Möðruvallaeinkennin

Greinar

Klofningurinn í Framsóknarflokknum er orðinn raunverulegur. Í gær tók leiðarahöfundur Tímans Möðruvallalið flokksins rækilega í gegn, vísaði því í útlegð og varaði flokksmenn eindregið við nokkrum mönnum, sem hann taldi vera forustumenn Möðruvallaliðsins.

Þessi breiðsíða á sér langan aðdraganda. Að baki hennar liggur löng valdabarátta í flokknum milli núverandi flokksforustu og nokkurs hóps manna, sem .einkum hefur lotið forustu Ólafs Ragnars Grímssonar prófessors.

Möðruvellingar hafa undirtökin í Sambandi ungra framsóknarmanna og notuðu um skeið síðu þess í Tímanum til harðra árása á Ólaf Jóhannesson flokksformann og stuðningsmenn hans. Þetta leiddi til þess, að fyrst var skrúfað fyrir ungu mennina og þeir síðan settir undir ritskoðun.

Næst reyndi uppreisnarliðið að ná tökum á Félagi ungra framsóknarmanna í Reykjavík, sem var undir stjórn stuðningsmanna flokksforustunnar. Þessi atlaga mistókst gersamlega, því að hinir síðarnefndu reyndust í miklum meirihluta á aðalfundi um daginn. Ruku þá menn Ólafs Ragnars út og stofnuðu sérstakt félag fyrir sig.

Síðan sendu Möðruvellingar út bréf til flokksmanna víða um land, þar sem ráðizt var heiftarlega að flokksforustunni fyrir gróðahyggju, fjármálaspekúlasjónir og svik við hugsjónir flokksins. Þetta bréf fyllti mælinn og olli breiðsíðunni í Tímanum, þar sem ritstjórinn vísaði Möðruvellingum út í yztu myrkur.

Forusta Framsóknarflokksins virðist nú hafa tögl og hagldir í baráttu þessari og vera ákveðin í að losna endanlega við Ólaf Ragnar og Möðruvallalið hans. Er því nú úr vöndu að ráða fyrir sigrað uppreisnarliðið.

Þetta eru sömu mennirnir og ákafast studdu sameiningu vinstri manna í einum flokki. Þeir munu nú reyna að komast úr einangruninni og leggja aukna áherzlu á samstarf og samruna við Hannibalista.

Sá þrýstingur mun hins vegar gera samstarfssamninga Alþýðuflokksins og Hannibalista erfiðari, því að mörgum Alþýðuflokksmönnum lízt hreinlega ekkert á, að Möðruvallaliðið fylgi Hannibalistum inn í nýjan jafnaðarmannaflokk.

Telja þeir, að lítið rúm verði eftir fyrir eldri alþýðuflokksmenn, er svo vígreift lið kemur á vettvang. Það verður því fróðlegt að sjá, hvort Möðruvellingar bjargast úr eyðimerkurgöngu sinni eða mynda nýjan flokk.

Ástæðan fyrir þessum klofningi í Framsóknarflokknum er sumpart framagirni, sem ekki fær útrás í flokknum vegna fyrirstöðu flokksforustunnar. Einnig er hér um að ræða hina útbreiddu sérvizku í röðum vinstri manna, pólitíska einstefnu, sem leiðir til þess, að hver maður þarf helzt að vera sér í flokki.

Þessi skortur á samstarfi meðal vinstri manna er hvarvetna áberandi. Einfalt er að benda á dæmi sjálfrar ríkisstjórnarinnar, þar sem hver ráðherra reynir að skora mark gegn hinum ráðherrunum. Viðskipti Lúðvíks Jósepssonar og Ólafs Jóhannessonar er alvarlegasta dæmið um þetta sundurlyndi.

Þessi draugur vinstri manna er ein af veigamestu ástæðunum fyrir því, hve ólánlega þeim tekst til, þegar þeir eru kvaddir til að stjórna ríkinu.

Jónas Kristjánsson

Vísir