta afgreiðslu málsins, líklega fram yfir helgi, svo að einstakir ráðherrar fengju tækifæri til að skoða málið ofan í kjölinn.

Stuðningsmenn samningsins í ríkisstjórninni voru bjartsýnir fyrir fundinn. Þingmönnum í utanríkismálanefnd alþingis hafði verið sagt að vera tilbúnir til að mæta á fundi eftir hádegi í gær til að ræða samninginn. Þingmenn gerðu almennt ráð fyrir, að vegna þessa yrðu þingfundir í dag og á morgun til að ljúka afgreiðslu málsins.

Til þessa kom ekki og hlýtur það að teljast nokkur afturkippur í sókn forsætisráðherra í málinu. Hann tapar mikilvægum tíma á frestuninni fram yfir helgi. Á meðan kann Lúðvík Jósepsson að finna ráð til að snúa sér út úr uppgjöf sinni gagnvart forsætisráðherra.

Almennt er nú talið, að viðræður Einar Ágústssonar utanríkisráðherra og McKenzie sendiherra hafi ekki leitt til neinna markverðra breytinga á samningsgrundvelli Ólafs og Heaths. Þetta hefur fjölgað andstæðingum samningsins á undanförnum dögum. Sú bylgja getur risið svo hátt, að Ólafi takist ekki að sameina ríkisstjórnina um málið eftir helgina.

Ekki bætir úr skák, að Ólafi og landhelgisgæzlunni hefur tekizt að reita Vestfirðinga til ákafrar reiði. Vestra þykir mönnum fullsannað, að landhelgisgæzlan þar sé nánast skrípaleikur og erlendir togarar fari að vild um alfriðuð svæði og jafnvel inn fyrir tólf mílur.Gæzlan og Ólafur hafa reynt að gera lítið úr þessum frásögnum. Þetta hefur dregið úr trausti Vestfirðinga á Ólafi og spillt fyrir möguleikum hans á að knýja fram samningsgrundvöll sinn.

Það verður því fróðlegt að sjá á næstu dögum, hvort Ólafur missir sigurinn yfir Lúðvík úr höndum sér og situr eftir með sárt ennið eða hvort honum tekst að halda Lúðvík í bóndabeygjunni, þrátt fyrir frestunina og afturkippinn. Þessi barátta mun einnig sýna, hvort ráðherrar Alþýðubandalagsins halda dauðahaldi í ráðherrastóla sína.

Hitt er svo annar handleggur, að það hefur komið skýrar í ljós á síðustu dögum, að eini ljósi punkturinn í samningsgrundvellinum við Breta er sá, að í honum felst friður, sem út af fyrir sig er ef til vill aðalatriðið. Efnisatriði grundvallarins eru hins vegar ekki til þess fallin að vekja neina hrifningu hér á landi.

Erfiðast er að sætta sig við, að bráðabirgðasamningurinn við Breta eigi að gilda í tvö ár. Það hefði verið auðveldara að sætta sig við allt hitt, ef það hefði aðeins verið til eins árs. Við þurfum eitt ár til að undirbúa útfærslu landhelginnar í 200 mílur. Sú útfærsla þyrfti að eiga sér stað fyrir árslok 1974. En tveggja ára bráðabirgðasamningur um minna málið, 50 mílurnar, tefur framkvæmd stærra málsins, 200 mílnanna, óþægilega mikið.

Að öðru leyti er ekki hægt að ræða um kosti og galla hins endanlega samnings við Breta. Það verður ekki hægt fyrr en hann hefur verið birtur þjóðinni. Og það geta ekki verið nema nokkrir dagar, unz að því kemur.

Jónas Kristjánsson

Vísir