Veitingahúsin eru eitt bezta dæmið um, að í New York mætast allar þjóðir heims. Af 10.000 matstöðum á Manhattan er aragrúi af erlendum uppruna. Þar er hægt að fara hringferð um hnöttinn án þess að gera annað en sækja veitingastofur. Og það ætlum við einmitt meðal annars að gera í þessum kafla um eina 40 úrvals-matsali.
Þar sem sérgrein New York er hin ýmsa svæðamatreiðsla Bandaríkjanna og matargerð rómönsku Ameríku, látum við hana að sjálfsögðu ganga fyrir asískri og evrópskri matreiðslu, sem einnig er unnt að kynnast í öðrum borgum, svo sem London.
Að öðru leyti er leiðsögnin svipuð og í fyrri bókum þessa flokks. Fyrst er getið uppáhaldsstaða okkar og matargerðarmusteranna, síðan nokkurra fagurra og dýrra veitingasala, þá steikhúsa og annarra bandarískra matstofa, svo rómansk-amerískra og annarra frá enn fjarlægari stöðum, og klykkjum síðast út með delis og diners, pizzum, hamborgurum og pylsum.
Kannanir sýna, að New York búar fara út að borða þriðja hvern dag að meðaltali, enda þarf mikil viðskipti til að halda uppi 10.000 matstofum. Margir þeirra kunna vel að meta góðan mat, svo að mikið er af prýðilegum veitingastöðum í borginni, þótt líka sé töluvert af lélegum og ómögulegum.
Verðið, sem hér er skráð, er miðað við þriggja rétta veizlumáltíð með tiltölulega ódýru víni og kaffi á eftir að kvöldlagi. Þannig eru allir salir metnir á sambærilegu verðlagi. Auðvitað geta menn fengið sér einn rétt og bjór fyrir miklu minna verð, til dæmis í hádeginu.
Í grófum dráttum eru stofurnar í fjórum verðflokkum. Hinar ódýrustu hafa verðlag pizzu-, hamborgara-, deli-, diner- og kínverskra staða. Þar kostaði veizlan fyrir tvo USD 30-50. Næst er meðalflokkurinn, skipaður flestum þjóðlegu húsunum, þar sem veizlan kostaði USD 60-80 fyrir tvo.
Í þriðja lagi koma svo dýru salirnir með USD 100-120 veizlu fyrir tvo og loks hinir ofsadýru, þar sem tveggja manna veizlan fór í USD 140-180, sem er jafnvel dýrara en á Íslandi.
Oyster Bar
Vildarstaður okkar og gamall kunningi frá hverri einustu heimsókn er Oyster Bar niðri í kjallara aðaljárnbrautarstöðvarinnar, Grand Central. Hann er tvímælalaust bezti sjávarréttasalur borgarinnar, enda er hráefnið hvergi ferskara né varfærnislegar eldað.
Yfir gluggalausum salnum eru víðar hvelfingar, skreyttar ljósaperum eins og síkisbrýr í Amsterdam. Þó minnir salurinn fremur á neðanjarðarbrautarstöð í París. Gólfið og hvelfingarnar eru lagðar flísum, sem gera salinn hljóðbæran og hávaðasaman, einkum þegar hann er sneisafullur í hádeginu. En hávaðinn rennur saman í samfelldan klið, sem minnir helzt á baktjaldatónlist.
Þeir, sem ekki þola þennan frábæra merkisbera bandarískrar byggingarlistar veitingahúsa, geta fengið góðu sjávarréttina á rólegri stað í Saloon Room. Milli þessara tveggja sala er bar, þar sem fólk sötrar Manhattan, meðan það bíður eftir borði.
Þjónustan er hraðvirk og örugg, alúðleg og blátt áfram að ítölskum hætti. Þar á ofan vita þjónarnir vel um matinn og matreiðsluna, sem þeir eru að bjóða. Þeir vita til dæmis nákvæmlega, hverjar eru hvaða ostrur og skeljar af tíu-sextán tegundum, sem á boðstólum eru.
Við höfum að sjálfsögðu prófað bandarísku ostrurnar, sem eru öðruvísi en hinar evrópsku. Þær eru Apalachicola, Maine Belon, Bluepoint, Box, Bristol, Chatham, Chincoteague, Cotuit, Golden Mantle, Kent, Malpeque, Maine Marenne, Wellfleet og Westcott Bay.
Þær eru seldar í stykkjatali og kosta USD 1,05-1,85 stykkið. Skeljarnar eru Little Neck og Cherrystone á USD 1 stykkið.
Ostrurnar hafa alltaf reynzt ferskar, svo og humarinn, sem er lifandi til sýnis í stóru glerbúri og seldur eftir vog, á USD 18 pundið. Þriggja punda humar er meðalstór og hæfir tveimur í aðalrétt. Er hann þá ristur eftir endilöngu og beztur snögggrillaður. Munið, að klærnar eru ljúffengastar.
Beztir eru þó fiskréttirnir. Sjálfar fisktegundirnar hafa aldrei verið færri en tuttugu á boðstólum, þegar við höfum verið hér, allar ferskar og raunar nýveiddar, engin fryst. Oyster Bar notar blessunarlega hvorki frystikistu né örbylgjuofn, sem út af fyrir sig eru nytsamlegir hlutir, en mega ekki koma nálægt fiski.
Gestirnir velja sjálfir matreiðsluaðferðina. Skynsamlegast er að biðja um einfalda meðhöndlun, sem hentar góðfiski, fremur en flókna, sem hentar afgangsfiski. Grillun og gufusuða er okkar uppáhald á Oyster Bar. Við höfum prófað bláfisk (bluefish), glefsara (red snapper) og steinbít (catfish), karfa (perch) og bassa (grouper) og getum ekki gert upp á milli þeirra. Flestir fiskréttirnir kosta USD 17-20.
Hin sérgreinin felst í bandarískum hvítvínum. Af þeim hefur Oyster Bar um 120 tegundir á boðstólum, allar á mjög hóflegu verði miðað við almennan markað. Þar á meðal eru mörg fágæt og eftirsóknarverð vín, en engin, sem ekki geta talizt mjög góð.
Miðjuverð þriggja rétta málsverðar með víni var USD 94 fyrir tvo.
(Oyster Bar, Grand Central Station, sími 490 6650, lokað laugardaga og sunnudaga, E3)
Russian Tea Room
Hinn óskastaðurinn er Russian Tea Room, næsti nágranni Carnegie Hall við vestanvert 57. stræti. Hann er sérkennilega búinn eins og Oyster Bar, en býr ekki yfir eins fínlegri matreiðslu. Hins vegar er stemningin svo sérstök og evrópsk, að slíka höfum við ekki séð vestan hafs.
Russian Tea Room var stofnað 1926 af félögum keisaralega rússneska balletflokksins, sem varð innlyksa í New York í sovézku byltingunni. Veitingahúsið hefur æ síðan verið áningarstaður listamanna, einkum þeirra, sem koma fram hverju sinni í Carnegie Hall. Á síðari tímum einnig hins svokallaða fræga fólks, svo sem Nureyevs, Bernsteins, Belafontes, Albees og svo framvegis. Slíkir staðir bjóða yfirleitt vondan mat, en þessi er ein af fáum undantekningum reglunnar.
Matsalurinn er rauður, grænn og gylltur, þungt hlaðinn margs konar skarti, þar á meðal jólaskrauti, sem aldrei virðist tekið niður. Málverkin eru óteljandi og hvert úr sinni áttinni. Þá eru ótal speglar, ljósakrónur, gljáandi tehitunarvélar að rússneskum hætti, svo og klukkur, sem sýna allar misjafnan tíma. Kraðakið er svo smekklaust, að það er fallegt!
Ef fólk vill sitja hér, verður það að taka fram við pöntun, að það vilji ekki fara til Síberíu. Það er óopinbert nafn salarins á efri hæðinni. Þar er rólegra að vera og þar er ekkert af fræga fólkinu. Á báðum stöðum veita rússneskt klæddir þjónar góðan beina.
Fyrst fær fólk sér vodkaglas. Síðan pantar það sér blini-pönnukökur með kavíar af tegundunum beluga, oscietre eða sevruga, og skolar þessu niður með frönsku kampavíni. Kavíarinn er borinn fram í glerskálum á ís, ein únsa eða tæp 30 grömm í glasinu og verðið USD 34-42. Hann gefur munaðinn og rússnesku pönnukökurnar fyllinguna. Þær eru bornar fram með smjöri og léttsýrðum rjóma og eru sérstaklega góðar hér.
Annar ágætis rússaréttur og ekki aðalsættar, heldur bændaættar er borsjt, matarmikil súpa með rauðrófum, gulrótum, kartöflum og öðru grænmeti, einnig eitt af því, sem Russian Tea Room getur verið stolt af. Ýmsir fleiri rússnesskir réttir eru fáanlegir og er þeim lýst á matseðlinum.
Ólíkt öðrum góðum veitingahúsum borgarinnar er staðurinn opinn alla daga vikunnar.
Miðjuverð málsverðar var USD 116 fyrir tvo.
(Russian Tea Room, 150 West 57th Street, milli 6th og 7th Avenues, sími 265 0947, opið alla daga, F2)
Lutece
Nú er röðin komin að matarmusterunum tveimur. Hið fremra þeirra og hið eina í Bandaríkjunum, sem getur att kappi við allra beztu veitingahús Frakklands, er Lutece. Það leynir á sér niðri í illa merktum kjallara nálægt Sameinuðu þjóðunum, milli 2. og 3. strætis.
Flest borðin eru í björtum glerskála að húsabaki, önnur í tveimur litlum herbergjum uppi á hæðinni. Allt er innréttað að frönskum hætti. Í skálanum eru pálmatré, flísagólf, múrsteins-hálfsúlur og smágert tígla-grindverk undir glerþaki.
Hinn heimskunni meistarakokkur, André Soltner frá Alsace í Frakklandi, á þetta musteri, kunnur af því að vera aldrei á fyrirlestraferðum, heldur alltaf á staðnum, gestum sínum til geðs. Kona hans tók afar alúðlega á móti okkur og sjálfur kvaddi hann okkur eins og gamla vini. Auk þess heimsótti hann alla matargesti og ræddi stuttlega við þá, jafnt þá, er hann þekkti, og okkur hina, sem voru þarna í fyrsta sinn.
Geðþekkni þeirra hjóna endurspeglast í þjónustu staðarins. Hinir frönsku þjónar eru jafn alúðlegir við alla, tala frönsku sín á milli, en ágæta ensku við gestina. Okkar þjónn las upp matseðilinn á rólegri ensku, svo að skilja mátti. Hann sinnti okkur mjög vel og var hvorki hofmóðugur upp á frönsku né kumpánlegur upp á amerísku. Þægilegri þjónustu er tæpast hægt að fá í neinu hliðstæðu musteri í Frakklandi.
Mun dýrara er að borða kvöldverð en hádegisverð. Fastur átta smárétta kvöldverður kostaði USD 60, svipað og þrír réttir af matseðli, en þriggja rétta hádegisverðurinn USD 35. Í bæði skiptin stjórnar Soltner matreiðslunni. Hádegisverðurinn hefur auk þess þann kost, að hann þarf ekki að panta með margra vikna fyrirvara eins og kvöldverðinn.
Í okkar hádegi mátti velja milli 23 forrétta, þriggja aðalrétta og ellefu eftirrétta á föstu USD 35 verði. Við prófuðum frábæra artistokka og mjög góða villibráðarkæfu, fengum fína kræklingasúpu að auki, síðan sérstaklega gott, fyllt lambalæri og loks annars vegar mjög góða stikilsberjatertu og hins vegar nákvæmlega rétt þroskaða osta frá Frakklandi. Allir réttirnir voru fallega upp settir og bragðmildir á nýfranska vísu.
Með þessu fékkst hið kunna Chateau Brane-Cantenac 1979 rauðvín á viðráðanlegu verði. Það var á stuttum lista hagkvæmnisvína, en auk þess mátti fá fokdýr vín af löngum lista.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 132 í hádegi, 160 að kvöldi. Eurocard og Visa eru ekki tekin gild.
(Lutece, 249 East 50th Street, austan 2nd Avenue, sími 752 2225, lokað sunnudaga og í hádegi á laugardögum, E/F4)
Cote Basque
Hinn meistarakokkurinn á Manhattan, Jean-Jacques Rachou, á afar fallegan veitingastað, Cote Basque, í hjarta miðborgarinnar.
Bezt er að biðja um borð í aðalsalnum að baki eldhúsganginum. Þar er hlýlegt og bjart, nóg rými milli borða með fögrum búnaði. Litir eru skarpir, ljósir veggir milli dökkra bita. Salurinn einkennist af stórum lágmyndum eftir Bernard Lamotte af höfninni í Saint-Jean-de-Luz.
Þjónustan er afar góð og veitti okkur nytsamleg ráð í matarvali. Glaðværum gestum leið greinilega vel, enda var yfirþjónninn á stöðugum þönum við að fylgjast með, að allt væri í lagi á hverjum stað.
Eins og Lutece er Cote Basque miklu dýrari á kvöldin en í hádeginu, þegar boðið er upp á þriggja rétta málsverð á USD 27. Þá er valið milli um 20 forrétta, um 20 aðalrétta og fjögurra eftirrétta.
Með aðstoð þjónsins völdum við annars vegar frábæra sjávarrétta-kastarholu með saffran og góða kæfu hússins. Síðan mjög góðan mjólkurlambageira og turnbauta með Bordelaise-sósu. Og loks frábæra marens-tertu með skógartíndum jarðarberjum og rjóma.
Raunar gildir um Cote Basque eins og Lutece, að marklaust er að benda lesendum á sérstaka rétti, því að yfirleitt er allt gott. Fólk á því bara að velja það, sem því lízt bezt á. Fara verður varlega í vali víns, því að flest eru dýr.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 110 í hádegi og USD 140 að kvöldi.
(La Cote Basque, 5 East 55th Street, milli 5th og Madison Avenues, sími 688 6525, lokað sunnudaga og í hádeginu á laugardögum, F3)
Four Seasons
Þá víkur sögunni að glæsistöðunum tveimur. Four Seasons er af mörgum talið fegursta veitingahús borgarinnar, teiknað af hinum heimskunna arkitekt, Philip Johnson skýjakljúfa-sérfræðingi, með stuðningi hins enn þekktari Mies van der Rohe, er teiknaði sjálfan skýjakljúfinn, sem veitingastaðurinn er í, Seagram-turninn.
