Og einn ósnjall

Greinar

Ef Ísraelsríki hefði fyrir styrjöldina árið 1967 verið boðið upp á þau býti, sem leiðtogar Arabaríkjanna bjóða nú, hefðu þau verið samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar.

Arabar eru nú fúsir til að viðurkenna landamærin frá 1948 og að gera friðarsamninga við Ísrael sem viðurkennt, fullvalda ríki. Þetta er einmitt það, sem stjórn Ísraels sóttist eftir, áður en sigrar á vígvellinum stigu henni til höfuðs.

Nú segjast Ísraelsmenn vera andvígir sérstöku ríki Palestínumanna á vestri bakka árinnar Jórdan. Fyrir árið 1967 hefðu Ísraelsmenn kært sig kollótta um það.

Ísraelsmenn gerðu mikil mistök, þegar þeir kusu hryðjuverkamanninn Begin yfir sig sem forsætisráðherra. Leiðtogar verkamannaflokksins ísraelska eru miklu líklegri til að skilja, að hætta ber leik, þá hæst hann stendur og áður en stríðsgæfan snýst hinum í vil.

Bandaríkin geta ekki lengur stutt Ísrael leynt og ljóst. Þau hafa gífurlegra hagsmuna að gæta í Arabaríkjunum. Kærleikar þeirra og ýmissa Arabaríkja hafa aukizt hratt að undanförnu. Útilokað er, að Bandaríkin vilji fórna þeirri fótfestu, sem þar hefur náðst.

Herstjórnarlist og hermennska Arabaríkjanna hefur líka batnað stórlega, síðan Ísrael vann sitt sex daga stríð. Þar á ofan hafa Arabaríkin tök á miklu meira fjármagni en Ísraelsríki getur sjálft dreymt um.

Í stað þess að grípa gæsina og afla sér friðar og viðurkenndra landamæra, kýs Begin forsætisráðherra að hafna tilboðunum, nema meira land og reyna að spilla Genfarráðstefnu. Slíkt er aðeins upphaf endalokanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið