Misjafn dugur dómara

Greinar

Afar misjafn dugur er í rannsóknardómurum þeim, sem fá til meðferðar viðamikil mál á sviði fjárglæfra. Sumir kafa rækilega ofan í málin og aðrir sleikja aðeins yfirborðið og finna ekkert, sem máli skiptir.

Rannsókn Flugfragtarmálsins virðist hafa verið til fyrirmyndar, ef dæma má eftir þeim útdrætti málskjala, sem birzt hefur í Dagblaðinu að undanförnu. Þar hefur rannsóknardómarinn þrætt sig eftir hverjum mjóum þvengnum á fætur öðrum og fundið heilt net fjárglæfra, sem ekki var vitað um, þegar rannsókn málsins hófst.

Rannsóknardómaranum hefur að verulegu leyti tekizt að ná fram andrúmsloftinu í viðskiptasiðleysi því, sem liggur að baki Flugfragtarmálsins. Lesendur standa að vísu agndofa gagnvart upplýsingum um makalausa hringrás verðlausra ávísana, víxla og annarra fjárskuldbindinga. En innsýnin í þennan hugarheim hlýtur að verða þjóðinni lærdómsrík.

Rannsókn sem þessi eflir traust manna á dómsmálakerfinu í landinu. Svo eru aðrar rannsóknir, sem hafa þveröfug áhrif, stuðla að vantrausti manna á þessu sama kerfi. Dæmi um það er rannsókn Grjótjötunsmálsins, þar sem aðeins yfirborðið var sleikt.

Í því máli var þó aðstaðan mun betri en í Flugfragtarmálinu, því að ýtarleg greinargerð um stöðu málsins hafði þegar birzt á prenti í Dagblaðinu. Ekki var hirt um að grípa þá þræði, sem þar komu fram, og rekja sig eftir þeim inn í sannleik málsins.

Tekin var góð og gild játning manns, sem ákvað að taka á sig sökina, og ekkert reynt að kafa ofan í þá atburði, sem leiddu til hingaðkomu sanddæluskipsins Grjótjötuns. Þar örlar ekki á þeim vinnubrögðum, sem voru notuð með svo góðum árangri í Flugfragtarmálinu.

Margir spyrja nú, hvor leiðin verði farin í svonefndu Battamáli. Aumlegar yfirlýsingar rannsóknardómarans benda til, að það mál hafi farið afar illa af stað, hvað sem síðar verður.

Í því máli er fjallað um eina mestu þjóðsagnapersónu síðustu áratuga hér á landi. Það skiptir óneitanlega þjóðina miklu máli, hvort eða að hve miklu leyti þessar þjóðsögur hafa við rök að styðjast. Til að upplýsa það þarf að rekja alla fjármálaslóðina og tefla vitnisburði gegn vitnisburði í ítrekuðum yfirheyrslum, svo sem gert var í Flugfragtarmálinu.

Ekki síður þarf að upplýsa ýmis hliðaratriði málsins, svo sem fullyrðingar manna um, að þeir hafi verið vitni að fyrirskipunum Guðbjarts Pálssonar til ráðherra í símtölum. Það hlýtur að skipta þjóðina miklu máli, að hið sanna komi í ljós í slíkum sögusögnum.

Rannsókn Flugfragtarmálsins sýnir, að hér á landi eru í dómarastétt hæfir menn, sem geta ráðið við hinar flóknustu fjarmálasviptingar og geta í einni yfirheyrslunni á fætur annarri rakið sig í átt að heildarmynd að sannleikanum.

Ef ráðamenn dómsmála létu slíka menn sérhæfa sig í rannsókn þessara flóknu mála og létu dugleysingjana fást við hversdagsmálin, mundi traust manna á dómsmálakerfinu eflast að marki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið