Stéttarsamband bænda hefur sett ríkisstjórn og skattgreiðendum úrslitakosti. Annað hvort verði söluskattur á kjötvörum afnuminn, ellegar muni sambandið ekki hafa afskipti af fjárhagserfiðleikum bænda, sem fyrirsjáanlegir eru vegna gífurlegrar offramleiðslu á ofsadýrum og óseljanlegum afurðum.
Láti ríkisstjórnin kúgast fyrir hönd skattgreiðenda, kostar það 1520 milljón króna tekjurýrnun á ári, sem bæta verður upp með skattlagningu á landslýð. Er þá líklegt, að ríkisstjórninni detti bensínið í hug eins og stundum áður.
Sumir bændur virðast vera forviða á þessari þróun. Hermann Guðmundsson á Blesastöðum varpaði fram þeirri spurningu á bændafundi í Grímsnesi um daginn, hvað hefði eiginlega gerzt, því að á síðasta ári hefðu bændur verið hvattir til að auka framleiðslu sína.
Hvorki ríkið né skattgreiðendur bera ábyrgð á því, þótt ráðamenn Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands hafi reynt að blekkja bændur í fyrra. Þessar tvær stofnanir gæta í raun hagsmuna vinnslustöðva og sölufélaga, sem þurfa sem mesta veltu og líta á bændur sem þræla sína.
Öll landbúnaðarstefnan byggist á því, að umsvif vinnslustöðva og sölufélaga í landbúnaði séu sem mest. Þar renna í gegn allir milljarðarnir, sem ríkisvaldið heldur, að það sé að borga bændum. Þess vegna hefur árum saman verið rekin stefna gegndarlausrar útþenslu í landbúnaði.
Skynsamir menn hafa árum saman bent á, að þetta væri orðin hringavitleysa og að stefna þyrfti að samdrætti í landbúnaði. Þessar aðvaranir hafa heyrzt, því að hinir skynsömu hafa verið skammaðir og svívirtir eftir megni.
Nú er komið í ljós, að þeir höfðu rétt fyrir sér. Á fundinum í Grímsnesi, sem áður er nefndur, viðurkenndi Gunnar Guðbjartsson, formaður Stéttarsambands bænda, að verð landbúnaðarvara væri um tíu sinnum hærra hér en víða í Evrópu. Er það nokkru hærra hlutfall en svokallaðir óvinir bænda hafa áður verið sagðir ljúga. Einnig viðurkenndi Gunnar, að smjörbirgðir í landinu yrðu 1800 tonn í árslok.
Hér í Dagblaðinu hafa hvað eftir annað verið settar fram ýtarlegar tillögur um, hvernig draga megi saman seglin í landbúnaði án þess að skerða tekjur bænda. Eftir þessu var ekki farið, svo að nú standa bændur andspænis óumflýjanlegri tekjuskerðingu.
Óvinir bænda eru nefnilega mennirnir, sem hvöttu þá til framleiðsluaukningar, þvert ofan í heilbrigða skynsemi og eingöngu til að þjóna hagsmunum vinnslustöðva og sölufélaga. Þetta eru ráðamenn Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands.
Svo koma þessir óvinir bænda núna og heimta, að ríkið og skattgreiðendur borgi vitfirringuna. Ef þeim tekst að fá því framgengt verður skattgreiðendum og neytendum ljóst, að ríkisstjórnin er andvíg hagsmunum skattgreiðenda og neytenda.
Auðvitað á ríkisstjórnin að harðneita úrslitakostum Stéttarsambandsins.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið