Ógnarvopnum stolið

Punktar

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur fundið nýja skýringu á erfiðleikum hans við að finna meint gereyðingarvopn Íraks. Þeim var stolið í stjórnleysinu, sem ríkti frá valdamissi Íraksstjórnar til valdatöku Bandaríkjahers. Þetta sagði hann í vikulegu útvarpsávarpi sínu. Frá þessu segir í fréttum Reuters. Samkvæmt þessu hefur innrás Bandaríkjanna þrýst gereyðingarvopnum í hendur þeirra, sem bezt buðu, kannski í hendur Osama bin Laden. Altjend bendir ávarp forsetans til þess, að ekki finnist hin meintu gereyðingarvopn, sem voru önnur meginforsenda stríðsins. Hin meginforsendan var meintur stuðningur Íraks við al Kaída samtökin, sem ekki var neinn fótur fyrir.