Nokkru lipurri lota

Greinar

Eðlilegt er, að áhyggjur komi í ljós vegna tilhugsunarinnar um, að Lúðvík Jósepsson kunni að verða næsti forsætisráðherra hins vestræna lýðveldis á Íslandi. Hann var ráðamaður í báðum forveraflokkum Alþýðubandalagsins, Sósíalistaflokknum og Kommúnistaflokknum.

Að vísu er staða Alþýðubandalagsins fremur óljós í litrófi nafngiftanna frá hægri til vinstri. Og Íslendingar hafa fyrir löngu vanizt tilhugsuninni um, að Alþýðubandalagið sé jafngildur stjórnarflokkur sem hver annar stjórnmálaflokkur. En forsætisráðherraembættið er múr, sem Alþýðubandalagið hefur ekki rofið enn.

Ætla má, að auðveldara væri fyrir mann eins og Ragnar Arnalds að rjúfa þennan múr, úr því að hann kom úr Þjóðvarnarflokknum en ekki úr Sósíalistaflokknum né Kommúnistaflokknum. Slík skipan mála í hugsanlegri vinstri stjórn mundi vafalaust valda minni áhyggjum.

Auðvitað getur Lúðvík Jósepsson myndað stjórn fyrir Ragnar Arnalds. Hann getur meira að segja myndað stjórn fyrir Benedikt Gröndal, alveg eins og Ólafur Jóhannesson myndaði síðast stjórn fyrir Geir Hallgrímsson. Lúðvík verður ekki sjálfkrafa forsætisráðherra, þótt hann stjórni viðræðum um myndun ríkisstjórnar.

Alþýðubandalagið verður vafalítið að taka tillit til hinnar ákveðnu vesturlandahyggju Alþýðuflokksins. Bandalagið mun sennilega gefa eftir forsætisráðherraembættið sem og stefnuna í utanríkis- og varnarmálum.

Verkamannasambandið er að reyna að knýja Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið til stjórnarsamstarfs. Ef Alþýðubandalagið ætlar að sýna lit í þeim efnum, verður það að varpa fyrir borð stefnumálum, sem engan hljómgrunn hafa á alþingi né í verkalýðsfélögunum.

Undir smásjá Verkamannasambandsins getur Alþýðubandalagið tæpast lengur leyft sér að setja fram sem tillögur í efnahagsmálum eitthvert endemis bull úr Lúðvík Jósepssyni og Svavari Gestssyni, framleitt án nokkurs samráðs við menn á borð við Ásmund Stefánsson.

Úr því að sjálfur Magnús Kjartansson fær ekki orða bundizt í Þjóðviljanum út af forneskjunni í hugmyndum þeim, sem Lúðvík og Svavar settu fram í fyrri umferð vinstri viðræðna, geta þeir félagar ekki búizt við mjög almennum stuðningi í flokknum við þessar hugmyndir.

Auðvitað verða allir flokkar að gefa eftir, ef þeir vilja ná samkomulagi um myndun ríkisstjórnar. Ef Lúðvík reynir að mynda stjórn með Alþýðuflokknum og sennilega einnig Framsóknarflokknum, verða hinir flokkarnir líka að gefa eftir á einhverjum sviðum.

Hins vegar má ekki gleyma því, að Alþýðuflokkurinn vildi kjarasáttmálastjórn með Sjálfstæðisflokki og Alþýðubandalagi, sennilega skástu stjórnina í stöðunni eftir kosningar. Alþýðubandalagið hafði hins vegar í gegn, að fyrri viðræður beindust að þátttöku Framsóknarflokksins í stað Sjálfstæðisflokksins.

Ef Alþýðuflokkurinn gefur þetta eftir í annað sinn, hefur hann fórnað miklu og hlýtur að geta gert kröfu um, að Alþýðubandalagið gefi mun meira eftir á ýmsum öðrum sviðum. Önnur umferð vinstri viðræðna ætti því að reynast heldur lipurri en hin fyrri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið