Milljón á mann

Greinar

Ríkið hefur löngum lagt fram mikla fjármuni til styrktar landbúnaðinum. Þetta hefur verið gert til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og halda uppi fjölbreytni í atvinnulífinu. Menn hafa deilt um réttmæti þessa stuðnings, en styrktarkerfið hefur samt reynzt ósigrandi virki.

Það kann að koma mönnum á óvart, að þessi upphæð er að niðurgreiðslum meðtöldum komin upp í tæpa fimm milljarða króna á ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi því, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Þetta jafngildir um það bil einni milljón króna á ári á hvern bónda í landinu.

Rétt er að benda á, að niðurgreiðslurnar eru ekki beinlínis í þágu bænda, heldur aðferð til að halda vísitölunni í skefjum. En þær skekkja líka verðlagið og valda því, að neytendur gera sér ekki grein fyrir því, hversu dýrar landbúnaðarafurðir eru í raun og veru.

Hinar miklu niðurgreiðslur nægja ekki til að gera íslenzkar landbúnaðarafurðir jafnódýrar og innfluttar væru. Samkvæmt heimsmetabók Guinness er sjaldgæfur franskur ostur dýrasti ostur í heimi. Þar er þess ekki getið, að venjulegur íslenzkur ostur er dýrari en þessi dýrasti ostur í heimi, enda mundu höfundar bókarinnar ekki trúa því, þótt þeim væri sagt það.

Nú vaknar sú spurning hvort ekki sé rétt að greiða hverjum alvörubónda eina. milljón á ári fyrir að leggja niður búskap. Ríkið hefði engin aukaútgjöld af slíku og neytendur ættu kost á furðulega ódýrum innfluttum landbúnaðarvörum. Þeir gætu lifað í ostaveizlum, svínakjötsveizlum og kjúklingaveizlum upp á hvern einasta dag og bændur gætu hætt að slíta sér út fyrir aldur fram.

Þetta mundi að vísu kosta nokkurn gjaldeyri. En þá hlið má leysa með því að reisa svo sem tvær stórar álverksmiðjur eða hliðstæða stóriðju og láta nokkur hundruð starfsmenn hafa fyrir því að afla gjaldeyrisins, sem vantar, til þess að allir Íslendingar geti lifað í vellystingum praktuglega á innfluttum landbúnaðarafurðum.

Þetta er ekki sagt landbúnaðinum til hnjóðs. Þéttbýlisfólki er kunnugt um sögulegt gildi landbúnaðarins og veit, að fæstir bændur eru öfundsverðir af hlutskipti sínu. Því er líka kunnugt um, að jafnvægi í byggð landsins er ekki hægt að meta til fjár. En það er rétt, að allir geri sér grein fyrir hvað þetta kostar. Allir hafa gott af því að horfast í augu við staðreyndir, þótt óþægilegar séu.

Og staðreyndirnar segja okkur að á næsta ári ætli ríkið að leggja fram 4.989.798.000 krónur í niðurgreiðslur, uppbætur og önnur framlög til landbúnaðarins, eða um það bil eina milljón króna á ári á hvern meðalbónda í landinu. Og eru þá ótaldar 809.966.000 krónur, sem renna til landbúnaðarins á annan hátt en sem bein framlög.

Það er hrollvekjandi, að ástandið í verðlagsmálum landsins skuli vera orðið þannig, að unnt er að setja upp reikningsdæmi um, að þjóðin geti hagnazt á að leggja landbúnaðinn niður á einu bretti og fara að flytja inn landbúnaðarafurðir.

Hér er ekki ætlunin að hvetja til slíks, heldur reyna að hvetja menn til umhugsunar um stórbrotið vandamál.

Jónas Kristjánsson

Vísir