Enginn talar um vegi, flugvelli og hafnir sem óþarfa milliliði. Fáir sjá eftir því, að fjármunir eru notaðir til að afla bíla, flugvéla og skipa. Þetta eru allt saman viðurkennd samgöngutæki, aðferðir við að koma fólki og vörum sem skjótast frá einum.stað til annars. Allir vita, að öflugar samgöngur, þótt.þær kosti mikið fé, eru hornsteinar efnahagslegra framfara.
Saga efnahagslegra framfara er því jafnframt saga þróunar samgangna. En í enn meira mæli er hún saga þeirra samgangna, sem við köllum verzlun. Það er sú tegund samgangna, sem mest áhrif hefur haft, öldum og árþúsundum saman.
Tilkoma verslunar í fyrndinni gerbreytti þjóðfélagsháttum og lagði grundvöll að efnahagslegum framförum. Verzlunin gerði mönnum kleift að sérhæfa sig í atvinnuháttum og auka framleiðni sína. Sérhæfingin bætti vinnubrögðin og hefur alla tíð verið einn helzti hvati tækniþróunarinnar.
Milliliðurinn er mikilvægur, hvort sem hann er í verzlun eða öðrum samgöngum. Það er ekkert óþarft við milliliði, þótt þeir framleiði ekki vörur. Það er hreinn barnaskapur að skipta atvinnuvegum í undirstöðuatvinnuvegi, sem framleiði vöru og séu nytsamlegir, og aðra atvinnuvegi, sem ekki framleiði neitt og séu þess vegna að meira eða minna leyti óþarfir. En barnaskapur af þessu tagi er furðu útbreiddur hér á landi.
Jón Sigurðsson forseti skildi nauðsyn og mikilvægi verzlunarinnar eins og margar ritgerðir hans sýna. Hann taldi frjálsa, innlenda verzlun vera eina helztu forsendu þess, að Íslendingar. gætu myndað sjálfstætt ríki. Staðreyndin er nefnilega sú, að verslun stuðlar atvinnuvega mest að eflingu efnahags hverrar þjóðar. Verslunin er sjálfur hjartsláttur atvinnulífsins.
Verzlunarmenn eiga ekki að þurfa að láta bjóða sér að vera taldir annars flokks matvinnungar í þjóðarbúinu. Þeir eiga að geta borið höfuðið hátt, því að störf þeirra eru ein hin mikilvægustu í þjóðfélaginu. Þetta mega menn gjarna hugleiða nú um helgina, – á frídegi verzlunarmanna.
Menn ættu að hætta að tala um milliliðagróða eins og illa fengið fé. Menn ættu að hætta að nota kennslubækur í reikningi, þar sem verzlun er talin óþörf iðja. Reikningsdæmið um kaupmanninn, sem kaupir vöru á tíu krónur, selur hana aftur á ellefu krónur og er talinn græða eina krónu, er dæmi um frumstæðan hugsunarhátt í garð verzlunar. En þetta er kennt enn þann dag í dag.
Milliliðir kosta vitanlega peninga. Það þarf fé til rekstrar verslunar eins og annarra samgangna. Þetta fé er ekki notað til að framleiða áþreifanlegar afurðir, til dæmis kjöt. En það er samt langt frá því, að þessi kostnaður fari í súginn. Það sjáum við bezt með því að bera saman þjóðir, sem leggja misjafna áherzlu á verzlun.
Þær þjóðir, sem minnsta hafa verzlun, eru fátækastar allra. En þær, sem leggja mesta vinnu og fyrirhöfn í verzlun, hafa mestu þjóðarframleiðsluna og mestan auðinn.
Í þjóðfélagi nútímans er ekki hægt að telja verzlunina annars flokks atvinnuveg, er sjúgi fé og fyrirhöfn frá svokölluðum undirstöðuatvinnuvegum. Það er ekki hægt að hugsa sér neinn atvinnuveg, sem væri réttar nefndur undirstöðuatvinnuvegur en einmitt verzlunin.sjálf.
Jónas Kristjánsson
Vísir