Mörk í forgjöf

Greinar

Fimmtán mínútna maðurinn, sem þolir ágreining á fundum í fimmtán mínútur, er ósáttur við væntanlegan eftirmann sinn. Báðir vilja þeir forgjöf í pólitískum fótboltaleik sínum, eftirmaðurinn vill eitt mark í forgjöf, en fimmtán mínútna maðurinn og flokkur hans vilja fá tvö mörk í forgjöf.

Forgjöf hefur ekki tíðkast í pólitískum kosningum á Íslandi fremur en í fótbolta. Í golfi er notuð forgjöf, sem byggist á misjöfnum fyrra árangri. Þeir fá forgjöf í golfi, sem minna mega sín. Í pólitík á Íslandi eru hins vegar ítrekað lagðar fram kröfur um forgjöf þeirra, sem betur mega sín.

Í umræðum um forgjöf í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu er eingöngu fjallað um kröfu þeirra, sem styðja lögin gegn Jóni Ásgeiri, um að andstæðingar laganna verði að fá tiltekna prósentu allra kjósenda, hvort sem þeir koma á kjörstað eða ekki. Halldór vill 30% þröskuld og Davíð vill 44% þröskuld.

Ekki er til umræðu, að hliðstæð krafa verði sett á fylgismenn laganna. Ekki er talað um, að lögin þurfi að fá 30% eða 44% stuðning allra kjósenda, líka þeirra, sem ekki mæta. Það þykir til dæmis vera í lagi, að 29% þjóðarinnar segi nei og 14% segi já. Í því tilviki skal jáið gilda.

Ef stuðningsmönnum laganna er skýrt frá þessari þverstæðu, skilja þeir hana ekki. Þeim er fyrirmunað að sjá fyrir sér þann möguleika, að einhverjir aðrir en þeir sjálfir fái forgjöf. Þetta stafar af, að þeir eru vanir forgjöf í þjóðfélaginu, þeir styðja flokka, sem lifa á forgjöfinni.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa frá ómunatíð stjórnað landinu og rekið forgjafarkerfi, sem áratugum saman var kallað helmingskiptareglan, en fól þó nákvæmar í sér, að fyrri flokkurinn réði um 60% af þjóðfélaginu og síðari flokkurinn réði um 40% af því.

Annars vegar átti minni flokkurinn lengst af samband fyrirtækja, kallað SÍS, sem stýrði 40% af atvinnulífinu, og fyrri flokkurinn átti losaralegra samband, sem síðar var kallað kolkrabbinn og átti 60% af atvinnulífinu. Bankar landsins voru pólitískt notaðir í þjónustu tveggja afla.

Með tilkomu markaðshagkerfis losnaði smám saman um heljartök helmingaskiptanna á þjóðfélaginu. Enn eru menn þó ráðnir á pólitískum forsendum til opinberra áhrifastarfa, þar á meðal til að vera hæstaréttardómarar. Gælufyrirtæki fá enn ríkisábyrgð og einkaleyfi, gælumenn verða ekki gjaldþrota.

Fimmtán mínútna maðurinn og fylgismenn hans vilja byrja fótboltaleikinn um Jóns Ásgeirs lögin með tvö mörk í forgjöf, af því að forgjafarkerfið er þeim í blóð borið.

Jónas Kristjánsson

DV