Niðurgreidd áróðursrit

Greinar

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi sínu, að dagblöð stjórnmálaflokkanna verði áfram á framfæri skattborgaranna. Öll dagblöðin nema Dagblaðið eiga á næsta ári að skipta á milli sín 40 milljón króna herfangi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir, að sérstök nefnd stjórnmálaflokkanna skipti fengnum. Má gera ráð fyrir, að skiptingin verði áfram svipuð því, sem verið hefur að undanförnu.

Nokkur hluti fjárins hefur verið notaður til að kaupa stafla af Morgunblaðinu, Vísi, Tímanum, Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu. Annar hluti hefur verið notaður til að styðja kjördæmisblöð stjórnmálaflokkanna. Og stærsti hlutinn hefur svo verið notaður til beins stuðnings við Morgunblaðið, Vísi, Tímann, Þjóðviljann og Alþýðublaðið.

Í sumum tilvikum hafa þingflokkarnir úthlutað þessu fé til dagblaða sinna sem hreinum styrk. Í öðrum tilvikum hafa verið búnir til reikningar fyrir auglýsingar eða aðra þjónustu, sem flokksblöðin veita flokkum sínum.

Líta má á þetta fé sem eins konar niðurgreiðslur á illa seljanlegri vöru, hliðstæðar niðurgreiðslum á afurðum landbúnaðarins. Þeim mun færri sem kæra sig um að kaupa einlitan áróður flokksblaðanna, þeim mun meira er ætlazt til, að skattgreiðendur borgi.

Alþýðublaðið gaf nýlega til kynna í leiðara, að meira þyrfti til en 40 milljón króna fenginn. Sagði blaðið, að dagblaðastyrkir væru enn hærri í Noregi og Svíþjóð. Blaðið gat þess ekki, að þar í löndum fara styrkirnir ekki eftir því, hvaða stjórnmálaskoðun blöðin hafa eða hvort þau eru háð eða óháð.

Alþýðublaðið gat þess heldur ekki, að Danir hafa hingað til verið lausir við alla styrki til dagblaða, jafnvel þótt jafnaðarflokkur hafi oftast verið við völd í Danmörku á undanförnum áratugum.

Dagblaðið hefur algera sérstöðu íslenzkra blaða, er það eitt þiggur ekki fé úr sjóði skattborgaranna. Þetta spillir náttúrlega samkeppnisaðstöðu Dagblaðsins gagnvart hinum blöðunum, sem öll eru að meira eða minna leyti á ríkisjötunni.

Vinir Dagblaðsins geta hins vegar bætt því upp þennan aðstöðumun með því að hvetja náungann til að kaupa blaðið og auglýsa í því. Í staðinn geta menn treyst því, að Dagblaðið sé ekki á mála hjá neinum stjórnmálaflokkanna.

Athyglisvert er, að milljónastyrkurinn til dagblaða flýgur í gegn á hverju þingi, án þess að einstakir þingmenn mótmæli honum af neinni alvöru. Og heilir stjórnmálaflokkar, sem þykjast vera andvígir útþenslu ríkisbáknsins, láta sér þennan styrk vel líka.

Blöð Sjálfstæðisflokksins fá stærstu sneiðina af blaðastyrknum. Þess vegna er flokkurinn ekki á móti útþenslu báknsins á þessu sviði. Atriði eins og þetta þurfa menn að hafa í huga, þegar þeir furða sig á, að flokkur, sem segist vera á móti bákninu, er í rauninni höfuðflokkur báknsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið