Nota svarthol fyrir gagnagrunn

Punktar

ÉG ÁTTI UM TÍMA samskipti við Landmælingar Íslands, af því að ég var einn þeirra, sem höfðu tekið ferilpunkta reiðleiða um óbyggðir inn á GPS-tæki.

SLÍKAR PUNKTARAÐIR henta vel til að finna hlið á girðingum og vöð á ám, auk þess sem tækin eru kompásar og kort, svo að ég veit, hvar ég er staddur í svartaþoku og hvert ég er að fara.

MARGIR ÁHUGAMENN, einkum jeppamenn og vélsleðamenn, hafa raðir ferilpunkta eða leiðarpunkta á heimasíðum sínum. Aðrir geta hlaðið þessum töflum inn í GPS-tæki sín og séð leiðir og staði á skjánum um leið og þeir eru að ferðast.

LANDMÆLINGARNAR vildu vera með í þróuninni og opnuðu heimasíðu með reiðleiðum. Ég og ýmsir fleiri voru fengnir til að skila inn röðum ferilpunkta. Lítill hluti þeirra rataði á vefkort Landmælinganna.

SÁ GALLI ER Á gagnagrunni Landmælinganna, að hann er sá eini í heiminum, sem tekur bara inn punktaraðir, en getur ekki skilað þeim út aftur. Hann er eins konar svarthol, sem gleypir allt, en skilar engu.

ÞESS VEGNA GETA hestamenn ekki notað vefkort Landmælinganna til að hlaða punktaröðum reiðleiða inn á GPS-tæki, þegar þeir undirbúa ferðalög. Landmælingarnar bjóða ekki heldur neinar punktatöflur í staðinn.

HANDARBAKAVINNUBRÖGÐ Landmælinga Íslands eru dæmigerð fyrir opinberan rekstur. Ráðamenn einkafyrirtæks hefðu örugglega áttað sig á, að ekki er gott að nota danskt svarthol fyrir gagnagrunn.

DV