Nú þarf að skera

Greinar

Erlendis eru útgjöld til landvarna yfirleitt einn stærsti þáttur ríkisrekstrarins. Íslendingar hafa hins vegar engin útgjöld af landvörnum. Samt erum við í hópi þeirra þjóða, sem mest ríkisútgjöld hafa í samanburði við þjóðarframleiðslu.

Þessu var á annan veg háttað til skamms tíma. Áratuginn, sem viðreisnarstjórnin var við völd, voru ríkisútgjöldin yfirleitt um einn fimmti hluti þjóðarframleiðslunnar. Þessi 20% nægðu til þess að byggja ört upp margvíslega opinbera þjónustu og kosta stórfelldar byggingar skóla, sjúkrahúsa og vega, svo að dæmi séu nefnd.

Síðan vinstri stjórnin tók við, hefur sneið ríkisins af kökunni vaxið með miklum hraða. Nú eru horfur á því, að á næsta ári komist sneið ríkisins upp í 30% af allri kökunni. Þessi ofvöxtur ríkisbáknsins er eitt alvarlegasta vandamál Íslendinga um þessar mundir.

Þeim mun stærri sneið, sem ríkið tekur, þeim mun minni sneiðar verða afgangs handa heimilunum og atvinnuvegunum. Þessi þróun dregur úr getu þeirra, sem framleiðsluna stunda, til að efla þjóðar hag, stækka kökuna, sem er til skiptanna.

Þar á ofan notar ríkisvaldið einmitt góðærið til að ganga berserksgang í útþenslu sinni, meðan fólk vantar til nauðsynlegustu framleiðslustarfa og umtalsverður hluti veiðiflotans liggur bundinn við bryggju út af mannaleysi. Þessi staðreynd er eitt helzta kynditæki verðbólgunnar, sem nú er örari en hún hefur verið í manna minnum.

Ríkið hefur enga ástæðu til að fara svona gassalega. Uppbygging opinberrar þjónustu gekk alveg nógu hratt á viðreisnartímanum, þótt þá væru 20% kökunnar látin nægja. Þess vegna ber ráðherrum og þingmönnum nú að stefna að því að á æsta ári minnki sneið ríkisins úr 27% í t.d. 25%, í stað þess að auka hana upp í 30%. Síðan þarf að halda áfram ár frá ári og láta ekki staðar numið, fyrr en sneið ríkisins er aftur komin niður í 20%.

Jafnframt þarf að snúa við annarri öfugþróun. Ríkið hefur ekki eingöngu belgt sig út á kostnað heimilanna og atvinnuveganna, heldur einnig á kostnað sveitarfélaganna. Þessu má auðveldlega snúa við, ef vilji er nógur. Heilsugæzlu, skólamál og löggæzlu má að verulegu leyti flytja yfir á herðar sveitarfélaganna og samtaka þeirra, svo að nokkur mikilvæg dæmi séu nefnd.

Með þessum hætti má halda áfram að skera niður sneið ríkisbáknsins og koma henni niður í 15%. Það virðist ekki óeðlilegt, að hinir tveir geirar opinberrar þjónustu, annars vegar ríkið og hins vegar sveitarfélögin, hafi hvor um sig um 15% kökunnar.

Reynsla viðreisnaráranna sýnir, að þrátt fyrir slíkan niðurskurð er unnt að byggja upp opinbera þjónustu nægilega ört. En þá verða ráðherrar og þingmenn líka að láta af gegndarlausum tillögum sínum um aukin útgjöld og snúa sér að því að skera miskunnarlaust niður þær tillögur, sem þegar eru komnar inn í fjárlagafrumvarp næsta árs. Einhverjir mundu sjálfsagt gagnrýna þá fyrir að vera á móti framkvæmd góðra málefna. En hinir mundu áreiðanlega vera miklu fleiri, sem skildu nauðsynina og virtu hreinlyndi niðurskurðarmanna.

Jónas Kristjánsson

Vísir