LEIÐSÖGURIT
FJÖLVA
JÓNAS KRISTJÁNSSON
ritstjóri
NEW YORK
nafli alheimsins
Leiðsögurit fyrir
íslenzka ferðamenn
Bókarstefna
Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.
Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.
Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.
Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.
Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.
Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir
Fjörug og mannleg
New York er fjörug borg, allt að því vingjarnleg borg og líklega jafnvel mannleg borg. Hún er staðurinn, þar sem ókunnugir eru fyrirvaralaust teknir tali, ekki aðeins við barinn, heldur hvar sem er. Þeir eru viðurkenndir sem fólk, enda er þriðjungur borgaranna fæddur í útlöndum og því eins konar ókunnugir sjálfir.
New York er ekki Bandaríkin og ekki heldur Evrópa, heldur suðupottur beggja og þriðja heimsins að auki. Sumir borgarhlutar minna á bazar í Kairo eða Kalkútta. Alls staðar er mannhaf, alls staðar er verið að verzla og nú orðið ekki sízt á gangstéttum úti.
Sé einhver staður nafli alheimsins, þá er það miðborg New York, sem fjallað er um í þessari bók, — Manhattan. Sú eyja er miðstöð myndlistar, önnur af tveimur miðstöðvum leiklistar, fremsta miðstöð tónlistar og bókmennta. Hún er mesta safnaborg heims.
Manhattan er staðurinn, sem hefur allt. Ef eitthvað er til einhvers staðar í heiminum, er það líka til á Manhattan. Þar eru útibú frá öllum frægu verzlunum Evrópu. Þar eru 10.000 veitingahús frá nærri öllum löndum heims. Þar eru gefin út blöð og reknar útvarpsstöðvar á 50 tungumálum.
Daglega er eitthvað merkilegt að gerast í New York, Corazon Aquino að taka við verðlaunum á Pierre, Johnny Cash að árita bækur á 5th Avenue, Sarah Vaughan með afmælistónleika á Blue Note í Greenwich, Norðmenn að sigla víkingaskipi inn á South Street Seaport og Kristján Jóhannsson að syngja í La Boheme í ríkisleikhúsinu.
Manhattan hefur gengið í endurnýjun lífdaganna. Mörg hverfi, sem áður voru í niðurníðslu, hafa verið hresst við á síðustu árum, víðast að frumkvæði framúrstefnu-listamanna. Veitingahús, verzlanir og velmegun hafa fylgt eftir.
Fólk annað hvort elskar eða hatar New York. Hún er mjúk og hörð í senn, en fyrst og fremst er hún hröð og æst, jafnvel tryllt. Hún er kjörinn áningarstaður þeirra, sem líður vel, þar sem hlutirnir gerast, þar sem naflinn sjálfur er. Hún er andartakið sjálft.
Almennar upplýsingar
Bankar
Flestir bankar eru opnir 9-15 mánudaga-föstudaga. Aðeins sumir þeirra skipta erlendum gjaldeyri.
Barnagæzla
Hringdu í Baby Sitters Guild, 60 East 42nd Street, síma 682 0227.
Ferðir
Skrifstofa ferðamálaráðsins, Visitors Information Center, er að 2 Columbus Circle, opin 9-18 mánudaga-föstudaga og 10-18 laugardaga-sunnudaga, sími 397 8222.
Fíkniefni
Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér og getur varðað sektum.
Flug
Flugvallarrútan til Kennedy flugvallar fer á 20-30 mínútna fresti frá East Side Airlines Terminal, 1st Avenue og 37th Street. Ferðin getur tekið rúman klukkutíma. Segðu vagnstjóranum, hvaða flugfélagi þú ferð með, svo að hann stanzi við réttan stað á vellinum.
Flugleiðir
Söluskrifstofa Flugleiða er í Channel Gardens, göngugötu milli 5th Avenue og Rockefeller Plaza, 610b 5th Avenue, sími 757 8585 og (800) 223 5500.
Framköllun
Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.
Gisting
Engin stofnun útvegar vegalausum ferðamönnum gistingu, en ferðamálaráðið við 2 Columbus Circle hefur skrá yfir öll hótel borgarinnar.
Göngur
Gangandi fólk þarf að gæta vel að sér í umferðinni, því að bílstjórar aka margir afar hratt og frjálslega, sumir á rauðu ljósi. Auðvelt er að rata um mestan hluta borgarinnar.
Götunúmer
Streets eru númeruð vestur og austur frá 5th Avenue. Þau hlaupa á einu hundraði við hverja númeraða Avenue, sem þau mæta. Jafnar tölur eru að sunnanverðu, oddatölur að norðanverðu. Í heimilisföngum er gjarna gefið bæði upp Avenue og Street.
