Eftir eins mánaðar þjark er umræðugrundvöllur sáttanefndar í kjaradeilunni loksins orðinn að niðurstöðu deiluaðila. Þeir þurftu heilan mánuð til að sannfæra sig um, að hugmyndir sáttanefndar fólu í sér skynsamlega og góða lausn á einkar erfiðum heildarsamningum um kaup og kjör í landinu.
Einu umtalsverðu frávik niðurstöðunnar frá hugmyndum sáttanefndar eru 5.000 króna kauphækkun 1. júní á næsta ári og 4.000 króna hækkun 1. september á sama ári. Þessar hækkanir koma eins og hækkanir þessa árs með sömu krónutölu á lág og há laun og eru því í anda þeirrar tegundar láglaunastefnu, sem kom fram í hinum upphaflega umræðugrundvelli sáttanefndar.
Í heild sýnir niðurstaðan, að sáttatsemjararnir hafa metið stöðuna og möguleika hennar rétt, þegar þeir lögðu fram umræðugrundvöllinn. Hugmyndirnar þóttu djarfar á sínum tíma, þar sem verkföll voru þá ekki hafin og menn ekki vanir því að hlusta á sáttatillögur, fyrr en í óefni er komið.
Því miður lá við, að framtak sáttanefndar yrði til einskis. Í þessari viku áttu hin tiltölulega afmörkuðu verkföll að breytast í alvarlegri og dýrari verkföll. En Vestfirðingar björguðu málinu með því að skera á hnútinn. Það er þeirra sérsamningur, sem nú er með nær engum frávikum orðinn að niðurstöðu kjarasamninganna.
Allir Íslendingar geta varpað öndinni léttar að loknum hinum umfangsmiklu kjarasamningum. Að vísu er kálið ekki sopið, því að mikil verðbólga mun fylgja í kjölfar samninganna. Víxlverkanir kaups og verðlags munu leiða til tvöföldunar á krónutölum kaups og gífurlegra verðhækkana á hálfu öðru ári.
Þar með er boltinn kominn í hendur ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar. Er ekki laust við, að það komi vel á vondan, því að tregða ríkisstjórnarinnar gagnvart róttækum aðgerðum til að liðka fyrir samningum er meginástæðan fyrir því, að mikil kaupmáttaraukning næst ekki nema með mikilli verðbólgu.
Samtök launamanna hafa sett í samningana skynsamlega fyrirvara, sem binda mjög hendur ríkisstjórnarinnar í viðleitni hennar til að eyðileggja áhrif kjarasamninganna. Hingað til hafa ríkisstjórnir yfirleitt komið eins og þjófur á nóttu eftir samninga og haft á burt með sér mestan hluta herfangsins.
Nú verður ríkisstjórnin að leita annarra og raunhæfari leiða til að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hún þarf að endurskoða hinar miklu fjárfestingar sínar og hinar miklu lánveitingar til þjóðhagslega óhagkvæmrar fjárfestingar í atvinnulífinu.
Ríkisstjórnir hafa hver fram af annarri neitað að horfast í augu við þá staðreynd, að íslenzka þjóðfélagið er af opinberri hálfu mun verr rekið en þjóðfélög nágrannaríkjanna. Mörg atriði þessa fáránlega rekstrar hafa verið rakin í leiðurum Dagblaðsins á undanförnum mánuðum. Landbúnaðurinn er langt frá því að vera eina bölið.
Þegar verðbólgan fer að magnast eftir þessa samningahrinu, verður erfiðara en nokkru sinni fyrr fyrir ríkisstjórnina að neita að horfast í augu við staðreyndir.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið