Einn af helztu stjórnmálariturum Tímans gaf nýlega í skyn, að bandaríska leyniþjónustan CIA stæði að baki því mótlæti, sem Guðbjartur Pálsson og fleiri fjármálamenn, tengdir Framsóknarflokknum, hafa mátt þola. Telur þessi sérfræðingur, að CIA leggi mikla áherzlu á rógskrif um þjóðlegustu og hjartahreinustu öfl landsins.
Virðist sérfræðingurinn aðallega beina skeytum sínum að Vísi og Alþýðublaðinu sem eins konar umboðsmönnum CIA. Áður hafði hann kvartað yfir Rússadýrkun Dagblaðsins með þeim hætti, að ætla mætti, að skrif þess um heiðursmenn, tengda Framsóknarflokknum, séu runnin undir rifjum sovézku leyniþjónustunnar KGB. Eru vandamál Framsóknarflokksins þá orðin næsta alþjóðleg.
Rótin að óánægju stjórnmálaritara Tímans er sú, að ofangreind dagblöð hafa hvað eftir annað orðið vettvangur þeirra skoðana, að furðutíðindin úr dómsmálaheiminum séu orðin of mörg til þess, að um tilviljanir geti verið að ræða.
Í leiðara Dagblaðsins í gær voru rakin allmörg þeirra atriða, sem valda grunsemdum um, að ekki sé allt með felldu í dómsmálastjórn framsóknarmanna. Hvert einstakt atriði út af fyrir sig gæti verið tilviljun, sem sannar ekki neitt. En margir leyfa sér að efast um, þegar allt er saman talið, að þvílík endalaus röð tilviljana geti átt sér stað.
Hvort sem um rógs- eða sannleiksskrif, af góðum eða illum hvötum er að ræða, þá er ófært, að réttarkerfið í landinu verði óvirkt. Það er ófært, að æðstu embættismenn og framsóknarmenn dómsmála séu gerðir óvinnufærir. Eitthvað meira en lítið verður að gera til að fá botn í hin umdeildu mál.
Frumkvæðið hlýtur að koma frá ríkisstjórninni og hljóta samþykki alþingis. Það gæti til dæmis verið í þeirri mynd, að varið yrði sérstaklega um 100 milljónum króna á ári af fé ríkisins til að ráða færa endurskoðendur til að hraða bókhalds- og skjalaskoðun ýmissa þeirra stórmála, sem nú stífla réttarkerfið í landinu.
Jafnframt gæti ríkið varið nokkru lægri upphæð til að ráða færa lögmenn, sem ekki eru taldir í pólitískum tengslum, til að gegna hlutverkum sjálfstæðra rannsóknardómara, er ekki séu á neinn hátt háðir embættismönnum, sem taldir eru vera í pólitískum tengslum.
Til að fullnægja öllu réttlæti mætti með sama krafti rannsaka, hvort útlend eða önnur annarleg öfl standi að baki blaðaskrifa um ástandið Í dómsmálum þjóðarinnar. Ætti sú rannsókn að vera gerð með sama hraða og sama pólitíska hlutleysinu og hinar fyrrnefndu.
Ýmsir fjölmiðlar og almenningur í landinu hafa ástæðu til að ætla, að réttarfarið í landinu sé verulega gallað. Ríkisstjórn og alþingi ber skylda til að hreinsa andrúmsloftið með því að veita fé til að fá nýja menn til að kanna hin umdeildu mál ofan í kjölinn.
Að öðrum kosti mun krabbameinið í kerfinu færast í aukana, Það læknast ekki með því að skella skuldinni á CIA eða KGB. Og það læknast ekki heldur með skömmum um Framsóknarflokkinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið