Ódáðahraunsvegur
Þjóðvegur var um Sprengisand og Ódáðahraun fram undir miðja 17. öld. Var þá fylgt varðaðri leið, sem lá milli vatnsbóla og hrossahaga, enda voru óbyggðir gróðursælli í þá daga en þær eru núna. Svo gersamlega hvarf þessi þjóðvegur úr minni manna, að einni öld síðar, eftir miðja 18. öld, var hans leitað, en fannst ekki. Það var ekki fyrr en 1976, að skipuleg leit var hafin að þjóðvegi Ódáðahrauns. Smám saman hafa fundizt vörður og leifar af vörðum, svo að nú er hægt að fylgja hinni fornu leið með hjálp GPS-tækja. Frá þessu er sagt í nýútkominni árbók Ferðafélags Íslands.
