Nógu margir eru nógu leiðir

Greinar

Gefum okkur, að Framsókn fái einn borgarfulltrúa í kosningum næsta vors. Skoðanakannanir efast um það. En hugsum okkur alla þá, sem Framsókn hefur gefið embætti hjá ríkinu. Þeir væru vanþakklátir, ef þeir mæta ekki á kjörstað og tryggja holdgervingi bananalýðveldisins einn borgarfulltrúa.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær tæplega 50% atkvæða, svipað og skoðanakannanir segja um þessar mundir, þarf hann að semja við eina fulltrúa Framsóknarflokksins um meirihluta í borginni. Teljið þið ekki líklegt, að Framsókn vilji sama mynztrið og hefur gefið henni svo margt feitt hjá ríkinu?

Ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokknum tekst ekki að semja um stjórn borgarinnar á Sjálfstæðisflokkurinn líklega kost á að semja við Frjálslynda flokkinn, sem verður þá aftur búinn að ná inn Ólafi F. Magnússyni, er einu sinni var í Sjálfstæðisflokknum og vill aftur komast í hlýjuna.

Allar líkur benda til, að Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki hreinum meirihluta, en hafi tvo möguleika á samstarfi, þar sem hann er yfirgnæfandi sterki aðilinn. Þar með verður Vilhjálmur eða Gísli Marteinn borgarstjóri eða einhver annar galdrakarl, sem flokkurinn telur munu gefa þessa niðurstöðu.

Þetta er ástæðan fyrir því, að hrun Reykjavíkurlistans mun færa Sjálfstæðisflokknum Reykjavík á silfurfati. Við því var ekkert að gera, listinn hafði staðið sig svo illa, að engin leið var að halda uppi stemmningu fyrir honum. Það var gustukaverk hjá Vinstri grænum að veita honum náðarhöggið.

Úti í kuldanum verða Vinstri grænir og Samfylkingin og sá þriðji aðili, sem nær ekki samkomulagi við Sjálfstæðisflokk. Það var alltaf sérkennilegt að hafa Framsókn innanborðs í Reykjavíkurlistanum. Það hélzt svo einkum fyrir harðfylgi Alfreðs Þorsteinssonar, sem tók ekki mark á flokkseigendum.

Þótt Samfylkingin og Vinstri grænir verði úti í kuldanum á næsta kjörtímabili í Reykjavík, eiga þessir flokkar nokkra möguleika á að ná meirihluta í landstjórninni ári síðar. Það stafar af sömu ástæðunni og tapið í borginni. Menn verða orðnir jafnleiðir á ríkisstjórnnni og borgarmeirihlutanum.

Í stórum dráttum gildir sami vandinn um ríkisstjórnina og um Reykjavíkurlistann. Hvor tveggja er búinn að vera of lengi við völd. Eðli lýðræðis er að skipta út seint og um síðir.

DV