Gengið er upp á aðra hæð, farið um gang með risastóru Picasso-málverki, framhjá Grill Room, sem er kunnasti staður viðskipta-hádegisverða í borginni, inn í Pool Room, þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Fyrir gluggum bærast þúsundir málmþráða í léttum andvara. Borðum er lýðræðislega og rúmt skipað á alla vegu umhverfis tjörn í miðjum sal.
Four Seasons er einn af þessum stöðum, þar sem á hverju strái eru þjónar af ýmsum gráðum, sem hver hefur sínu hlutverki að gegna. Enda er þetta einn af allra dýrustu veitingasölum borgarinnar.
Í samræmi við nafn staðarins er skipt um búnað, matseðla, plöntur og þjónsbúninga fjórum sinnum á ári, að hausti, vetri, vori og sumri.
Matseðillinn er snyrtilega saminn í Macintosh-tölvu. Af honum völdum við í forrétt annars vegar kræklinga í karrí með papaya og mangó og hins vegar afar gott, hrásteikt og meyrt dúfubrjóst.
Með aðalréttunum fengum við annars vegar góða sveppi í sítrónusafa og piparsósu og hins vegar mjög gott spínat, saxað og hitað við borðið, borið fram með rjómasósu. Aðalréttirnir sjálfir voru meyr, en bragðdauf filet mignon nautasteik og afar góð kálfasneið, bleiksteikt, borin fram með góðu krabbamauki í artistokkabotni.
Hápunkturinn var svo stoltarterta hússins, sem trónaði efst á eftirréttavagni, afar fallega gerð og enn betri á bragðið.
Matreiðslumeistarinn Seppi Renggli er mikils metinn, en reyndist okkur þó standa að baki hinum tveimur, sem áður er getið í þessum kafla. Réttir hans voru misjafnari að gæðum, sumir mjög góðir, aðrir bara góðir.
Miðjuverð var USD 174 fyrir tvo.
(Four Seasons, 99 East 52nd Street, milli Park og Lexington Avenues, sími 754 9494, lokað laugardagskvöld og sunnudaga, F3)
Ambassador Grill
Hinn glæsisalur borgarinnar er speglasalurinn í kjallara UN Plaza hótels andspænis höll Sameinuðu þjóðanna. Staðurinn er eitt allsherjar speglaverk. Varla er til óspeglaður flötur, nema gólfin. Í veggjum eru stórir speglar og litlir í loftum. Þannig teygist salurinn til allra hliða og endalaust upp til himna. Þetta er engu líkt, ekki einu sinni speglaverkinu á Grand Véfour í París, sem að vísu er fegurra.
Þjónusta og matur er hvort tveggja mjög gott, betra en í Four Seasons, og er Ambassador Grill þó mun ódýrari. Þar er fast verð á mat, USD 24 á mann. Þegar við sóttum staðinn, var boðinn fastur seðill fransks gestakokks og var þar val milli nokkurra rétta í hverjum lið. Auk þess var kostur á seðli hússins, þar sem valið var hliðstætt.
Við völdum í forrétti gott laxa- og lifrarsalat á grænum beði og ágætt lagskipt humarfrauð. Í aðalrétti góða humarköku, vafna í soðið hvítkál, og lítið steikt andabrjóst, afar skrautlega fram borið. Góður spergill fylgdi hvoru tveggja. Í eftirrétti jarðarber með rjóma og eins konar Napóleons-köku með hindberjum í lögum.
Miðjuverð var USD 100 fyrir tvo.
(Ambassador Grill, UN Plaza Hotel, 44th Street og 1st Avenue, sími 702 5014, opið alla daga, E4)
Windows on the World
Útsýnisveitingasalir í skýjakljúfum eru yfirleitt lélegir matsalir, því að útsýnið er látið koma í stað matargerðarlistar. Á slíkum stöðum er skynsamlegast að borða ekki, heldur skreppa aðeins á barinn og njóta útsýnisins fyrir verð eins drykkjar, — brot af verði máltíðar. Þannig er til dæmis kjörið að kíkja inn á barinn á Top of the Sixes.
Skemmtileg undantekning frá þessari reglu er Windows on the World í nyrðri turni World Trade Center. Þar ræður ríkjum ágætis matargerðarlist, þrátt fyrir útsýnið. Veitingasalirnir eru þrír, The Restaurant, Cellar in the Sky og Hors d´Oeuvrerie.
Aðalveitingasalurinn snýr til austurs yfir Brooklyn og norðurs yfir miðbæ Manhattan. Bezt er að biðja um borð með útsýni norður til Midtown, koma nógu snemma til að sjá borgina í björtu og taka kvöldmáltíðina síðan rólega fram í myrkur og ljósadýrð skýjakljúfanna. Sumir telja þetta eitt merkasta útsýni veraldar.
Við prófuðum í forrétti sæmilega sjávarréttasúpu og góðan, grænan spergil, í aðalrétti góða, hrásteikta piparsteik og mjög gott, hrásteikt dádýrakjöt, og í eftirrétti appelsínufroðu og heslihnetuköku. Og komumst að raun um, að fleira væri við staðinn en útsýnið eitt.
Miðjuverð var USD 110 fyrir tvo.
(Windows on the World, 1 World Trade Center, 107. hæð, sími 938 1111, opið alla daga, A4)
Cellar in the Sky
Ódýrast er að borða á sömu hæð í World Trade Center á Hors d´Oeuvrerie, sem snýr til suðurs yfir sundin og er því kjörið til að fylgjast með undirleik jazzhljómsveitar með sólarlagi á fögrum aftani.
Dýrast er að borða í hinum litla, 36 sæta Cellar in the Sky, þar sem útsýnið er raunar lítið annað en rekkar af flöskum. Samt er hann hinn fegursti og notalegasti af sölunum þremur. Útsýnið fá matargestir af barnum City Lights.
Cellar er eins konar matargerðarmusteri, þar sem gestir setjast allir á nokkurn veginn sama tíma kl. 19:30 að kvöldi að langvinnum, fjögurra stunda og sjö rétta málsverði, þar sem sérstakt vín fylgir hverjum rétti. Allt er innifalið í matarverðinu.
Þrír kunnir kokkar skiptast á um að matreiða tvær vikur í senn. Þetta er einn beztu matstaða borgarinnar. Panta þarf borð með löngum fyrirvara.
Verð fyrir tvo var USD 170.
(Cellar in the Sky, 1 World Trade Center, 107. hæð, sími 938 1111, lokað laugardaga, A4)
Palm
Þykkar nautasteikur af grilli eru svo bandarískt fyrirbæri, að engin umsögn um veitingahús Manhattan er fullnægjandi án þess að fjallað sé um steikhús borgarinnar. Annað tveggja hinna beztu er Palm í nágrenni hallar Sameinuðu þjóðanna.
Palm er síður en svo fínlegur staður. Gólfið er þakið sagi og veggirnir skrípamyndum af kunnum blaðamönnum. Sérstaklega hávaðasamir karlmenn fylla salina tvo á neðri og efri hæð. Vinsælla er að fá borð á neðri hæðinni. Það er hægt að panta í hádeginu, en ekki er tekið við kvöldverðarpöntunum.
