Okkar ríki er frekast.

Greinar

Ríkisstjórnin reyndi fyrir helgina að andmæla þeirri gagnrýni, að hér á landi væri ríkið óvenju frekt til bensínfjár. Viðskiptaráðuneytið birti tölur um, að hlutur ríkisins af bensínverði væri minni hér á landi en í sex Evrópulöndum.

Efst á þessu blaði trónaði Ítalía með 72%, síðan Frakkland með 68,8%, þá Danmörk með 62,7%, næst Vestur-Þýzkaland með 60,2%, svo Belgía með 59,4% og loks Holland með 59%. Viðskiptaráðuneytið kvað þessa hlutfallstölu vera 58% hér á landi.

Stjórnmálamenn og embættismenn geta lengi leikið sér með tölur, einkum prósentur. Að lokum finna þeir jafnan eitthvað nýtilegt fyrir málstaðinn. Þetta er eina sérgreinin, sem stjórnmálamenn og embættismenn kunna betur en aðrir menn.

Bifreiðaeigendum væri sennilega alveg sama um 72% hlut hjá ríkinu, bara ef bensínverðið væri í krónum töluvert lægra en nú. Menn hafa nefnilega ekki prósentur í veskinu, heldur krónutölur á peningaseðlum og í ávísanaheftum.

Það stendur enn, sem sagt hefur verið: Íslenzka ríkið tekur í sinn hlut fleiri krónur af hverjum bensínlítra en nokkurt annað ríki, sem frétzt hefur af. Það stendur enn, að íslenzka ríkið er gráðugra á þessu sviði en nokkurt annað ríki, sem frétzt hefur af.

Hlutfallstölur viðskiptaráðuneytisins eru samt ekki alveg marklausar. Þær sýna til dæmis, að græðgi í bensínskatta er ekki séríslenzkt fyrirbrigði. Um alla Evrópu hafa ráðamenn hangið í prósentum ríkisins og kennt Aröbum um hækkanir á bensínverði. Þetta svindl er alþjóðlegt böl.

Tölur viðskiptaráðuneytisins sýna líka, að vandamál íslenzkra bíleigenda í bensínkostnaði eru af fleiri rótum runnar en ríkisins eins. Hin óhemjulega skattheimta er ekki eina bölið. Til skjalanna koma líka of dýr innkaup og dreifing.

Aðrar þjóðir hreinsa sjálfar mestan hluta olíunnar, sem þær nota, og lækka þannig verðið. Þar að auki ná olíufélög þeirra hagkvæmari innkaupum en skráningin í Rotterdam sýnir. Íslenzka ríkið kaupir hins vegar Sovétbensínið á Rotterdam-verði.

Af því að miðað er við verð á bensíni í alþjóðabraski, kostar lítrinn hingað kominn 77 krónur. Það er hærra verð en í nágrannalöndunum. Íslenzka ríkið gerir fyrir hönd olíufélaganna ekki nógu hagkvæm innkaup í Sovétríkjunum.

Íslenzku olíufélögin leggja síðan 35 krónur eða 45% ofan á hvern bensínlítra: Þetta er augljóslega dýr dreifing. Bifreiðaeigendur hljóta að spyrja, hvort ekki sé unnt að ná betri nýtingu í rekstri olíufélaganna.

Samt er fæstar krónur unnt að höggva af hlut íslenzku olíufélaganna, af því að 35 krónurnar eru lægsta talan. Bíleigendur mundu spara meira á skynsamlegri innkaupum til landsins. 77 krónur eru allt of há tala.

En þar er vandinn auðvitað sá, að ríkið sem hver annar heildsali vill kaupa sem dýrast og óhagkvæmast inn, svo að álagningin, í þessu tilviki skatturinn, reiknaður í prósentum, verði sem hæstur í krónum. Við þekkjum þetta á öðrum sviðum.

Mestur yrði svo sparnaður bifreiðaeigenda af fækkun hinna 144 króna, sem ríkið tekur í skatta af hverjum bensínlítra. Þar hefur prósentusvindlið hrúgast upp í krónum á undanförnum árum.

Þessa krónutölu vilja bíleigendur fá lækkaða, af því að hún er hin hæsta, sem vitað er um í heiminum. Og þá krónutölu vilja menn ekki fá hækkaða við næstu hækkun innflutningsverðs, af því að hún er þegar hin hæsta, sem vitað er um í heiminum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið