Nýlegar tölur um þjóðarauð Íslendinga eru ekki til. En með hliðsjón af verðbólgu síðustu ára og árlegri fjárfestingu má gizka á, að hann nemi nú um 400 milljörðum króna á núverandi verðlagi. Er þetta um tvær milljónir króna á hvert mannsbarn.
Eftir skiptingu árlegrar fjárfestingar mætti ætla, að helmingur auðsins eða 200 milljarðar séu í atvinnutækjunum, fjórðungur eða 100 milljarðar í íbúðarhúsnæði og fjórðungur eða 100 milljarðar í opinberri eigu.
Þetta hljóta að vera mjög ónákvæmar tölur, en gera samt sitt gagn. Til gamans má geta þess, að samkvæmt þeim nemur þjóðarauðurinn á hvert mannsbarn að meðaltali einni milljón króna í atvinnutækjum, hálfri milljón í íbúðarhúsnæði og hálfri milljón í opinberum stofnunum.
Nýjustu tölur um árlega fjárfestingu eru frá árinu 1973. Þá nam fjárfesting í atvinnuvegunum, íbúðarhúsnæði og opinberum mannvirkjum þeim hlutföllum, sem að ofan greinir. Höfðu hlutföllin þá haldizt svipuð í mörg ár.
Í fyrra varð á þessu breyting, einkum vegna offjárfestingar hins opinbera á kostnað almenns íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar voru þá fjárfestir 20 milljarðar í atvinnulíf inu, 10 milljarðar í íbúðum og 13 milljarðar hjá hinu opinbera.
Erfitt er að ræða um framleiðni eða arðgjöf þeirrar fjárfestingar, sem fer í mannvirki hins opinbera og íbúðir almennings. En hinar grófu tölur, sem hér hafa verið birtar, benda til þess, að 200 milljarða auður í atvinnulífinu framleiði 20 milljarða á ári til fjárfestingar í atvinnulífinu.
Þetta gæti bent til þess, að hringrás fjármagnsins í verðmætasköpuninni á Íslandi taki um tíu ár. Hver króna í þjóðarauðnum sé um tíu ár að búa til nýja krónu til viðbótar í þjóðarauðnum.
Erlendis eru mörg dæmi um, að fjárfesting sé þrjú til fimm ár að skila jafnvirði sínu til baka til nýrrar fjárfestingar. Bankar erlendis gera oft þá kröfu, að fjárfestingarfé skili sér til baka á fimm árum. Þeir krefjast nákvæmra áætlana um arðgjöf fyrirhugaðra framkvæmda, leiðrétta þær og lána síðan í þá fjárfestingu, sem þeir telja gefa af sér skjótastan arð.
Ef við næðum því marki, að fjárfestingarfé skilaði sér til baka á fimm árum í stað tíu, hefðum við brátt tvöfalt meira fjárfestingarfé til umráða til uppbyggingar íslenzks atvinnulífs. Á núverandi verðlagi væri árleg fjárfesting þá 40 milljarðar í atvinnulífinu í stað 20, eins og nú er.
En hér er handbæru fjármagni ekki beint í arðbærasta farveg. Það er þvert á móti lánað með sjálfvirkum hætti um kerfi stofnlánasjóðanna og annarra framkvæmdasjóða til atvinnuþátta, sem hafa pólitískan forgang. Arðsemiskröfur skipta engu máli í þessu viðamikla áveitukerfi.
Lítt arðbærir og óarðbærir forgangsatvinnuþættir hafa ótakmarkaðan aðgang að háum lánum með lágum vöxtum til langs tíma og með ríkisábyrgð, ef þarf. Þeir fá styrki í uppbætur og niðurgreiðslur og njóta innflutningsbanns. Þeir fá jöfnunargjöld, tekjutryggingu og sjóðamillifærslur.
Þetta er skýringin á því, af hverju við höfum aðeins 20 milljarða á ári til fjárfestingar í atvinnulífinu, en ekki 40, eins og við gætum haft, ef pólitísk forréttindi vikju fyrir markaðslögmálum.
Jónas Kristjánsson
Vísir