Hjálp
Ferðamenn geta fengið aðstoð, jafnvel vasapeninga í nauðum, hjá Traveller´s Aid Society, 204 East 39th Street, sími 679 0200
Hótel
Athugið, að “queen size bed” er minna hjónarúm en Íslendingar eru vanir. Pantaðu herbergi með annað hvort “king size bed” eða “twin beds”. Á efri hæðum hótela er minna ónæði af umferðarhávaða en á neðri hæðum.
Leigubíll
Leigubíla má panta í símum 741 2000 og 741 1800, en venjulega er kallað í þá af gangstéttinni. Ljós logar á þakmerki lausra leigubíla. Vertu alltaf viss um, hvert þú ætlar, því að margir bílstjórar vita miklu minna um borgina en þú. Notaðu aðeins gulu leigubílana með skjaldarmerkinu.
Lyfjabúð
Kaufman, Lexington Avenue við 50th Street, er opin allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, sími 755 2266.
Læknir
Hringdu í 879 1000 eða í 328 1000.
Löggæzla
Hringdu í 911 eða í 374 5000.
Peningar
Bandarískir gjaldmiðillinn er dollar, $ eða USD, sem skiptist í 100 cent. 5 centa myntin er kölluð nickel, 10 centa dime og 25 centa quarter. Gott er að hafa á sér töluvert af eins dollars seðlum. Krítarkort eru mikið notuð.
Póstur
Frímerki fást í frímerkjavélum og yfirleitt í hótelmóttökum. Bláir póstkassar eru víða. Aðalpósthúsið á 8th Avenue og 33rd Street er opið allan sólarhringinn.
Rafmagn
Athugaðu að rafmagnið er 110-120 volta, svo að straumbreytir er nauðsynlegur, ef þú hefur meðferðis raftæki á borð við rakvél.
Salerni
Salerni eru í veitingahúsum, söfnum og stórverzlunum. Víða þarf að borga 10 cent eða þjórfé. Notaðu alls ekki salerni neðanjarðarlestastöðva.
Samgöngur
Strætisvagnarnir eru mun hreinlegri og þægilegri en neðanjarðarlestirnar, sem aftur á móti eru fljótari í förum og ganga allan sólarhringinn. Fargjaldið er hið sama. Leigubílar eru tiltölulega ódýrir. Annatíminn er 8-9 og 17-18.
Sendiráð
Sendiráð Íslands er við 370 Lexington Avenue og 41st Street, sími 686 4100.
Sími
Almenningssímar eru víða, til dæmis í anddyri hótela og veitingahúsa, svo og á götuhornum. Símtalaverð er breytilegt, til dæmis lægra um kvöld og helgar. Öll New York er á símasvæði 212. Til Íslands er númerið 0 11 354.
Sjúkrabíll
Hringdu í síma 911.
Sjúkrahús
Góð sjúkrahús í miðbænum eru NY University Medical Center, 1st Avenue og 30th Street, sími 340 1999, og Roosevelt Hospital, 9th Avenue og 58th Street, sími 554 7000.
Skemmtun
Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritunum New York og The Village Voice, svo og í dagblöðunum.
Slökkvilið
Hringdu í síma 911.
Tannlæknir
Hringdu í síma 679 3966 fyrir kl. 20 og í 679 4172 eftir kl. 20.
Vatn
Kranavatn er drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.
Verðlag
Verðlag hér í bókinni er frá 1987. Verðbólga er lítil í Bandaríkjunum. Reiknaðu þó með 5% á ári til öryggis.
Verzlun
Stórverzlanir og tízkuverzlanir eru yfirleitt opnar 9/10-18 og oft til 20/21 fimmtudaga. Sumar eru opnar laugardaga og jafnvel eftir hádegi á sunnudögum.
Þjórfé
Þjónusta er ekki innifalin í reikningum veitingahúsa. Venjulegt þjórfé er 15-20%. Sumir einfalda sér útreikninginn með því að tvöfalda upphæð 8% söluskattsins, sem reikningurinn sýnir. Burðarmenn fá 50 cent fyrir hverja tösku, minnst USD 1, herbergisþjónusta USD 1, salernisverðir 50 cent, herbergisþernur USD 3-5 á viku, leiðsögumenn, leigubílstjórar, rakarar og hárgreiðslufólk 15%.
Öryggi
Forðaztu Central Park eftir myrkur, neðanjarðarlestir að næturlagi og alla fáförula staði yfirleitt. Vertu þar sem fólkið er og nálægt brún gangstéttar. Haltu fast í handtösku. Hafðu peninga í fremri buxnavösum. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peningana. Skildu ekki eftir verðmæti í hótelherbergjum. Vertu ekki áberandi fínt klæddur. Gakktu öruggum skrefum eins og þú vitir, hvert þú ert að fara. Segðu nauðgurum, að þú sért með eyðni eða sárasótt. Ekki lenda í slagsmálum.
1988
© Jónas Kristjánsson