Til skamms tíma komu konur alls ekki í þennan helgidóm karlmanna, en nú hafa manhattanskar blaðakonur gert hann að stammbúlu sinni. Að öðru leyti er Palm sem fyrr einkum matstaður kaupsýslumanna og blaðamanna, jafnan yfirfullur af gestum.
Enginn matseðill er á boðstólum. Í þess stað romsa kærulausir þjónarnir upp úr sér hinu litla, sem þeir muna af framboði staðarins. Það skiptir að vísu engu, því að menn panta sér grillaðan humar eða humarsalat í forrétt, örugglega grillaða sirloin eða filet mignon í aðalrétt og hugsanlega ostaköku á eftir. Annað er út úr kortinu.
Við prófuðum einmitt ágætt humarsalat í forrétt og góða, rosalega stóra sirloin-steik í aðalrétt og sannfærðumst enn einu sinn um, að það, sem Bandaríkjamenn kalla hrátt, er í rauninni meðalsteikt á franska vísu. Fyrirtaks Cabernet Sauvignon frá Mondavi var vín hússins.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 120.
(Palm, 837 2nd Avenue við 44th Street, sími 687 2953, lokað sunnudaga og í hádegi á laugardögum, E4)
Christ Cella
Hitt góða steikhúsið er Christ Cella, borið fram “Krissella” á manhattönsku, á svipuðum slóðum og Palm, en þó nær Grand Central. Það er mun fínlegra en Palm og hefur fleiri konur að gestum, en býður í stórum dráttum sama mat, sömu matreiðslu og sama verð.
Christ Cella er á tveimur hæðum í nokkrum litlum herbergjum, einfalt í sniðum, en ekki með sagi á gólfi eða kroti á veggjum. Neðri hæðin er betri. Þjónarnir eru miklu kurteisari en í Palm og muna meira af framboði staðarins. Það skiptir að vísu ekki máli hér, því allir kalla “Lobster salad, grilled sirloin medium rare, cheesecake, please”.
Í stað humarsalats prófuðum við mjög gott krabbasalat og gott rækjusalat. Með steikunum fengum við annars vegar gott Caesarsalat og hins vegar fyrirtaks tómatsalat. Við prófuðum að gamni bæði filet mignon og sirloin steikur og fannst filet mignon betra. Það var meyrara, nánast eins og smjör og alveg jafn bragðmikið og sirloin-steikin. Alveg eins og í Palm voru steikurnar hnausþykkar og víðáttumiklar, nægilegar til viku viðurværis. Samt bað enginn gestanna um “doggy bag”.
Með steikum af þessu tagi er tilvalið að drekka kalifornísk rauðvín. Við vorum heppin, er við völdum Simi Cabernet Sauvignon frá Alexander Valley.
Miðjuverð var USD 120 fyrir tvo.
(160 East 46th Street, milli Lexington og 3rd Avenues, sími 697 2479, lokað sunnudaga, E4)
American Place
Bandarískur matur í nýfrönskum stíl hefur verið í tízku á Manhattan í nokkur ár. Tízkan felst í, að teknar eru gamlar ömmu-uppskriftir frá ýmsum héruðum landsins og lagaðar að hinni léttu nútímamatreiðslu, sem átti uppruna sinn í Frakklandi um og upp úr 1970. Þannig hefur mörgu gömlu og góðu verið bjargað frá gleymsku, alveg eins og þegar gömlum og góðum húsum er bjargað frá rifi með því að innrétta þau til nútímanota.
Helzta matargerðarmusteri þessarar stefnu er hið rándýra veitingahús An American Place í hinu auðuga Upper East Side hverfi. Það á matreiðslumeistarinn Larry Forgione, sem áður gerði garðinn frægan á River Cafe, meðan það var og hét.
Bleikur salurinn er einfaldur og menningarlegur, svo og notalegur eins og þjónarnir, sem útskýra í smáatriðum, hvernig hver réttur er hugsaður og framinn, svo og hvaðan hann er upprunninn. Þeir kunna líka að útskýra, hvers vegna þeir telji þetta rauðvínið henta betur en hitt með hinum útvalda aðalrétti.
Fast verð er á málsverði í American Place. Fyrir það er hægt að velja milli um átta forrétta, átta aðalrétta, átta eftirrétta og amerískra osta af bakka.
Í forrétt prófuðum við ágætan Maine humar með blaðlauk, hvort tveggja grillað, borið fram með ristaðri papriku í vínigrettu. Í aðalrétti fengum við annars vegar góðan innanlærisvöðva af vorlambi með lambakjötssoði og kartöflustöppu. Hins vegar frábæra, kryddlegna og grillaða kornhænu með kartöflustöppu og smurðum sykurbaunum. Í eftirrétt prófuðum við Banana Betty, sem reyndist vera sérstaklega ljúf og létt vanillusósa með banönum og skorpu úr púðursykri og brauðmylsnu. Amerísku ostarnir voru flestir góðir geitaostar.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 180, hið hæsta í þessari bók.
(An American Place, 969 Lexington Avenue milli 70th og 71st Streets, sími 517 7660, lokað sunnudaga, H4)
Odeon
Annar, mun ódýrari matsalur af þessu nýbandaríska tagi, en samt dýr, er Odeon í gamalli kaffistofuinnréttingu suður í hinu nýlega listamannahverfi TriBeCa. Það er líka hressilegri staður, einkum seint á kvöldin og eftir miðnætti, þegar hátízku-listafólkið mætir í ræflarokkstuði, gult og rautt og blátt. Þá er hér setinn bekkurinn, mannhaf á barnum og mikið um að vera.
Í hádeginu er yfirbragðið annað, rólegra og hversdagslegra, þegar matvísir bankamenn koma frá hinu nálæga Wall Street, þar sem hvergi er hægt að fá mat, sem jafnast á við þennan.
Ritað hefur verið, að tízkumatstofum sé skylt að bjóða skítafæðu. Sé maturinn góður, muni verða talið, að fólk troðist inn vegna matarins, en ekki til að glápa á frægðarliðið. Slíkt muni skerða sjálfsálit og sjálfstraust frægðarliðsins.
Kunnasti staður af því tagi á Manhattan er Elaine, þar sem Woody Allen situr nánast daglega og nýtur þess að láta ferðamenn horfa á sig borða óþverramat, sjálfur í sælli vissu þess, að ferðamennirnir séu að horfa á hann og ekki að hugsa um matinn eða ónotalegheitin í kerlingunni, sem á staðinn.
Samkvæmt þessu felast mistök Odeon í að hafa ráðið ágætan matreiðslumann, Patrick Clark, til að framreiða meistaramat að ný-bandarískum hætti. Sömuleiðis hlýtur frægðarliðið að eiga eftir að átta sig á, að maturinn er góður. Þegar það gerist, hlýtur Clark að verða rekinn.
Erfitt er að benda á sérstaka rétti í Odeon, því að ört er skipt um matseðil. Gáið að sniglum, kræklingi og ostrum, ferskum fiski, kálfa- og kjúklingalifur, jafnvel nautasteikum.
Miðjuverð var USD 100 fyrir tvo.
