Íslendingar harma oft fámenni þjóðarinnar og telja það vera einn helzta þröskuldinn á framfarabraut hennar. Og auðvelt er að benda á marga og veigamikla erfiðleika, sem stafa beinlínis af fámenni þjóðarinnar og strjálbýli. Því fjölmennari sem þjóð er og því þéttbýlla sem land er, þeim mun styrkari verður þjóðin til sameiginlegra átaka.
Samgöngurnar eru dæmigerðar fyrir vanda Íslendinga á þessu sviði. Við erum að reyna að byggja upp og halda við víðfeðmu samgöngukerfi, en erum svo fáir, að verkefnið virðist stundum vera okkur ofviða. Vegirnir eru langir og skattborgararnir eru fáir. Það hefur kostað mikið átak: að ljúka hringvegi um landið og mun kosta mikið að ljúka hringvegi um Vestfirði.
Það mun ekki kosta okkur minna en einn milljarð á ári næsta aldarfjórðunginn að leggja varanlegt slitlag á hringveginn um landið og helztu þjóðvegi út frá honum, fyrir utan kostnað við hliðstæða vegagerð í þéttbýli. 0g við megum til með að framkvæma þetta, þótt það kosti okkur miklar byrðar.
Margir fleiri þættir þjóðlífsins verða óhjákvæmilega tiltölulega dýrir í fámennu og strjálbýlu landi. Vitundin um þetta dregur stundum kjark úr mönnum. og stuðlar að þeirri hugsun, sem stundum skýtur upp kollinum, að Ísland sé nánast óbyggilegt land. Hins vegar á þessi uppgjafarhugsun ekki mikið fylgi eins og sést bezt á því, að lítið er um, að menn flytjist úr landi og freisti gæfunnar annars staðar.
Við megum ekki heldur gleyma kostum fámennisins, sem skipta miklu máli og munu verða enn mikilvægari í framtíðinni. Íslendingar eru ein af fáum þjóðum heims, er ekki búa við landþrengsli. Víða erlendis eru offjölgun og landþrengsli geigvænleg vandamál, sem virðast jafnvel vera óleysanleg, ef horft er til framtíðarinnar. Hér er landrýmið ótakmarkað og verður svo um langan aldur, þótt þjóðinni fjölgi. Á þessa óvenjulegu aðstöðu Íslendinga má líta sem sérstaka auðlind.
Við þekkjum ekki nema í litlum mæli hinn sálræna þrýsting, sem fylgir þéttbýli og miklum fólksfjölda og er alvarlegt vandamál meðal margra iðnaðarþjóða. Útlendingar, sem koma hingað úr þrengslum stórborganna, hrífast margir af víðáttu og fámenni landsins. Þeim finnst mikil lífsreynsla að geta ferðazt um klukkustundum saman .án þess að sjá einn einasta mann. Þeim finnst þeir vera frjálsari menn við það. Ferðalög um íslenzkar óbyggðir geta læknað ýmsa sálræna menningarsjúkdóma.
Íslendingar kunna líka að meta þetta. Ferðalög um óbyggðir eru orðin almenn. Þau eru holl lífsreynsla, örva frjálsræðistilfinningu og gera menn að náttúruunnendum. Og þessi atriði mynda einmitt hæfilegt mótvægi við velferðardoða og ósjálfstæði manna í tækniþjóðfélagi nútímans.
Af þessu má sjá, að fámennið og víðáttan hér á landi valda okkur ekki erfiðleikum einum, heldur búa einnig yfir ýmsum kostum og ekki er ótrúlegt,að Íslendingar verði í náinni framtíð taldir sérstaklega öfundsverðir af þessum þröskuldum í vegi efnahagslegra framfara.
Jónas Kristjánsson
Vísir