Frábært er, ef ríkisstjórnin lætur verða af hugmyndum sínum um að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra. Sjálfur er hann mesti vandræðagripur, hefur þindarlaust þanið út embættið. Nú er kominn tími til að skera niður stórveldisdraumana. Einkum sérsveitir og leyniþjónustu hans. Mikilvægt er einnig að leggja landhelgisgæzluna undir varnarmálastofnun og losna þar með við stjórnunarvanda gæzlunnar. Sparnaður í ríkisrekstri er stundum ekki bara grátur og gnístran tanna. Stundum er hann þjóðinni til velfarnaðar. Svo getur orðið að þessu sinni, einkum með afnámi embættis ríkislögreglustjóra.