(The Odeon, 145 West Broadway við Thomas Street, sími 233 0507, opið fyrir matarpantanir til 02:30, lokað í hádegi á laugardögum, A3)
Tastings I
Nú finnst flestum sjálfsagt tímabært að bókarhöfundar flytji sig af dýru veitingahúsunum til þeirra, sem bjóða mat á því meðalverði, sem gildir á Manhattan. Og svo vel vill til, að einmitt eitt beztu veitingahúsanna, sem bjóða áðunefndan ný-bandarískan mat, er einmitt í þeim flokki. Það er Tastings I, vel í sveit sett í miðbænum.
Staðurinn er lítill og langur og grænleitur, einkar notalegur, að nokkru leyti slitinn sundur af löngum borðvínsbar og rekkum með flöskum frægra borðvína. Einn vegghlutinn er klæddur trégöflum kassa utan af heimskunnum vínum.
Hvítvín og rauðvín eru einmitt sérgrein hússins. Vínlistinn spannar 290 tegundir, flestar sérstaklega vel valdar. Af þeim er hægt að fá hverju sinni um 24 tegundir í glasavís, bæði í 5 únzu glösum og 3 únzu glösum fyrir smakkara. Glasið af hinum síðarnefndu kostaði yfirleitt um USD 2,25. Þetta er kjörinn staður til að reyna sum af hinum frægu góðvínum Kaliforníu, sem sjást svo sjaldan í Evrópu.
Matseðillinn er stuttur. Af honum prófuðum við í forrétti ágæta tómat- og sveppasúpu, svo og jafngóða smjördeigsbollu með hörpufiskjafningi. Í aðalrétti mjög gott salat kokksins með tómat-, krabba- og kartöflubitum í sósu, svo og sæmilegar gular hveitilengjur með papriku-, rækju- og hörpufiskbitum. Á eftir fengum við frábæra osta með kexi og ávöxtum.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 76.
(Tastings I, 144 West 55th Street milli 6th og 7th Avenues, sími 757 1160, lokað sunnudaga, F2)
Texarkana
Röðin er komin að svæðisbundnu veitingastöðunum, er bjóða mat frá þeim héruðum, sem hafa búið við sérkenni í matargerðarlist. Eitt svæðanna er Texas, þar sem orðið hefur til sérstök matreiðsla, er byggist á mexikönskum grunni og er með bandarísku ívafi.
Texarkana er bezti fulltrúi þessarar matreiðslu á Manhattan. Það er stórt veitingahús í Greenwich Village, skammt norðan við Washington Square. Að innan eru kúrekakrár lítillega stældar, svo sem með innanhússvölum. Þar uppi eru borð, en aðallega er þó snætt niðri.
Ekkert kúrekalegt er við bleika veggi né borðbúnað, hvíta dúka og munnþurrkur, né heldur við elskulega þjónustu. Að flestu leyti er þetta hinn notalegasti staður, ef til vill of virðulegur rammi utan um hina bragðsterku og ákveðnu matreiðslu.
Við prófuðum í forrétt gumbo, hina frægu súpu Mexikóflóasvæðisins. Þetta var bragðsterk, krassandi og seðjandi okrafræbelgja- , hrísgrjóna- og kjúklingasúpa, krydduð með lárviðarberki. Ennfremur kryddlegnar og léttsoðnar rækjur, sérkennilega skemmtilegar á bragðið.
Annar aðalrétturinn var hinn kunni “stolni svartfiskur”. Að þessu sinni var það sjóbleikja, sem var þakin þykkri kryddblöndu og brennd á pönnu, svo að úr varð stökk og bragðsterk skorpa utan um mjúkan fiskinn. Þetta var skemmtilegur réttur og óvenjulegur.
Hinn aðalrétturinn fólst í “krabbakökum”, einhverjum beztu pönnusteiktu fiskibollum, sem við höfum fengið, bornum fram með tveimur sósum, tartarasósu og sterkri cayenne-eggjasósu. Með aðalréttunum fengum við svartaugnabaunir og “skítug hrísgrjón”, það er að segja blönduð smáum lifrar- og kjötbitum.
Texarkana er nokkuð dýr staður. Miðjuverð var USD 104 fyrir tvo. Visa og Eurocard eru ekki tekin gild.
(Texarkana, 64 West 10th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 254 5800, lokað í hádegi sunnudaga og mánudaga, B1)
Cajun
Cajun er slangur yfir franskættaða landnema, sem fyrst settust að á austurströnd Kanada, en fluttust síðan til New Orleans og Louisiana. Um leið er orðið stundum notað um New Orleans matreiðslu, þótt orðið creole sé raunar oftar notað. Og á Manhattan er hinn ódýri veitingastaður Cajun bezti fulltrúi slíkrar matargerðar.
Cajun er nokkuð stór matsalur sunnarlega í hverfinu Chelsea, nálægt mörkum Greenvich Village. Innréttingar eru einfaldar og á veggjum hanga plaköt, sem minna á Mardi Gras, sprengidag þeirra í New Orleans. Í fyrsta skipti á Manhattan sáum við pappírsþurrkur á borðum alvörustaðar.
Aðalvopn staðarins, þegar við sóttum staðinn, var sjö manna dixie-band, Stanley´s Washboard Kings, sem lék af þrótti fyrir fjörugum og góðglöðum hópum gesta. Dixie-sveitir eru jafnan í Cajun á kvöldin.
Þarna var að sjálfsögðu hægt að fá gumbo og jambalaya, svo og “svartfisk” eins og í Texarkana. Við prófuðum hins vegar í forrétt afar gott creóla-salat, eins konar Caesar-salat á Louisiana-vísu.
Í aðalrétti fengum við okkur fjórar stórar, sprengdar úthafsrækjur með plokkfiskfyllingu og hrísgrjónum, grillaðar og góðar. Einnig góðar, soðnar rækjur, bornar fram með hrísgrjónum og grænmetisjafningi.
Tvær sérgreinar urðu fyrir valinu í eftirrétti. Pecan-hnetutertan var mjög góð og heiti brauðbúðingurinn með viskísósu var skemmtilegur, en líklega sérstaklega fitandi.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 62. Erum við þá loks komin niður í hófsamleg verð í þessum kafla.
(Cajun, 129 8th Avenue við 16th Street, sími 691 6174, lokað í hádeginu á laugardögum, A1)
Carolina
Enn einn markverði suðurríkjastaðurinn er Carolina í leikhúshverfi miðbæjarins. Þótt hann heiti eftir Carolina-ríkjunum, leitar hann fanga víðar í matreiðslu Bandaríkjanna, þar á meðal í heitreykingu suðvesturríkjanna, þar sem maturinn er eldaður afar hægt við mjög vægan hita frá viðarreyk.
Flestir vilja borða í speglasal garðhússins að baki fremri salarins og eldhússins. Þar eru aðeins um tuttugu sæti, en virðast þúsund, því að veggirnir eru alspegla. Þjónustan fellur hinum atvinnulausu leikurum vel úr hendi. Bezt er að fá sæti kl. 20:30, þegar fyrri hópur gestanna er farinn í leikhús og hinn síðari ekki kominn úr því.
Við prófuðum í forrétti eins konar paprikugraut með nautakjötbitum og viðarkolaeldað kjöt á grænmetisbeði, hvort tveggja ágætt. Í aðalrétti fengum við ágætar, rauðpipraðar rækjur og sérstaklega góða sérgrein hússins, heitreykt nautarif að hætti suðvesturríkjanna. Viskívætt rúgkaka með kremi var frábær eftirréttur.
