Menningarbylting verbúða

Veitingar

Byltingin er komin til að vera í verbúðum Reykjavíkur. Þar er búið að innrétta hvert veitingahúsið á fætur öðru. Við Ægisgarð eru komin Höfnin, Tapashúsið, Kopar, Hamborgarabúllan, Verbúð 11 og Sægreifinn, flest með fisk í hásæti. Við Grandagarð eru komin Víkin, Matur & drykkur, Cookoo´s Nest og ísbúðin Valdís. Flestir þessara nýju staða eru frambærilegir eða betri. Jafnast að vísu ekki á við Sjávargrillið, Fiskfélagið og Fiskmarkaðinn, en eru líka yfirleitt ódýrari. Nú er svo komið, að útilokað er fyrir áhugamann að hafa sýn yfir matarmennt miðborgarinnar. Ferðamannabyltingin hefur haft menningarbyltingu í för með sér.