Það er líkt Nató að bjóða Serbum óbeina aðild, þótt þeir komi í veg fyrir, að stríðsglæpamenn séu gómaðir og sendir til Haag. Atlantshafsbandalagið hefur aldrei skorað hátt í siðferði. Síðari tíma sögurannsóknir hafa leitt í ljós, að í Balkanstríðunum laug bandalagið engu minna um framvindu mála en Serbía gerði. Frá sjónarmiði almennra mannasiða kemur ekki til greina að hleypa Serbum í neitt samstarf fyrr en þeir láta af hendi félagana Ratko Mladic og Radovan Karadzic. En Nató er ekki í sambandi við samfélag siðaðra manna. Það er einangruð stofnun úreltra tindáta og pólitíkusa.