Sérkennilegt var að sitja í glitrandi nýtízkulegum matsal og snæða stóra skammta af sérkennilega groddalegum og þrælkrydduðum mat.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 82.
(Carolina, 355 West 46th Stret, milli 8th og 9th Avenues, sími 245 0058, lokað í hádeginu á laugardögum og sunnudögum, E2)
Sabor
Við yfirgefum nú Bandaríkin og höldum suður álfuna. Fyrst verður fyrir okkur Kúba. Bezti fulltrúi kúbanskar matreiðslu á Manhattan er Sabor, valinkunn og óformleg matarhola, annasöm, hávær og glaðvær, á jazzklúbbasvæðinu í Greenwich Village.
Við fengum í forrétti ágætis gufusoðna kræklinga í saffranblandaðri tómatsósu (zarzuela de mejillones) og enn betri kældan, soðinn graffisk (escabeche). Í aðalrétti prófuðum við afar góðan heilbakaðan bláfisk í grænni, kryddaðri vínsósu (pargo en salsa verde) og sæmilegan kolkrabba með ýmsu kryddi (pulpo a la Sabor). Að lokum snæddum við ferskan ananas og skemmtilega óvenjulegan sérrívættan kókoshnetugraut með kanil og þeyttum rjóma (coco quemado).
Miðjuverð nam USD 72 fyrir tvo.
(Sabor, 20 Cornelia Street, milli Bleecher og West 4th Street, sími 243 9579, opið alla daga, A2)
Rosa Mexicano
Bezta mexikanska matstofan á Manhattan er Rosa Mexicano austast í miðbænum, á mótum hans og Upper East Side, snyrtilega og vandlega innréttaður staður, brúnn og bleikur á litinn, í nútímalegum stíl með veggjaflísum og renndum húsbúnaði. Líta má á hann sem lúxusútgáfu slíks veitingahúss, en verðið er í meðallagi á Manhattan-mælikvarða, þótt þjónustan sé í bezta lagi.
Í annan forréttinn fengum við mexikanska réttinn guacamole, búinn til úr avocados-ávöxtum, lagaðan við borðið, frábæran á bragðið. Hinn var ágætur sítrónuleginn og kryddaður hrár fiskur, ceviche.
Annar aðalrétturinn var ekki síður mexikanskur, enchiladas. Það voru tvær tortilla-maískökur, fylltar kjúklingakjöti og hlaðnar lauk og osti, góður matur. Hinn var ágætis rauð nautasteik í samloku, pepitos, með pönnusteiktum baunum.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 76.
(Rosa Mexicano, 1063 1st Avenue, við 58th Street, sími 753 7407, opinn alla daga, F4)
Brazilian Pavilion
Brazilía á einnig sinn höfuðstað á Manhattan, Brazilian Pavilion á svipuðum slóðum og Rosa austast í miðbænum. Þetta er notalegur salur í grænum og hvítum litum, teppalagður og mildilega lýstur. Þjónusta er afar góð, eins og raunar víðast hvar í veitingahúsunum, sem getið er í þessum kafla.
Við prófuðum ágætt Brazilíu-salatið, sem var með olífum og verulega hvítlaukskryddað, svo og umfangsmikla súpu dagsins. Annar aðalrétturinn var að sjálfsögðu saltfiskur (bacalhau) dagsins, þeyttur í frauð og með vægu saltfiskbragði, borinn fram með góðri baunasósu, fínn matur. Hinn var gott kálfakjöt með snitzel-sniði. Eftirréttirnir voru guava-ávöxtur með osti, svo og kókoshnetumauk með rjóma, hvorir tveggja góðir. Fyrirmyndar Brazilíu-kaffi fylgdi á eftir.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 60, sem er einkar hagstætt.
(Brazilian Pavilion, 316 East 53rd Street, milli 1st og 2nd Avenues, sími 758 8129, lokað sunnudaga, F4)
Sammy´s Rumanian
Nú víkur sögunni að veitingastöðum annarra álfa en Ameríku. Við byrjum á flóttamannastöðum Evrópu og þá verður fyrst fyrir frægasta veitingahús gyðinga á Manhattan. Það er Sammy´s Rumanian Jewish Restaurant niðri í kjallara í fátæklegu gyðingahverfinu Lower East Side, rétt hjá skranmarkaði Orchard Street.
Lágt er til lofts og veggir hlaðnir þreytulegum minjagripum og póstkortum. Að miðevrópskum hætti er oft leikið á píanó og fiðlu, meðan gestir hesthúsa ókjörin öll af fylltum kálbögglum, grillsteikum, kálfabjúgum og kartöflu-pönnukökum.
Miðjuverð er USD 80 fyrir tvo.
(Sammy´s Rumaninan, 157 Chrystie Street við Delancey Street, sími 673 0330, lokað í hádeginu, C3)
Ballato
Ítalskir veitingastaðir eru einkennisstaðir New York, en því miður ekki margir í samkeppni um gæði. Hinn bezti þeirra er hinn litli og notalegi Ballato, sem lætur lítið yfir sér við Houston Street, hina kunnu götu gangstéttaverzlunar milli Greenwich Village og Little Italy.
Úr matsalnum sést beint inn í eldhúsið, þangað sem margir gesta eiga erindi og kunningsskap. Borðvín verða menn að koma með sjálfir, en það fæst í næstu búðum.
Hin aldna frú Ballato eldar hér ítalskan heimilismat, spaghetti, maccaroni, manicotti, tagliatelli og svo framvegis, fyrir utan ágætis kolkrabba og rækjur, svo ekki sé talað um frábært kálfakjötið. Hér má fá í eftirrétt óvenjugott zabaglione
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 76. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Ballato, 55 East Houston Street milli Mott og Mulberry Streets, sími 226 9683, lokað sunnudaga, B2)
Café des Sports
Til eru fleiri frönsk matsöluhús en dýru matarmusterin. Bezti fulltrúi venjulegrar matreiðslu frá Gallíu á hóflegu verði er Café des Sports í leikhúshverfinu vestan Broadway, dæmigerð sveita-bistró. Þar borða vinir eigandans og kokksins Lucien Lozach, þar á meðal matreiðslumenn nágrannastaðanna, og hlæja hátt á frönsku.
Eins og víða á Manhattan er komið inn á langan bar, sem einstæðingar geta borðað og drukkið við, með einni borðaröð við hliðina og lítilli veitingastofu innan við. Innréttingar eru broddborgaralega og heimilislega gamaldags. Í tveimur heimsóknum okkar reyndust flestir gestirnir vera frönskumælandi og margir þeirra hálfgerðir heimilisvinir.
Við prófuðum frambærilega snigla og mikið magn af mjög góðum lárperum (avocados) í forrétti, í aðalrétti ofeldaðar froskalappir í hvítlauk og ágæta piparsteik. Vegna yfirvofandi leikhúss misstum við af eftirréttum. Annars er rólegast hér og bezt, einmitt meðan leiksýningar standa.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 64.
(Café des Sports, 329 Eest 51st Street milli 8th og 9th Avenues, sími 581 1283, lokað í hádeginu á laugardögum og sunnudögum, F2)
Rincón de Espana
Rétt sunnan við Washington Square í Greenwich Village er aðalstaður spánskrar matreiðslu á Manhattan, dimmur og hávaðasamur salur með gítarspili og gestasöng. Þrengra hafa sáttir sjaldan setið, en þjónusta er góð og flestir gestir virtust hinir kátustu.
Við prófuðum sæmilegt kóngskrabbasalat í forrétt og ágætis lambakótilettur í aðalrétt. Einnig fengum við hinn kunna spánska rétt, paella, matarmikla, með humri, rækjum, kræklingi, hörpudiski og kjúklingi.
Miðjuverð var USD 64 fyrir tvo.
(El Rincón de Espana, 226 Thompson Street milli Bleecker og West 3rd Streets, sími 260 4950, opið alla daga, B2)
Pantheon
Tiltölulega ódýr og góður grískur staður, vel í sveit settur í leikhúshverfinu, er Pantheon, bjartur og yfirlætislítill staður góðrar þjónustu. Þar má fá ágætis taramosalata, kefteðes, músaka, baklavas og aðra rétti ættaða frá Miðjarðarhafslöndunum austanverðum.
Miðjuverð fyrir tvo var USD 60. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Pantheon, 689 8th Avenue milli 43th og 44th Streets, sími 664 8294, lokað laugardaga, E2)
Siam Inn
Bezti fulltrúi thailenzkrar matreiðslu er hinn ódýri Siam Inn í norðurenda leikhúshverfisins, nálægt Central Park. Það er lítil og hreinleg hola með thailenzkum heimilisiðnaði á veggjum, sérstaklega kurteisri þjónustu og skemmtilegum Thailandsmat, svo sem karríréttum, kryddhúðuðu kjöti og austrænum ávöxtum.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 47. Visa og Eurocard eru ekki tekin gild.
(Siam Inn, 916 8th Avenue milli 54th og 55th Streets, sími 489 5237, lokað í hádeginu á laugardögum og sunnudögum, F2)
Kuruma Zushi
Japanskir matsölustaðir eru fleiri og fjölbreyttari á Manhattan en í samanlögðum höfuðborgum Evrópu. Beztir þeirra eru sushi-barirnir og þar er fremstur í flokki Kuruma Zushi í miðju verzlanahverfi miðbæjarins.
Sushi eru smáréttir, eins konar hanastélspinnar úr þangsoðnum hrísgrjónum, sem eru látin loða saman með blöndu ediks, salts, sykurs og krydds -og þakin ýmsu smakki, aðallega hráu og kryddlegnu úr sjónum. Á sushi-börum kemst austræn matargerðarlist næst hinni beztu matreiðslu Frakklands.
Kuruma Zushi er sérstaklega hreinlegur og stílhreinn staður, svo sem títt er um japanska veitingasali. Skemmtilegast er að sitja á barnum og horfa á matreiðslumennina búa til smáréttina. Þar er líka auðveldast að velja sjávarréttina, sem eru undir gleri á barnum, og snæða þá hvern á fætur öðrum, unz úr er orðin heil máltíð.
Handbragð kokksins og þjónusta var hvort tveggja frábært, sem og maturinn, er hann útbjó fyrir okkur. Það var allt saman hrár, kryddleginn fiskur, svo sem túnfiskur, kolkrabbi, rækjur, hrogn og ótalmargt fleira. Sumt fengum við vafið inn í þangblöð. Með þessu drukkum við japanskt saki. Í eftirrétt prófuðum við gott mangó og melónur.
Miðjuverð var USD 80 fyrir tvo. Visa og Eurocard eru ekki tekin gild.
(Kuruma Zushi, 18 West 56th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 541 9030, lokað laugardaga og sunnudaga, F3)
Hatsuhana
Mjög svipaður sushi-bar sunnarlega í verzlunarhverfi miðbæjarins er Hatsuhana, mun ódýrari og ekki eins frábær að gæðum. Öll húsaskipan og aðferðafræði er svipuð og í Kuruma Zushi. Eins og þar er hér bezt og skemmtilegast að sitja við barinn, velja úr glerskápunum og horfa á matreiðsluna.
Við prófuðum túnfisk, bleikju, reyktan lax, rækjur, smokkfisk, kolkrabba, sæfífil, laxahrogn, skelfisk, makríl og þorskhrogn, allt gott.
Miðjuverð nam USD 60 fyrir tvo.
(Hatsuhana, 17 East 48th Street milli Madison og Park Avenues, sími 355 3345, lokað sunnudaga og í hádeginu á laugardögum, E3)
Dárbar
Engin stórborg er án hressilegrar matargerðar Indlands. Bezti indverski veitingastaðurinn á Manhattan er Dárbar í miðju verzlanahverfi miðbæjarins. Hann er afar indverskt skreyttur ótal listaverkum og óvenju virðulegur af slíkum stað að vera, með sveigðum stiga upp á innisvalir á annarri hæð. Þetta er notalegur staður kurteisrar þjónustu með indverskan sítar að tjaldabaki.
Við prófuðum verðtilboð staðarins, sunnudagshlaðborð í hádeginu. Þar mátti fá sýnishorn af ýmsum þekktustu réttum Indlands, svo sem kryddhúðaðan kjúkling, stökkt brauð, spjótrekið kjöt, kryddað lambakjöt, baunarétti og blandað grænmeti. Þetta var gott, en hefði auðvitað verið bæði betra og dýrara, ef það hefði verið sérpantað og ekki af hlaðborði. Með þessu þurfti mikið af bjór til að slökkva í kryddinu.
Við borguðum USD 40, en af matseðli hefði miðjuverð fyrir tvo orðið USD 84.
(Dárbar, 44 West 56th Street milli 5th og 6th Avenues, sími 432 7227, opið alla daga, F3)
Bombay Palace
Hinn góði Indlandsstaðurinn á Manhattan er Bombay Palace, einnig í miðju verzlanahverfi miðbæjarins, glæsilegur salur, einkum niðri, þar sem borðað er eftir matseðli. Uppi er svipað hádegishlaðborð og í Dárbar.
Við fengum okkur einn af föstum málsverðum staðarins. Hann fólst í kryddlegnum kjúklingi og rækjum úr leirofni, krydduðum kjúklingi og lambakjöti á spjóti, ýmsu grænmeti og stökku brauði, flest mjög gott. Einkum var gott höfuðatriði máltíðarinnar, kryddlegni kjúklingurinn.
Allt í kringum okkur sátu Sikhar að snæðingi og voru hinir friðsamlegustu að sjá.
Miðjuverð var USD 70 fyrir tvo.
(Bombay Palace, 30 West 52nd Street milli 5th og 6th Avenues, sími 541 7777, opið alla daga, F3)
Say Eng Look
Fyrir hamborgaraverð er skynsamlegast að borða í hinum ódýru kínversku matsöluhúsum og er þó kínversk matreiðsla með hinni virðulegustu í heimi, það er að segja á þeim stöðum, sem ekki einkennast af ferðamönnum. Bezt er auðvitað að borða, þar sem Kínverjarnir borða sjálfir. Say Eng Look er einn af slíkum veitingasölum, í austurjaðri Kínahverfisins, við austurhlið Bowery.
Kínversk matreiðsla er margvísleg og skiptist í ýmsa flokka, svo sem Kanton, Sjanghai, Hunan, Sikkuan og Peking. Say Eng Look er Sjanghai-staður, hinn bezti slíkra í borginni. Hann er líka óvenjulega snyrtilegur, jafnvel á salerni. Í matsalnum eru veggir rauðir, súlur og bitar svartir og á veggjum eru mildar drekaskreytingar kínverskar.
Meðan við skoðuðum gífurlega langan matseðilinn fengum við kjötsultu og keyptum góðan, kínverskan bjór. Síðan völdum við fisk, rækjur og kjúkling, allt góðan og bragðsterkan mat, valinn úr matseðils-kaflanum yfir sérrétti hússins.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 47, frábær kaup.
(Say Eng Look, 5 East Broadway við Chatham Square, sími 732 0796, opið alla daga, C4)
Hee Sung Feung
Bezti smáréttastaður kantonskar Kína-matreiðslu er Hee Sung Feung í austurkanti Kínahverfisins, við hina frægu rónagötu Bowery. Smáréttir þessir eru bragðmildir, nefnast dim sum og fást aðeins í hádeginu. Staðurinn er einfaldur í sniðum, með kínverskum drekum á veggjum og jafnan fullur af Kínverjum. Ekki er ráðlegt að heimsækja salernin.
Dim sum er afgreitt þannig, að um salinn er ekið vögnum, hlöðnum smáréttum, flestum gufusoðnum. Gestirnir benda á það, sem þeir vilja. Samtals eru smáréttirnir um eða yfir 50. Við völdum kjúklingafætur, svínarif, sesam-kjúklinga, rækjunúðlur, smárækjurúllur og krabbaklær, flest gott og sumt mjög gott.
Miðjuverð var USD 30 fyrir tvo, hlægilega lágt verð fyrir veizlumat á Manhattan. Við notuðum USD 20. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Hee Sung Feung, 46 Bowery sunnan við Canal Street, sími 374 1319, opið alla daga, C3)
Hwa Yuan Szechuan
Bezti kínverski staður sikkuan-matreiðslu er Hwa Yuan Szechuan, nágranni Say Eng Look í Kínahverfinu. Ekki er mikið lagt í innréttingar, en maturinn er þeim mun betri. Kokkarnir heimsækja gesti að frönskum sið. Maturinn er mun kryddaðri og bragðsterkari í sikkuan-matstofum en til dæmis á kantonskum stöðum og svo er einnig hér.
Miðjuverð var USD 40 fyrir tvo, afar góð kaup.
(Hwa Yuan Szechwan, 40 East Broadway milli Catherine og Market Streets, sími 966 5534, lokað föstudaga og laugardaga, C4)
Brasserie
Dæmigerðir fyrir Manhattan eru matsölustaðir, sem eru opnir allan sólarhringinn, fæstir kunnir að góðri matargerð. Undantekning er Brasserie austarlega í verzlunarhverfi miðbæjarins, afar snyrtilegur og nýtízkulegur staður glaðværra gesta, einkum þeirra, sem koma í morgunmat klukkan þrjú að morgni. Morgunmaturinn er raunar tromp staðarins. Brasserie er kjörinn áningarstaður þeirra, sem hafa annað tímaskyn en hefðbundið fólk.
Við prófuðum í kvöldverð sæmilega lauksúpu og Búrgundarsnigla sem forrétti og sem aðalrétti jafn sæmilega nautasteik og afleitt tartarabuff.
Miðjuverð fyrir tvo nam USD 70.
(Brasserie, 100 East 53rd Street milli Park og Lexington Avenues, sími 751 4840, opið alla daga allan sólarhringinn)
Carnegie Deli
Deli er stytting úr Delikatessen, sérstöku fyrirbæri veitingahúsa, sem bandarískir gyðingar hafa gert frægt. Þetta eru ódýrir staðir, eins konar hamborgarasjoppur, en með allt öðrum og betri mat, einkum samlokum. Frægasta, ein elzta og sennilega bezta matstofa af þessu tagi á Manhattan er Carnegie Deli norðarlega í leikhúshverfinu, vinsæll áningarstaður leikara og sýningargesta að lokinni leiksýningu.
Í Carnegie Deli höfum við fengið í morgunverð þá beztu ostaköku, sem við munum eftir. Annars er staðurinn frægur fyrir samlokur og eggjarétti. Hamborgarar kosta tæpa USD 5.
Miðjuverð máltíðar fyrir tvo var USD 62. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Carnegie Deli, 854 7th Avenue milli 54th og 55th Streets, sími 757 2245, opið alla daga, F2)
Empire Diner
Diners eru al-bandarískt fyrirbæri, málmkenndir staðir, sem minna á járnbrautarvagna, oft í Art Decco stíl upphafsára þessarar aldar. Svo er um Empire Diner, hinn frægasta þeirra, svartan og krómaðan, nokkuð afskekktan í Chelsea og raunverulega utan við kortasvið þessarar bókar.
Empire Diner er opinn næstum allan sólarhringinn, vinsælastur sem morgunverðarstaður nátthrafna klukkan þrjú-fjögur að morgni.
Miðjuverð matar fyrir tvo var USD 40.
(Empire Diner, 210 10th Avenue við 22nd Street, sími 243 2736, opið alla daga nema 05-08 á mánudagsmorgnum)
John´s Pizzeria
Pizzur eru dæmigert bandarískt fyrirbæri, þótt þær kunni að vera upprunnar á Ítalíu. Þær hafa flætt frá Bandaríkjunum um heiminn. Á Manhattan er auðvitað fullt af pizzeríum. Bezt þeirra er John´s Pizzeria í Greenwich Village.
Matsalurinn er orðinn nokkuð laslegur og þjónustan er ekki upp á marga fiska, en pizzurnar eru alltaf jafngóðar. Þær eru bakaðar í tígulsteinsofnum, afgreiddar með léttbrenndri skorpu og ferskum hráefnum í fyllingu. Fólk fer langar leiðir til að standa í biðröð eftir pizzu á John´s.
Miðjuverð máltíðar fyrir tvo var USD 30, góð kaup. Krítarkort eru ekki tekin.
(John´s Pizzeria, 278 Bleecker Street sunnan við 7th Avenue, sími 243 1680, opið alla daga, A1)
Nathan´s Famous
Elzti og frægasti pylsusali New York er Nathan, upprunnin á Coney Island. Nú er þekktast risastórt útibúið á Broadway, þar sem menn sitja við barinn og fá sér bjór og eina, ekki með öllu, heldur því, sem hugurinn girnist í það skiptið. Betri pylsur eru ekki fáanlegar á Manhattan, en ýmislegt fleira fæst þar, ekki í frásögur færandi.
Miðjuverð máltíðar fyrir tvo nam USD 30. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Nathan´s Famous, 1482 Broadway við Times Square og 43rd Street, sími 382 0620, opið alla daga, E2)
Jackson Hole
Til viðbótar við delis, diners, pizzuhús og pylsukrár eru auðvitað hamborgarastaðirnir eitt hið bandarískasta af öllu bandarísku. Hinn bezti þeirra er Jackson Hole í Upper East Side. Þar fást sérstaklega þykkir og safaríkir og hæfilega mildilega steiktir hamborgarar fyrir matgæðinga.
Miðjuverð máltíðar fyrir tvo nam USD 30. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Jackson Hole Burgers, 232 East 64th Street milli 2nd og 3rd Avenues, sími 371 7187, lokað sunnudaga, G4).
1988
© Jónas Kristjánsson
